„Þennan dag fyrir fimm­tíu árum stóð til að skíra tæp­lega sex mánaða dreng í Garða­hreppi,“ sagði Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra á minningar­at­höfn um afa­bróður sinn og al­nafna sem haldin var á Þing­völlum í dag. „For­eldrar mínir höfðu á­kveðið að skíra mig í höfuðið á móður­afa mínum, sem hét Ingi­mundur, en svo bárust tíðindin af and­láti afa­bróður míns, Bjarna Bene­dikts­sonar. Ég hef stoltur borið þetta nafn síðan.“

Fimm­tíu ár eru í dag liðin frá því að þá­verandi for­sætis­ráð­herra, Bjarni Bene­dikts­son, eigin­kona hans Sig­ríður Björns­dóttir og dóttur­sonur þeirra, Bene­dikt Vil­mundar­son, sem var að­eins fjögurra ára gamall, létust í elds­voða á Þing­völlum. Minningar­at­höfn var haldin við minnis­varða á Þing­völlum í dag þar sem for­sætis­ráð­herra, Katrín Jakobs­dóttir, og Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, héldu ræður.

„Við stöndum ein­mitt hér við minningar­stein nafna míns, konu hans og litla dóttur­sonar þeirra. En bauta­steinn dr. Bjarna Bene­dikts­sonar er miklu stærri og hann mun standa jafn­lengi og Ís­land er byggt,“ sagði Bjarni meðal annars í ræðu sinni.

„Sá bauta­steinn er lýð­veldið okkar, byggt á lögum og rétti; lýð­veldi frjálsrar og full­valda þjóðar, sem ekki hikar við að skipa sér í fylkingu vest­ræns lýð­ræðis og vill verja, varð­veita og byggja upp það, sem okkur kom í arf og ber að skila til komandi kyn­slóða.“

Bjarni lagði blómsveig að minnisvarðanum við athöfnina í dag.
Fréttablaðið/Valli

Bjarni fjallaði um ævi afa­bróður síns sem varð prófessor í lögum við Há­skóla Ís­lands að­eins 24 ára gamall, gegndi em­bætti borgar­stjóra og sat lengst allra ís­lenskra ráð­herra, sem utan­ríkis- og dóms­mála­ráð­herra og for­sætis­ráð­herra.

„Ég full­yrði að fáir áttu meiri þátt í lýð­veldis­stofnuninni en Bjarni Bene­dikts­son, sem var ó­þreytandi í bar­áttunni fyrir full­veldi Ís­lands og sjálf­stæði, þegar ýmsir vildu draga lýð­veldis­stofnunina. Það náði ekki ein­vörðungu til hinnar laga­legu hliðar, sem þó var honum sér­stak­lega hug­leikin, heldur einnig til efna­hags­legs styrks og menningar­legrar reisnar, stjórn­mála­legs stöðug­leika, mann­legrar fjöl­breytni og frelsis hvers og eins, sem hann vissi að landi og þjóð væru nauð­syn­leg til þess að öðlast sjálf­stæði og varð­veita það,“ sagði Bjarni.

Hér að neðan má sjá fleiri myndir frá minningarathöfninni:

Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli