Hin ní­tján ára Ayah Ahmad, mennta­skóla­nemi og að­stoðar­kennari á Tungu­mála­töfrum, segir að sinn stóri draumur sé að læra meiri ís­lensku og hefja nám í lyfja­fræði við Há­skóla Ís­lands. Þetta kom fram í á­varpi hennar á mál­þingi um ís­lensku­kennslu í fjöl­menningar­sam­fé­lagi sem fram fór í Edin­borgar­húsinu á Ísa­firði um helgina.

Á mál­þinginu var fjallað um ný­sköpun í náms­að­ferðum og náms­gagna­gerð. Auk þess var fjallað um leiðir til að auka þátt­töku inn­flytj­enda í tóm­stunda­starfi á sumrin.

Ayah flutti með fjöl­skyldunni sinni til Ísa­fjarðar í mars­mánuði árið 2018. Þar áður höfðu þau búið í sex ár í Jór­daníu, þangað sem þau höfðu flúið vegna borgara­styrj­aldarinnar í heimalandi þeirra, Sýr­landi.

„Eins og allir ungar stúlkur lifði ég lífi sem var fullt af ást með fjölskyldu minni í landinu mínu Sýr­landi. Áður en öllu var eytt og bróðir minn dó vegna stríðsins,“ segir Ayah.

„Sex árin sem við eyddum í Jór­daníu voru svo­lítið erfið vegna þess að við áttum ekki neitt. Sumir komu illa fram við okkur vegna þess að þeir litu niður á okkur og kölluðu okkur flótta­menn. Ég hata þetta orð. Flótta­maður.“

„Við erum öll ó­líkar mann­eskjur, með ó­líkan húð­lit en við eigum ekki að eiga ólík réttindi og skyldur og föður­land og upp­runi á ekki að hafa á­hrif.“

Ayah segir að fjöl­skyldan hafi upp­lifað mikla for­dóma vegna þessarar stimplunar. „Ég átti í miklum erfið­leikum vegna þessara for­dóma í Jór­daníu. Við erum öll ó­líkar mann­eskjur, með ó­líkan húð­lit en við eigum ekki að eiga ólík réttindi og skyldur og föður­land og upp­runi á ekki að hafa á­hrif. Á endanum erum við öll mann­eskjur.“

Systir hennar og fjöl­skylda bjuggu einnig í Jór­daníu en búa nú í Tyrk­landi. Hún hefur ekki séð systur sína í átta ár og saknar hennar mjög.

„Við viljum fá hana til Ís­lands til að geta sam­einast aftur. Árið 2018 var ég á mínu síðasta ári í mennta­skóla í Jór­daníu. Ég væri núna búin að út­skrifast og fara í há­skóla með vinum mínum. En fjöl­skyldan mín lenti í vand­ræðum í Jór­daníu og við urðum að komast til Ís­lands.“

Fólkið brosir alltaf

„Fyrst þegar ég kom til Ís­lands grét ég á hverjum degi. Þetta er mjög kalt land og ég þekkti engan og saknaði vina minna. Ég þurfti að byrja aftur í mennta­skóla. Ég var alltaf sorg­mædd,“ segir Ayah.

Henni hafi verið sagt að það gæti tekið hana allt að fimm ár að klára mennta­skóla vegna tungu­mála­örðug­leika. Hún þyrfti enda að læra nýtt tungumál og nýtt stafróf. „En núna er ég á síðasta árinu mínu, og kláraði á að­eins þremur árum eins og hinir nem­endurnir. Að læra ís­lensku var alls ekki auð­velt. Það er nýtt tungu­mál og nýtt stafróf.“

„Ég þurfti að kynnast nýju fólki sem ég hafði aldrei séð áður. En með að­stoð kennara og fólks á Ís­landi gat ég lært ís­lensku. Þetta er allt með hjálp besta kennara í heiminum, Sól­rúnar Geirs­dóttur.

Ég vil þakka henni fyrir að­stoð hennar og alla hjálpina við að læra ís­lensku. Fólkið hérna á Ís­landi er svo gott og svo sætt og brosir alltaf og eftir smá stund fannst mér ég ekki lengur vera skrítin,“ segir Ayah.

Hún segist ekki eiga svo marga vini á Ís­landi en það sé í góðu. Hún sakni vina sinna í Jór­daníu hins­vegar mikið.

Á myndinni má sjá Ayuh ásamt systur sinni Ruua, mágkonu hennar Söju og móður hennar Ebtesam.
Mynd/Facebook

Lokuð í her­bergi í fimm daga

Í desember síðast­liðnum fór hún og fjöl­skyldan til Jór­daníu, til að nálgast þjónustu sýr­lenska sendi­ráðsins þar og spangir handa Ayuh, en þar lentu þau í veseni.

„Þegar við á­kváðum að fara í ferðina til Jór­daníu í desember reyndu móðir mín og bróðir minn að ferðast til Jór­daníu með mér svo bróðir minn gæti skráð trú­lofun sína vegna þess að það er ekki sýr­lenskt sendi­ráð hérna og ég vildi fá spangir og það er mjög dýrt á Ís­landi,“ segir hún og hlær.


„Mér fannst ég vera glæpa­maður og þessi til­finning særði hjarta mitt.“

„En við lentum í vand­ræðum vegna þess að við erum frá Sýr­landi og erum ekki með ís­lenskt vega­bréf heldur bara ferða­á­vísun. Við vorum stöðvuð á flug­vellinum og lokuð inni í her­bergi í fimm daga. Okkur var bannað að yfir­gefa flug­völlinn og okkur var bannað að nota símann oftar en tvisvar á dag. Síðan þegar við komum til baka til Ís­lands kom lög­reglan upp í vélina og fór með mig, móður mína og bróður minn.

Mér fannst ég vera glæpa­maður og þessi til­finning særði hjarta mitt og móðir mín var veik og þetta var henni erfitt. Það er þetta sem er erfitt við ða vera flótta­maður. Við höfum sömu réttindi og aðrir. Að lokum fórum við aftur til Ís­lands og mér fannst ég örugg hér. Það var gott að koma heim til Ísa­fjarðar.“

Lenti í for­dómum vegna CO­VID-19

„En lífið er ekki alltaf full­komið. Þegar kóróna­vírusinn kom urðu allir hræddir og þegar ég fór til dæmis í Nettó voru allir að flýja frá mér, að­eins vegna þess að ég er ekki frá Ís­landi,. Ég varð sorg­mædd og sagði þeim að ég væri úr annarri menningu og klæðist slæðu en það þýðir ekki að ég sé með vírusinn,“ segir Ayah.

„Ég vona að þessu ljúki fljótt, og að líf mitt verði aftur eins og það var og að fólk líti á mig sem hluta af sam­fé­laginu.“

„Við getum öll verið eins og við erum og við erum öll frá mis­munandi löndum og tölum öll mis­munandi tungu­mál en við sitjum öll saman við sama borð.“

Hún segir að sinn stóri draumur sé að út­skrifast úr mennta­skóla og stunda nám í lyfja­fræði við Há­skóla Ís­lands.

„En ég held að ég komist ekki í há­skólann fyrr en ég er búinn að læra betri ís­lensku. Ég vil læra ís­lensku og komast í ís­lensku­nám svo ég geti látið drauma mína rætast.“

Ayah var að­stoðar­kennari á Tungu­mála­töfrum, sumar­nám­skeiði í ís­lensku fyrir tví­tyngd börn á aldrinum 5 til 11 ára í ár og í fyrra. Hún segir reynsluna ó­metan­lega og vonar að hún geti tekið þátt í Tungu­mála­töfrum á hverju ári.

„Við getum öll verið eins og við erum og við erum öll frá mis­munandi löndum og tölum öll mis­munandi tungu­mál en við sitjum öll saman við sama borð og borðum saman og erum öll mann­leg. Og það er gaman að vinna með börnum.“

Horfa má á upptöku af ávarpi Ayuh af málþinginu á Ísafirði hér fyrir neðan: