Pabbi minn var eins og hann var, dóp­isti og úti­gangs­maður, en hann var kannski líka með ein­hverja spá­dóms­gáfu,“ segir Þuríður Blær Jóhanns­dóttir, ætíð kölluð Blær, um föður sinn, Jóhann Vísi Gunnars­son. Jóhann hefur í tví­gang reynst sann­spár um líf Blævar og fléttaðist líf feðginanna á ó­væntan hátt saman á ný eftir að hann greindist með krabba­mein í ristli á meðan á með­göngu hennar stóð.

„Sam­band okkar var í gegnum tíðina stopult en það var alltaf ein­hver sam­gangur okkar á milli og ég hef aldrei skammast mín fyrir hann.“ Jóhann bjó í einum af gámunum úti á Granda og var tíður gestur í mið­bænum þar sem hann var á­vallt kallaður Jói dúkari. „Hann var bara einn af þessum úti­gangs­mönnum á Austur­velli og þegar hann heilsaði mér kynnti ég hann alltaf fyrir vinum mínum sem pabba minn.“ Það kom fólki iðu­lega í opna skjöldu en varð aldrei til þess að Blævi þætti vand­ræða­legt að hann væri hluti af lífi hennar.

„Pabbi skrifaði sig inn í líf mitt upp á nýtt áður en hann dó.“

Ör­laga­dómur kvað á um að Jóhann myndi spila veiga­mikið hlut­verk í lífi ó­fædds barna­barns síns áður en hann féll frá síðast­liðinn nóvember. „Pabbi skrifaði sig inn í líf mitt upp á nýtt áður en hann dó og þrátt fyrir að hann hafi ekki náð að verða afi sonar míns nær hann samt að ein­hverju leyti að vera mjög stór partur af honum.“ Með­ganga Blævar hefur verið sam­ofin spá­dómi Jóhanns sem spáði því rétti­lega að hún gengi með dreng áður en hún hafði sagt nokkrum frá því að hún ætti von á barni.

Samband Blævar og Jóhanns var ekki alltaf auðvelt en þau voru ávalt í lífi hvors annars.

Upp­fyllti lof­orðið


Þetta var þó ekki í fyrsta sinn sem Jóhann sá fram­tíð dóttur sinnar fyrir. „Pabbi sagði alltaf við mig að áður en ég fæddist hafi ég komið til hans í hug­leiðslu.” Í leiðslunni vitjaði Blær föður síns og tjáði honum að í ó­kominni tíð yrði hún skemmti­kraftur og söng­kona en til að af því gæti orðið þyrfti hann að vera hluti af lífi hennar fyrstu fjögur árin. „Annars myndi ég ekki lifa af.“ Stæði hann við það lof­orð myndi allt ganga Blævi í haginn. „Hann sagði mér þessa sögu löngu áður en spá­dómurinn rættist, þetta fylgdi mér alla mína daga.“

„Það er samt hluti af mér sem vill trúa því að pabbi og annað fólk sem býr á götunni og á­netjast efnum sé rosa­lega næmt og opnara fyrir því ó­út­skýran­lega í heiminum.“

For­eldrar Blævar vörðu fyrstu árum hennar saman en þegar hún varð fjögurra ára hel­tóku hana al­var­leg veikindi. Hún þurfti að fara í að­gerð og fékk lífs­hættu­lega háan hita. „Pabbi sagði alltaf að ég hefði verið alveg ó­huggandi og grátið út í eitt þar til hann tók mig upp og þá lagaðist ég.“ Eftir að Blævi batnaði skildu leiðir for­eldra hennar. „Hann vill meina að hann hafi staðið sína plikt enda hafi hann verið hjá mér þau ár sem við sömdum um forðum.“

Blær viður­kennir að al­mennt sé hún ekki mjög and­lega þenkjandi og taki spá­dómum og öðru með á­kveðnum fyrir­vara. „Það er samt hluti af mér sem vill trúa því að pabbi og annað fólk sem býr á götunni og á­netjast efnum sé rosa­lega næmt og opnara fyrir því ó­út­skýran­lega í heiminum.“ Það hljóti þó að vera erfitt og því finni þau hjá sér þörfina til að deyfa sig. „Ein­fald­lega af því að þau finna of mikið.“

Blær ásamt teikningu Jóhanns af henni og ófæddum syni hennar.
Fréttablaðið/Sigtryggur

Aldrei auð­velt sam­band

Sam­band feðginanna var aldrei auð­velt og það reyndist erfitt fyrir Blævi að treysta því að faðir hennar væri ekki undir á­hrifum þegar þau hittust. „Ég heim­sótti hann oftast án þess að gera boð á undan mér, líkt og hann gerði við mig, og þá fór það eftir því í hvernig á­standi hann var hvort við gátum átt sam­ræður.“

Þetta breyttist þó á loka­metrunum. Þegar Jóhann var lagður inn á spítala með krabba­meinið þurfti hann að vera edrú fyrir að­gerðina og með­ferðina sem henni fylgdi. „Þegar hann var þarna á spítalanum gat ég alltaf treyst því að hann væri hann sjálfur og að ég væri ekki að hitta hann í ein­hvers konar á­standi. Það var ó­trú­lega dýr­mætt.“

Hann setti mark sitt á alla stóru á­fangana í með­göngunni, hvort sem hann var lífs eða liðinn.

Jóhann lá inni á spítala daginn sem Blær og kærastinn hennar, spuna­leikarinn góð­kunni, Guð­mundur Felix­son, komust að því að þau ættu von á barni. „Daginn sem ég pissa á prikið vildi svo til að við fórum í fyrsta skipti í heim­sókn til hans saman á deildina.“ Faðir Blævar hafði braggast vel eftir fyrstu að­gerðina og var niður­sokkinn í að teikna, eins og honum var lagið, þegar parið gekk inn. „Það fyrsta sem hann segir við mig þegar hann sér mig er: „Þarna ert þú og strákurinn“ og bendir á mynd af konu sem heldur á ung­barni.“ Verðandi for­eldrarnir litu á hvort annað með kímni­bros á vör en létu ekkert uppi.

„Við hlógum að þessu eftir á, það er svo merki­legt að allt sem við kemur þessari ó­léttu tengdist pabba mínum á ein­hvern hátt.“ Hann setti mark sitt á alla stóru á­fangana í með­göngunni, hvort sem hann var lífs eða liðinn.

Síðustu mánuðir í lífi Jóhanns skyggðu allt sem á undan var gengið og minningin um þann tíma mun ætíð skína hvað skærast.

Um­breyttist á einni nóttu

Þegar kom að tólf vikna sónarnum hringdi síminn. „Það var systir mín sem segir mér að ég þurfi að koma strax upp á spítala þar sem eitt­hvað mikið sé að.“ Jóhann hafði þá legið inni á spítala í rúma tvo mánuði og dvalið um skeið á geð­deild til að tryggja að hann héldist þurr.

„Hann var orðinn miklu betri og var byrjaður í krabba­meins­með­ferð en þennan sama dag átti að flytja hann frá geð­deild yfir á á­fanga­heimili.“ Allt hafði gengið að óskum þar til nóttina áður þegar drep kom í sár hans og honum hrakaði ört.

„Hann var kominn á gjör­gæslu þegar við mættum á spítalann.“ Fyrir til­viljun var hann stað­settur að­eins ör­fáa metra frá deildinni þar sem þau áttu bókaða tólf vikna skoðun. „Áður en við vissum hver staðan var, sáum við fyrir okkur að geta mögu­lega skroppið í sónarinn þarna á milli.“ Ekkert varð þó úr því. „Þegar við komum var okkur sagt að nú væri kveðju­stund.“

Þessum orðum fylgdi á­fall. „Við höfðum hitt hann að­eins tveimur dögum fyrr í góðu á­sig­komu­lagi. Allt í einu fór hann frá því að vera full­frískur í að vera við dauðans dyr.“

Jóhann Vísir Gunnarsson bjó í gámunum á Granda og var alla tíð mannblendin og ánægður með að fá fólk í heimsókn.
Mynd/Gísli Hjálmar Svendsen

Horfðu á lífið fjara út

Dagurinn fór því í að kveðja Jóhann frekar en að heilsa upp á fóstrið. „Ég sagði honum þá frá barninu, maður vill venju­lega ekki segja neitt fyrr en að loknum sónarnum sem við áttum að fara í þennan dag, svo hann vissi ekki tækni­lega séð af ó­léttunni.“ Ekki sé víst að hann hafi heyrt leyndar­málið. „Mér líður samt þannig, eins og ég hafi séð hann brosa þegar ég sagði honum að hann væri að verða afi,“ segir Blær hrærð.

„Við horfðum á þegar slökkt var á öllum tækjunum sem héldu í honum lífinu og sáum hvernig lífið fjaraði út.“ Til­finningarnar sem fylgdu voru sorg­legar, ógn­vekjandi en líka fal­legar. Því fylgdi ó­neitan­lega þakk­læti að hann fengi að kveðja eftir að hafa verið edrú í meira en tvo mánuði, og hafandi endur­nýjað tengslin við börn sín.“

Að ein­hverju leyti get ég ekki í­myndað mér betri dauð­daga fyrir pabba minn.

Auð­veldara að syrgja og elska

„Að ein­hverju leyti get ég ekki í­myndað mér betri dauð­daga fyrir pabba minn. Það hefði verið svo ömur­legt ef hann hefði sleppt því að mæta í með­ferðina, dottið aftur í það og dáið þessum langa dauð­daga.“

Kveðju­stundin var því bæði sorg­leg og kær­komin. „Allir sem eiga for­eldra í þessari stöðu skilja að maður er alltaf að syrgja þau þrátt fyrir að þau séu á lífi en það er gott að geta syrgt hann núna og auð­veldara að elska hann fyrir það sem hann var.“

Þessir síðustu mánuðir í lífi Jóhanns náðu að yfir­vinna allt sem á undan var gengið og minningin um hann frá þessum tíma er ein sú skærasta sem Blær á. „Ég fékk þessa full­komnu kveðju­stund og mun alltaf varð­veita tímann sem leiddi að henni.“

Þegar faðir hennar yfir­gaf þetta líf fann Blær hvernig andi hans sveif í loftinu. „Ég man að ég hugsaði: Ekki fara með sálina hingað inn í magann á mér, en skildu samt smá hluta af þér eftir.“

„Allir sem eiga for­eldra í þessari stöðu skilja að maður er alltaf að syrgja þau þrátt fyrir að þau séu á lífi."
Fréttablaðið/Sigtryggur

Lék sjálfa sig ó­vænt á sviði

Röð til­viljana virðist hafa elt Blæ á með­göngunni en hún var á þessum tíma að æfa fyrir leik­sýninguna Helgi Þór rofnar, sem sýnd var í Borgar­leik­húsinu. Sýningin varð á svip­stundu spegil­mynd af lífi hennar. „Öll þessi sýning er um mátt spá­dóma og hvernig spá­dómur föður aðal­per­sónunnar rætist að lokum.“

Blær fór með hlut­verk ungrar konu sem var barns­hafandi og gerir upp sam­band sitt við föður sinn, sem var ó­göngu­maður, eftir að hann deyr. „Ég fékk hlut­verkið árinu áður en þegar við byrjuðum að æfa verð ég ó­létt og missi pabba minn. Þegar ég mæti síðan einn daginn í vinnuna fatta ég að ég er bara að leika lífið mitt.“

„Þegar ég mæti síðan einn daginn í vinnuna fatta ég að ég er bara að leika lífið mitt.“

Í fyrstu senu leik­sýningarinnar heim­sækir per­sóna Blævar föður sinn í lík­húsið. „Per­sónan horfir á líkið á lík­börum þegar ég er sjálf ný­búin að horfa á pabba minn á lík­börum.“ Eftir því sem til­viljanirnar fóru að hrannast upp komst Blær ekki hjá því að líta á leik­sýninguna sem ein­hvers konar tákn. Hún fór jafn­vel að í­mynda sér að til­viljanirnar væru ekki til­viljanir heldur skila­boð um að æðra afl hafi spunnið þessa ör­laga­strengi.

Sameiginlega veisla

Eftir and­látið var Blævi út­hlutaður nýr tími í sónar og lenti þar með tuttugu vikna skoðunin fyrir til­viljun á af­mælis­degi föður hennar. „Við skipu­lögðum kynja­veislu sama dag og á­kváðum að við fengjum ekkert að vita sjálf.“ Starfs­manni Partý­búðarinnar var rétt um­slag með kyni barnsins og síðan var út­veguð blaðra sem myndi upp­ljóstra sann­leikanum þegar hún yrði sprengd seinna um kvöldið.

Nær­vera Jóhanns var allt­um­lykjandi í veislunni og vakti mynd hans yfir gestum á­samt inn­rammaðri teikningu af Blævi og syni hennar. „Að ein­hverju leyti varð þetta hans veisla líka, honum tókst að troða sér inn í þetta á af­mælis­daginn sinn og það er mjög fyndið hvað hann var lítill partur af lífi mínu en stór hluti af þessari með­göngu.“

Gestir fengu tæki­færi til að giska á kynið og var greini­legt að flestir þeirra trúðu spá­dómi Jóhanns og veðjuðu á að barnið yrði drengur. Verðandi for­eldrarnir voru ekki sann­færðir og bjuggust frekar við stúlku. „Ég veit ekki hvaða mót­þrói þetta var í okkur en svo var þetta auð­vitað strákur.“

Vinir skötu­hjúanna og ættingjar eru sann­færðir um að drengurinn verði nefndur í höfuðið á Jóhanni en sú nafn­gift myndi einnig ríma við nafn­gift Blævar. „Það voru svipaðar að­stæður uppi á teningnum sem urðu til þess að ég var skírð Þuríður Blær.“

„Honum tókst að troða sér inn í þetta á af­mælis­daginn sinn og það er mjög fyndið hvað hann var lítill partur af lífi mínu en stór hluti af þessari með­göngu.“

Blær er ein ástsælasta leikkona Íslands og lék að einhverju leyti sjálfa sig í verkinu Helgi Þór rofnar.
Fréttablaðið/Sigtryggur

Sagan endur­tekur sig

Amma Blævar, Þuríður, lést stuttu eftir að Blær fæddist og leit Jóhann á það sem tákn um að dóttir hans skyldi bera sama nafn. Móðir Blævar hafði hins vegar gert upp hug sinn áður en hún vissi að hún bæri barn undir belti. Hún var að lesa Brekku­kots­annál þegar hún rak augun í nafnið Blær og á­kvað þá þegar að ef hún eignaðist stúlku myndi hún hljóta nafnið Blær.

„Hún vissi ekki þá að hún var ó­létt af mér, orðin þrjá­tíu og tveggja ára og löngu búin að gefa upp vonina.“

Faðir Blævar var ekki jafn styrkur í trúnni um að Blær væri rétt nafn fyrir dóttur sína og þótti það of harð­gert nafn fyrir litla stelpu. „Hann bað mömmu því um að bíða í viku og hugsa málið.“ Í þeirri viku setur manna­nafna­nefnd lög um að ekki megi heita karl­kyns­orði nema það sé sterk hefð fyrir því. Þrátt fyrir það var á­kveðið að dóttirin hlyti nafnið Þuríður Blær Jóhanns­dóttir.

Það at­vikaðist þó þannig að starfs­maður Þjóð­skrár tók það upp á sína arma að fjar­lægja milli­nafnið þar sem enn var ekki búið að sam­þykkja það og nafnið hafði verið lengi í bið­stöðu. „Konunni fannst alveg ó­mögu­legt að ég héti ekki neitt í marga mánuði og þess vegna fékk ég ekki lög­lega að heita Blær fyrr en lögunum var breytt fyrir nokkrum árum.“

„Ég fékk ekki lög­lega að heita Blær fyrr en lögunum var breytt fyrir nokkrum árum.“

Hringnum lokað

Sjálf full­yrðir Blær að hún muni velja nafn fyrir son sinn út frá þeim manni sem hann hefur að geyma. „Mamma giskaði á að hann myndi heita Snjór svo ef ég fylgi óskum annarra þá gæti hann heitið Jóhann Snjór og þar af leiðandi verið kallaður John Snow á ensku,” segir Blær hlæjandi.

Enginn veit þó hvað tíminn ber í skauti sér en Blær telur að blessunar­lega vofi ekki fleiri spá­dómar yfir lífi hennar að svo stöddu. Hringnum verði þó ekki endan­lega lokað fyrr en drengurinn fæðist.

„Þá er þessi saga kláruð finnst mér. Ég er enn þá inni í henni núna en við fæðinguna byrjar nýr og spennandi kafli.“