Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 27. janúar 2023
22.45 GMT

Tinna ólst upp í Hnífsdal á því sem hún lýsir sem ástríku heimili.

„Ég á yndislega og ástríka foreldra og það var gott að alast upp í Hnífsdal, þar sem samstaðan var mikil.“

Þegar Tinna var 13 ára var heimi hennar þó snúið á hvolf þegar foreldrar hennar fóru í gegnum sáran og erfiðan skilnað.

„Skilnaðurinn var mömmu og okkur öllum erfiður en pabbi fór að búa með móður bestu vinkvenna minna,“ segir Tinna og bendir á að erfitt geti reynst að takast á við slíkt í svo litlu samfélagi. Í framhaldi tók systir Tinnu, þá aðeins tvítug, hana í fóstur og hún flutti til Reykjavíkur þar sem hún gekk einn vetur í Laugalækjarskóla.

„Þetta var áfall fyrir alla fjölskylduna svo mamma ákvað að leyfa mér að fara til systur minnar en eftir veturinn fór ég aftur vestur til mömmu og lauk grunnskóla þar.“


„Skilnaðurinn var mömmu og okkur öllum erfiður en pabbi fór að búa með móður bestu vinkvenna minna."


Tinna segir systur sína hafa haldið uppi miklum aga á 14 ára unglingnum þrátt fyrir eigin unga aldur.

„Hún vildi passa upp á litlu systur sína.“

Að grunnskóla loknum var Tinna ákveðin í að flytja suður.

„Ég fékk snemma mikinn áhuga á tísku og sá það í hillingum að vera í bænum þar sem ég kæmist í fatabúðir og svo framvegis. Ég flutti því í bæinn og fór í Iðnskólann í Reykjavík og vann með skólanum.“

Lamaðist fyrir neðan mitti


Tinna segist nú oft hugsa til tækifæris sem hún fékk þegar hún var 18 ára. Tækifæris til að segja heilbrigðisstarfsfólki frá leyndarmálum sem hún hafði burðast með og áttu eftir að hafa áhrif á allt hennar líf.

Tinna upplifði þá óhugnanlegu tilfinningu að missa allan mátt í fótum, oftar en einu sinni.

„Ég var í rannsóknum í lengri tíma enda lamaðist ég alltaf öðru hvoru í öðrum fætinum eða báðum og stundum leiddi þetta líka fram í handleggi. Eftir langvarandi rannsóknir á Landspítala og Grensásdeild var tekinn úr mér mænuvökvi til rannsóknar. Í ljós komu bólgnir taugaendar sem þrýstu á mænuna.“

Það er fundur með teymi lækna sem móðir Tinnu sat einnig, sem er henni sérlega minnisstæður.

„Læknarnir spurðu okkur hvort ég hefði lent í einhvers konar áfalli,“ segir Tinna og útskýrir að læknarnir hafi tengt einkenni veikindanna við mögulegt áfall. „Taugaáfall getur leitt til alls konar líkamlegs ástands. Svar mitt var nei en mamma sagði þeim frá skilnaðinum. Ég þorði ekkert að segja frá hinum áföllunum. Ég hef oft hugsað út í það að ef ég hefði sagt frá leyndarmálunum mínum þarna hefði ævi mín mögulega orðið öðruvísi.“


„Ég hef oft hugsað út í það að ef ég hefði sagt frá leyndarmálunum mínum þarna hefði ævi mín mögulega orðið öðruvísi.“


Tinna segist oft hafa hugsað út í það að ef hún hefði sagt frá leyndarmálunum þegar færi gafst þegar hún var 18 ára, hefði ævi hennar mögulega orðið öðruvísi. Fréttablaðið/Auðunn Níelsson

Varð fyrir ofbeldi á barnsaldri


Tinna segist ekki hafa viljað horfast í augu við það sem henti hana bæði á barns- og unglingsaldri.

„Þegar ég er lítil stelpa varð ég í nokkur skipti fyrir misnotkun af hendi góðs vinar fjölskyldunnar. Svo þegar ég er unglingur er mér nauðgað. Bæði þegar ég var 13 ára og 16 ára.“

Undanfarin ár hefur Tinna aftur á móti verið í ýmiss konar sjálfs- og áfallavinnu og segir þá sérfræðinga sem hún hafi leitað til vera á sama máli, að framhaldið hefði verið annað ef hún hefði fengið aðstoð við að vinna úr áföllunum fyrr.

„Þeir sem ég hef leitað til segja allir að ég hafi þróað alkóhólisma út frá áfallasögu. Sjálf er ég sannfærð um það því ég átti svo marga spretti í lífinu þar sem ég var ekki svona alkóhólísk.“


„Þegar ég er lítil stelpa varð ég í nokkur skipti fyrir misnotkun af hendi góðs vinar fjölskyldunnar. Svo þegar ég er unglingur er mér nauðgað. Bæði þegar ég var 13 ára og 16 ára.“


Varð móðir aðeins 19 ára


Tinna kynntist barnsföður sínum 17 ára og varð fljótt barnshafandi, eða aðeins 18 ára gömul. Líkamlegu einkennin minnkuðu mikið á meðgöngu og fjöruðu svo endanlega út.

„Ég var svo hamingjusöm og það varð mér svo dýrmætt að verða móðir,“ segir Tinna sem telur bætta andlega líðan þannig hafa orðið henni til lækningar.

„Ég var heilsteypt í móðurhlutverkinu. Ég er sjálf alin upp á fallegu og ástríku heimili þar sem allt var í röð og reglu og vildi það sama fyrir son minn,“ segir Tinna sem upplifði móðurhlutverkið aldrei sem byrði þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gömul.

„Við höfum alltaf verið samrýnd, ég og strákurinn minn, og við eigum náið og gott samband,“ segir Tinna um einkasoninn sem nú er 22 ára.


„Ég var heilsteypt í móðurhlutverkinu. Ég er sjálf alin upp á fallegu og ástríku heimili þar sem allt var í röð og reglu og vildi það sama fyrir son minn."


Tinna segir að á þessum árum hafi fólk í kringum hana mikið notað kókaín þegar það skemmti sér.

„Ég var lengi sú eina sem notaði ekki og var oft út undan vegna þessa. Þetta þótti bara eðlilegt og þykir ennþá, en það er það ekki.“

Tinna hafði eins og fyrr segir alltaf haft mikinn áhuga á tísku og eftir að hafa sett upp sína fyrstu tískusýningu bauðst henni að stílisera keppnina Ungfrú Ísland.is. Hlutirnir gerðust hratt og Tinna fór að vinna fyrir módelskrifstofuna Eskimo.

„Ég varð framkvæmdastjóri Ford-keppninnar ásamt því að sjá um sjónvarpsþætti um undirbúning og keppnina. Ég vann mikið að búningum auglýsinga ásamt því að finna módel og leikara í verkefni fyrir Eskimo,“ segir Tinna sem þarna um 2003 var komin á kaf í tískugeirann sem hana hafði alltaf dreymt um.

Tinna hefur um árabil starfað í tísku- og kvikmyndageiranum hér á landi, var um tíma framkvæmdastjóri Ford keppninnar og vinnur nú við gerð HBO þáttaraðarinnar True Detective. Fréttablaðið/Auðunn Níelsson

Upplifði frelsi í fyrsta skipti


Það var svo eitt kvöldið þar sem hún var úti á lífinu að hún prófaði í fyrsta sinn kókaín.

„Ég veit ekki af hverju ég vildi það, ég hef líklega bara verið forvitin og þetta var orðið svo eðlilegt.“

Tinna, sem alltaf hafði þjáðst af miklu óöryggi og kvíða, upplifði frelsi undir áhrifum kókaíns.

„Það er skrítið að segja frá því en þannig lýsa alkóhólistar því að prófa í fyrsta skipti – það gerist eitthvað innra með þeim. Það er frelsið frá þessu víti sem maður er fastur í, í eigin líkama. Maður nær að deyfa sársaukann, manni líður vel og maður opnast,“ lýsir Tinna en bætir við að vítið endurskapist svo með fíkninni, þessari eilífu leit aftur að vellíðaninni, frelsinu.

„Ég var alltaf rosalega feimin og þorði ekki að vera ég sjálf. Ég var alltaf grátandi ef við vorum að fara eitthvað, til dæmis í matarboð. Mér fannst ég ömurleg. Líf mitt hafði bara alltaf verið þannig.“


„Það er skrítið að segja frá því en þannig lýsa alkóhólistar því að prófa í fyrsta skipti – það gerist eitthvað innra með þeim. Það er frelsið frá þessu víti sem maður er fastur í, í eigin líkama."


Ógeðslegur vítahringur

Lengi vel notaði Tinna aðeins kókaín á skemmtanalífinu.

„Svo kom að því að ég fór að fara meira út á djammið, kynntist mörgu fólki, fór að vera lengur úti og missa tökin. Þetta varð ógeðslegur vítahringur. Ég náði lengi að vera móðir og þó ég væri andlega fjarverandi passaði ég að það væri matur á borðum og svo framvegis en svo fór ég að missa það líka.“

Í kjölfar efnahagshrunsins missti Tinna heimili sitt og á svipuðum tíma skildu hún og barnsfaðirinn. Það var þá, árið 2013, sem stjórnin á neyslunni var úr hennar höndum og í kjölfarið, lífinu öllu.

Tinna fór í nýtt samband sem hún lýsir sem skelfilegu.

„Það var mikið andlegt og kynferðislegt ofbeldi og ég endaði á spítala með mikla áverka. Þetta var hræðilegt, ég var að koma að honum með alls konar konum í rúminu og ég dró eina út á hárinu. Þetta var algjörlega sjúkt samband og mikil neysla.“


„Það var mikið andlegt og kynferðislegt ofbeldi og ég endaði á spítala með mikla áverka. Þetta var hræðilegt, ég var að koma að honum með alls konar konum í rúminu og ég dró eina út á hárinu.“


Ég hataði karlmenn

Sambandið varði í rúmt ár og segist Tinna að því loknu hafa verið búin að missa lífsviljann.


„Ég var alltaf að leita í fólk sem var verra statt en ég. Ég endaði í hópi glæpamanna og mjög veikra fíkla,“ segir hún en reiðin var orðin ráðandi afl í lífi hennar.

„Ég hataði karlmenn og langaði að hefna mín,“ segir Tinna sem var komin inn í hringiðu óreglu og fíkniefna.

Barnsfaðir Tinnu gat ekki horft upp á ástandið og tók son þeirra til sín í byrjun árs 2018.

„Þá var ástandið búið að vera mjög slæmt í eitt ár,“ segir Tinna og ekki var útlitið bjart þegar hún hafði misst einkasoninn frá sér og eins íbúðina sem hún hafði leigt.

Þráin til að verða edrú var sterk og tilraunirnar margar en entust þó ekki nema nokkrar vikur í senn. Það var svo árið 2014 sem hún fór í sína fyrstu meðferð á Vogi en tveimur mánuðum síðar var hún fallin.

„Ég var ekkert að tengja við AA, var greinilega ekki tilbúin að hætta. Ég gat ekki séð fyrir mér að mega aldrei aftur fá mér rauðvín, þó ég myndi hætta að taka kókaín. En auðvitað get ég bara aldrei aftur fengið mér í glas,“ segir hún.


Allslaus á götunni


Eftir að hafa farið vestur til móður sinnar yfir sumarið kom Tinna aftur í bæinn í ágúst og eins og hún orðar það sjálf: „Þá byrjaði ballið!“

„Ég var bara í partíum og á götunni frá ágúst og fram í nóvember. Ég átti hvergi heima og gisti bara einhvers staðar. Ég hataði sjálfa mig og langaði bara að deyja. Þegar rann af mér leið mér svo illa og ég komst ekki undan sænginni,“ segir Tinna sem var ákveðin í að svipta sig lífi.


„Ég var bara í partíum og á götunni frá ágúst og fram í nóvember. Ég átti hvergi heima og gisti bara einhvers staðar. "


„Það voru allir alltaf að reyna að hjálpa mér en ég gat ekki þegið hjálpina. Ég var búin að missa son minn og allt sem ég átti.

Áður en ég fór vestur til mömmu var brotist inn til mín og allt sem ég átti tekið. Ég sem hafði átt svo fallegt líf, fallegt innbú og fatnað, átti nú ekkert.“

Tinna segir alla hafa reynt að hjálpa sér - hún hafi bara ekki getað þegið hjálpina. Fréttablaðið/Auðunn Níelsson

Það grétu allir viðstaddir


Fyrsti nóvember árið 2018 er í huga Tinnu upphafið að nýju lífi. Dagurinn sem hún gekk inn á Hlaðgerðarkot í þriggja mánaða meðferð.

„Ég reyndi að taka mitt eigið líf og það heppnaðist ekki. Ég fann þá svo sterkt að ég vildi ekki fara frá syni mínum og fannst ég eiga meira skilið.“

Nokkrum dögum síðar var Tinna hjá tengdamóður sinni þangað sem barnsfaðir hennar og þrjár vinkonur komu til að hvetja hana í meðferð.

„Ég varð brjáluð og réðst á barnsföður minn. Það grétu allir viðstaddir enda horfðu þau á mig alveg tryllta.“

Eitthvað hafði þó gerst innra með Tinnu sem vildi komast í meðferð og pantaði sér viðtalstíma hjá SÁÁ, þangað sem hún svo mætti drukkin. Það var svo ekki fyrr en eiginkona föður hennar, sem sjálf hefur unnið með konum með fíknivanda, sótti Tinnu niður í bæ í tryllingsástandi, að hreyfing komst á hlutina.

„Ég var bara farin að berja fólk – ég var alltaf í því að meiða aðra. Hún kom að sækja mig niður í bæ en ég neitaði að fara, en þegar mér var hent út úr partíi daginn eftir sótti hún mig aftur og þá var ég tilbúin. Hún fór með mig í bústað og það var pantað fyrir mig á Hlaðgerðarkot þangað sem ég átti að hringja á hverjum degi þar til ég fengi pláss.“

Brotnaði saman í lögreglubíl


Tinna ákvað að halda sér edrú þangað til að því kæmi en viku síðar var hún svo komin í lögreglubíl, handtekin fyrir að leggja hendur á neyslufélaga sinn.


„Þarna, í fyrsta sinn á þessu tveggja ára djammi, fæ ég taugaáfall. Ég bara græt í lögreglubílnum og segi: Ég verð að komast í meðferð!“


„Þarna, í fyrsta sinn á þessu tveggja ára djammi, fæ ég taugaáfall. Ég bara græt í lögreglubílnum og segi: Ég verð að komast í meðferð!“


Tinna segir lögregluþjónana hafa sýnt sér mikinn stuðning, enda annar þekkt hana eftir að hafa leikið með henni í kvikmyndum.

„Þarna fékk ég bara nóg. Þetta var á mánudegi og ég fór inn á Hlaðgerðarkot á fimmtudegi.“

Þangað inn gekk Tinna algjörlega brotin og sá fyrir sér að þriggja mánaða meðferð væri heil eilífð. En þrátt fyrir að vera í molum hið innra klæddi Tinna sig upp.

„Ég var í háum hælum og hvítum síðum pels,“ segir hún og hlær.

„Ég átti enga sjálfsvirðingu, hún hékk í þessum hvíta pels.“


Reiði það eina sem stóð eftir


Tinna lýsir því hvernig neyslan hafi skapað mikinn tilfinningadoða.


„Ég átti ekki sorg, ekki gleði og ekkert frumkvæði. Eina tilfinningin sem ég átti í neyslunni var reiði, ég gat ekki einu sinni grátið fyrr en í lögreglubílnum. Það var allt farið. Það var ekkert sem bjó innra með mér nema reiði.

Ég var í miklu niðurrifi, hataði sjálfa mig meira en allt í heiminum. Þarna var ég komin með nokkuð skýran haus því ég var búin að vera edrú í nokkra daga og trúði því ekki upp á sjálfa mig hvert ég var komin. Ég var hætt að horfa í spegil því ég gat ekki horfst í augu við sjálfa mig.“


„Það var allt farið. Það var ekkert sem bjó innra með mér nema reiði."


Tinna segir starfsfólkið á Hlaðgerðarkoti hafa bjargað lífi sínu. Fréttablaðið/Auðunn Níelsson

Þau björguðu lífi mínu


Tinna segist hafa tekið fyrsta sporið, að viðurkenna vanmátt sinn, eftir nokkra daga og tekið því alvarlega.

„Þarna áttaði ég mig á því að ég var bara algjörlega búin að missa stjórn á eigin lífi, það var ekki ég sjálf sem réði.

Frá þessum degi hugsaði ég: Ég ætla að verða edrú – ég ætla að fá aftur Tinnuna mína. Ég gerði þetta af heilum hug, frá hjartanu, mig langaði að breytast og fá að vera ég, en ekki ég kvíðin, ekki ég reið, sár og áfallaröskuð.“


„Ég gerði þetta af heilum hug, frá hjartanu, mig langaði að breytast og fá að vera ég, en ekki ég kvíðin, ekki ég reið, sár og áfallaröskuð.“


Tímann á Hlaðgerðarkoti nýtti Tinna til fulls og hóf vinnuna sem hún vildi óska að hún hefði hafið þegar læknarnir spurðu 18 ára hana hvort hún hefði orðið fyrir áfalli.

„Ég sagði frá leyndarmálunum mínum í meðferðinni og í framhaldi fjölskyldunni. Það var rosalega erfitt enda kenndi ég sjálfri mér um misnotkunina.“

Tinna sem sótti viðtöl í Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, og síðar Stígamót, segir það hafa verið gott að eiga öruggt skjól í Hlaðgerðarkoti á milli erfiðra funda þar.

„Ég veit ekki hvort ég hefði höndlað það að fara heim til mín, nýorðin edrú, að vinna vinnuna fyrir næsta fund.“

Það er augljóst á máli Tinnu að henni er hlýtt til starfsfólks Hlaðgerðarkots.

„Ég elska þau öll sem unnu þarna,“ segir Tinna og nefnir sérstaklega Guðrúnu Einarsdóttur fyrrverandi forstöðukonu. „Ég elska hana svo mikið og við erum alltaf í sambandi, hún bjargaði lífi mínu – og þau öll.“

Eigum öll skilið þúsund tækifæri


Eftir þrjá mánuði í Hlaðgerðarkoti flutti Tinna á áfangaheimilið Dyngjuna og síðar á Brú. Uppbyggingarstarfið er hvorki skammvinnt né einfalt en Tinna er ákveðin í að leggja þá vinnu á sig og skráði sig í framhaldi í Grettistak, náms- og starfsendurhæfingu á vegum Reykjavíkurborgar, auk þess að hafa sótt aðstoð í VIRK.

„Ég sæki líka fundi hjá fíknifræðingi og sálfræðingi,“ segir Tinna sem einnig er virk í starfi AA og segir það gefa sér mikið.

„Ég elska að fara til sálfræðings, ég er alltaf betri eftir hvern tíma. En það er líka erfitt, ef maður er með fíknisjúkdóm þarf maður að vera orðinn mjög sterkur til að fara í gegnum erfiðar minningar.“


„Ég elska að fara til sálfræðings, ég er alltaf betri eftir hvern tíma. En það er líka erfitt, ef maður er með fíknisjúkdóm þarf maður að vera orðinn mjög sterkur til að fara í gegnum erfiðar minningar.“


Tinna starfar nú að sjónvarpsþáttunum True Detective sem teknir eru upp hér á landi.

„Þar held ég utan um aukaleikarana. Þetta er mikil ábyrgð og mikið nýtt að læra í svo stóru verkefni. Ég lít orðið á allt lífið sem verkefni sem ég þarf að standa mig í og klára það vel.“

Hún segir sambandið við soninn hafa styrkst á ný.

„Í dag eigum við aftur yndislegt samband og hann er farinn að trúa því að mamma detti ekki í það aftur. Hann er hættur að vera hræddur.“

Lífið brosir við Tinnu rétt rúmum fjórum árum eftir að hún bjó á götunni, úrkula vonar um betra líf. Hún fékk frábæra aðstoð fagmanna en vinnuna vann hún sjálf.

„Ég nýtti mér annan séns. En ég þurfti að sækja hann. Maður má ekki gefast upp á sjálfum sér, við verðum alltaf að halda áfram. Við eigum öll skilið þúsund tækifæri.“ n

Athugasemdir