Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að lögreglan hafi verið að framfylgja skyldum sínum þegar hún handtók og flutti fimmtán manns frá Íslandi til Grikklands í nótt.
Spurður frekar út í málið sagðist hann ekki geta tjáð sig um einstök mál, og vildi til að mynda ekki ræða tímasetninguna á aðgerðum lögreglunnar, eða fullyrðingar Isavia um að lögreglan hafi fyrirskipað öryggisgæslu Keflavíkurflugvallar um að hindra fyrir blaðamönnum. Isavia hefur síðan boðist afsökunar á þætti sínum í því máli.
„Ég hef ekkert meira um þetta að segja, þessu símtali er lokið.“ sagði Jón þegar blaðamaður spurði hann frekar út í málið.
Líkt og áður segir voru fimmtán hælisleitendur fluttir frá íslandi til Grikklands klukkan fimm í nótt. Til stóð að að flytja 28 manns, en þrettán þeirra fundust ekki þegar þeirra var leitað. Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, sagði í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag að virk leit væri enn í gangi af þessum þrettán.
Fjöldi fólks hefur fordæmt brottflutninginn, sem og félagasamtök eins og Rauði krossinn á Íslandi, Landssamtök Þroskahjálpar og Solaris. Þá hefur verið boðað til mótmæla klukkan 17.15, síðar í dag.
Claudia Ashanie Wilson, lögmaður fjölskyldu sem var flutt út í nótt, segir að í Grikklandi bíði þeirra ómannúðlegar aðstæður, og óttast hún að þau endi á götunni. Þá hefur hún sérstakar áhyggjur af fötluðum manni sem var handtekinn og fluttur til Grikklands, vegna þess að hún býst ekki við því að hann muni fá heilbrigðisþjónustu í Grikklandi.