Yfirmaður öryggismála á Höfða furðaði sig á því að Dagur B. Eggertsson hefði komið á reiðhjóli á fund Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, í dag. „Ég hef aldrei áður hitt borgarstjóra á hjóli,“ tjáði yfirmaðurinn borgarstjóra sem virtist efast um að Dagur væri yfir höfuð borgarstjóri.

Þá á yfirmaðurinn að hafa þríspurt starfsmann sendiráðs Bandaríkjanna hvort Dagur væri „virkilega“ borgarstjórinn í Reykjavík að því er fram kemur í tísti Dags á Twitter. „Einhvern tíman er allt fyrst,“ svaraði borgarstjóri öryggisverðinum.

Áfram fjölbreytileiki

Það kann einnig að hafa komið bandarísku sendinefndinni spánskt fyrir sjónir að sjá fána hinsegin fólks blakta víða í nágrenni Höfða. Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kallaði eftir því að regnbogafáninn yrði dreginn að húni í dag. „Áfram fjölbreytileikinn - frelsið og ástin,“ segir Hildur í færslu á Facebook.

Hildur sá til þess að fánunum yrði flaggað við Höfðatorg í þann mund sem Mike Pence mætti til fundar á Höfða. „Ég tel rétt að Reykjavíkurborg taki stöðu með mannréttindum,“ bætir hún við.