„Það er verið að höggva í sama knérunn að tjá sig um orð Brynjars Níels­sonar um sótt­varnir. Ég get ein­fald­lega ekki orða bundist,“ segir Kol­beinn Óttars­son Proppé, þing­maður Vinstri grænna, á Face­book-síðu sinni í kvöld.

Kol­beinn gagn­rýnir þar Brynjar Níels­son, þing­mann Sjálf­stæðis­flokksins, harð­lega en eins og kunnugt er hefur Brynjar talað fyrir vægari að­gerðum í bar­áttunni við CO­VID-19. Brynjar var gestur Kast­ljóss í kvöld þar sem hann ræddi þessi mál meðal annars.

Gagnrýna aðgerðir

Brynjar og Sig­ríður Ander­sen, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, eru í hópi þeirra sem standa að baki vefnum Kófið.is en hópurinn telur að til­raunir til að takast á við far­aldurinn hér á landi hafi þegar skapað á­stand sem valdið getur ó­mældu tjóni á lífi, heilsu og af­komu fólks og gæti varað árum saman.

Segir Kol­beinn að Brynjar virðist telja það sitt hlut­verk að kasta bara ein­hverju fram án nokkurs rök­stuðnings undir þeim for­merkjum að það sé hans hlut­verk að spyrja spurninga. „Þetta er orðið ansi þreytt hjá honum,“ segir hann og bætir við að öllum spurningum Brynjars hafi verið svarað í bak og fyrir, meðal annars á fundum stjórn­skipunar- og eftir­lits­nefndar sem Brynjar sagði sig úr í dag.

Getur ekki gengið lengur

Í við­talinu spurði Brynjar meðal annars hvaða á­hrif það hefði á heil­brigðis­kerfið ef þjóðar­fram­leiðslan færi niður um þriðjung. Það sé vitað mál að smitum fækkar ef allir eru lokaðir inni en spurningin væri hvaða af­leiðingar það hefði til lengri tíma. Að mati Brynjars er ekki hægt að halda svona á­fram.

„Herða, slaka – 10 manna sam­komu­bann upp í 20 manna. At­vinnu­reksturinn er alveg jafn dauður hvort sem þú hefur 10, 20 eða 30 manna sam­komu­bann. Þetta geturðu bara haft í á­kveðinn tíma.“

Einar Þor­steins­son, spyrill Kast­ljóss, benti Brynjari á að dæmin sýndu að far­aldrinum hefði verið náð niður með að­gerðum. Brynjar svaraði á móti að allar þessar hertu að­gerðir hefðu tekið gildi þegar bylgjan er þegar á niður­leið. „Menn mega ekki gleyma því. Ef þú skoðar bara ferilinn frá því í vor.“

„Veit Brynjar þetta ekki?“

Kol­beinn gagn­rýnir sér­stak­lega þessi um­mæli Brynjars. „Ég er farinn að halda að Brynjar hafi ekki bara sleppt því að mæta á nefndar­fundi heldur sleppt því að vera vakandi og fylgjast með nokkru síðustu mánuði. Þing­maðurinn þarf ekkert að sitja og delera um þetta, hann getur flett upp í gögnum, séð hve­nær að­gerðir voru settar á, hvernig þróun smita var þá og hvernig hún varð eftir að­gerðir. Hvernig stundum hefur þurft að herða að­gerðir – ekki vegna þess að bylgjan væri á niður­leið heldur þvert á móti.“

Kol­beinn segir að betra væri fyrir Brynjar að hafa stað­reyndir á hreinu.

„Veit Brynjar þetta ekki? Eða nennti hann ekki að fletta þessu upp og finnst ekki skipta máli að vera með stað­reyndir á hreinu í um­ræðu um þetta mál, stærsta mál sem stjórn­mál og sam­fé­lag hafa þurft að takast á við síðustu ára­tugi?“

Kol­beinn segir okkur Ís­lendinga að lokum heppna að hafa í ráð­herra­stólum ein­stak­linga sem taka þetta al­var­lega, að sótt­varnar­yfir­völd hafi sýnt skyn­semi og var­færni í til­lögum sínum og að þjóðin hafi sýnt þá sam­stöðu sem komið hefur okkur í þá stöðu sem við erum í hvað far­aldurinn varðar.

Það er verið að höggva í sama knérunn að tjá sig um orð Brynjars Níelssonar um sóttvarnir. Ég get einfaldlega ekki orða...

Posted by Kolbeinn Óttarsson Proppé on Þriðjudagur, 24. nóvember 2020