„Það er verið að höggva í sama knérunn að tjá sig um orð Brynjars Níelssonar um sóttvarnir. Ég get einfaldlega ekki orða bundist,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, á Facebook-síðu sinni í kvöld.
Kolbeinn gagnrýnir þar Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, harðlega en eins og kunnugt er hefur Brynjar talað fyrir vægari aðgerðum í baráttunni við COVID-19. Brynjar var gestur Kastljóss í kvöld þar sem hann ræddi þessi mál meðal annars.
Gagnrýna aðgerðir
Brynjar og Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, eru í hópi þeirra sem standa að baki vefnum Kófið.is en hópurinn telur að tilraunir til að takast á við faraldurinn hér á landi hafi þegar skapað ástand sem valdið getur ómældu tjóni á lífi, heilsu og afkomu fólks og gæti varað árum saman.
Segir Kolbeinn að Brynjar virðist telja það sitt hlutverk að kasta bara einhverju fram án nokkurs rökstuðnings undir þeim formerkjum að það sé hans hlutverk að spyrja spurninga. „Þetta er orðið ansi þreytt hjá honum,“ segir hann og bætir við að öllum spurningum Brynjars hafi verið svarað í bak og fyrir, meðal annars á fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem Brynjar sagði sig úr í dag.
Getur ekki gengið lengur
Í viðtalinu spurði Brynjar meðal annars hvaða áhrif það hefði á heilbrigðiskerfið ef þjóðarframleiðslan færi niður um þriðjung. Það sé vitað mál að smitum fækkar ef allir eru lokaðir inni en spurningin væri hvaða afleiðingar það hefði til lengri tíma. Að mati Brynjars er ekki hægt að halda svona áfram.
„Herða, slaka – 10 manna samkomubann upp í 20 manna. Atvinnureksturinn er alveg jafn dauður hvort sem þú hefur 10, 20 eða 30 manna samkomubann. Þetta geturðu bara haft í ákveðinn tíma.“
Einar Þorsteinsson, spyrill Kastljóss, benti Brynjari á að dæmin sýndu að faraldrinum hefði verið náð niður með aðgerðum. Brynjar svaraði á móti að allar þessar hertu aðgerðir hefðu tekið gildi þegar bylgjan er þegar á niðurleið. „Menn mega ekki gleyma því. Ef þú skoðar bara ferilinn frá því í vor.“
„Veit Brynjar þetta ekki?“
Kolbeinn gagnrýnir sérstaklega þessi ummæli Brynjars. „Ég er farinn að halda að Brynjar hafi ekki bara sleppt því að mæta á nefndarfundi heldur sleppt því að vera vakandi og fylgjast með nokkru síðustu mánuði. Þingmaðurinn þarf ekkert að sitja og delera um þetta, hann getur flett upp í gögnum, séð hvenær aðgerðir voru settar á, hvernig þróun smita var þá og hvernig hún varð eftir aðgerðir. Hvernig stundum hefur þurft að herða aðgerðir – ekki vegna þess að bylgjan væri á niðurleið heldur þvert á móti.“
Kolbeinn segir að betra væri fyrir Brynjar að hafa staðreyndir á hreinu.
„Veit Brynjar þetta ekki? Eða nennti hann ekki að fletta þessu upp og finnst ekki skipta máli að vera með staðreyndir á hreinu í umræðu um þetta mál, stærsta mál sem stjórnmál og samfélag hafa þurft að takast á við síðustu áratugi?“
Kolbeinn segir okkur Íslendinga að lokum heppna að hafa í ráðherrastólum einstaklinga sem taka þetta alvarlega, að sóttvarnaryfirvöld hafi sýnt skynsemi og varfærni í tillögum sínum og að þjóðin hafi sýnt þá samstöðu sem komið hefur okkur í þá stöðu sem við erum í hvað faraldurinn varðar.
Það er verið að höggva í sama knérunn að tjá sig um orð Brynjars Níelssonar um sóttvarnir. Ég get einfaldlega ekki orða...
Posted by Kolbeinn Óttarsson Proppé on Þriðjudagur, 24. nóvember 2020