Þau ætluðu að tjá sig eftir covid-prófið en var sagt að drífa sig inni bíl, þau voru í fylgd þriggja lögreglumanna,“ segir maður sem ekki vill láta nafns síns getið um egypsku fjölskylduna sem vísa á úr landi á miðvikudag. Fjölskyldan var send í COVID-próf í dag og var prófið hluti af undirbúning fjölskyldunnar fyrir brottvísun.

„Ég hef verið í sambandi við þetta fólk undanfarið og hef aldrei séð þau eins hrædd og í dag. Þau voru hér í fylgd lögreglu, þau voru ekki frjáls,“ segir maðurinn.

Fjölskyldan sem telur sex manns, hjónin Dooa og Ibrahim og börnin þeirra fjögur sem eru á aldrinum 5-12 ára, kom hingað til lands þann 7. ágúst árið 2018 og sótti um alþjóðlega vernd. Þeim var neitað um vernd og verða því send aftur til Egyptalands 16. september næstkomandi.

Lögmaður fjölskyldunnar, Magnús D. Norðdahl, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að fólkið hafi verið bæði hvekkt og hrætt, þá segir hann þau enn trúa því að ekki verði af brottvísuninni. „COVID-prófið er partur af þessari þvinguðu brottvísun sem að óbreyttu á að fara fram á miðvikudaginn, en við trúum því og treystum að svo verði ekki,“ segir Magnús.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í viðtali á Bylgjunni á sunnudag að skoða þurfi hvers vegna tíminn sem tekið hefur að fá úrlausn í máli fjölskyldunnar hafi ílengst svo mikið og að ekki sé mannúðlegt að halda fólki í óvissu svo lengi, sér í lagi ekki börnum.

Magnús segir það skjóta skökku að unfirbúa brottvísun fjölskylduna og þvinga þauí COVID-próf nú, á sama tíma og henni hafi borist slíkur stuðningur frá forsætisráðherra. „ Það skýtur þó skökku við og er ákaflega sorglegt að á sama tíma og stuðningur berst frá forsætisráðherra er stoðdeild ríkislögreglustjóra í fullum gangi að undirbúa framkvæmd brottvísunar en til stendur að láta fjölskylduna undirgangast próf vegna Covid-19. Það er ekki sársaukalaust að undirgangast slíkt og þá ekki síst fyrir börn,“ segir Magnús.

„Fjölskyldan þakkar forsætisráðherra og bindur nú ríkari vonir en ella við að mál þeirra fái farsælan endi,“ bætir hann við.