Rauði krossinn á Ís­landi valdi í dag Skyndi­hjálpar­mann ársins 2018. Sá heitir Guðni Ás­geirs­son en hann bjargaði manni sem hafði fengið hjarta­á­fall á hlaupa­stíg í Reykja­vík. Guðni kom að manninum þar sem hann hafði lagst í jörðina, veitti honum hjarta­hnoð og stjórnaði að­gerðum á vett­vangi með mikilli yfir­vegun. 

Í fyrstu hélt Guðni að maðurinn sem hafði verið að skokka væri að teygja en eitt­hvað við að­stæðurnar fékk Guðna til að stöðva reið­hjól sitt og kanna á­standið á manninum. Maðurinn hafði þá fengið hjarta­á­fall og farið í hjarta­stopp. Guðni kallaði til tvo veg­far­endur og fékk annan til að hringja í Neyðar­línuna og hinn til að að­stoða við að veita manninum hjarta­hnoð. 

„Guðni hnoðaði manninn af miklum krafti þar til sjúkra­flutningar­menn komu á vett­vang. Maðurinn fékk eitt raf­stuð frá sjúkra­flutningar­mönnunum og var kominn til með­vitundar þegar hann var borinn upp í sjúkra­bílinn. Á spítalanum var hann settur í að­gerð og hefur náð fullum bata í dag þökk sé hár­réttum við­brögðum Guðna á vett­vangi,“ segir í til­kynningu frá Rauða krossinum. 

„Ég gat ekki látið þetta af­skipta­laust og treysti á að ein­hver annar kæmi til að­stoðar. Ég sá að það var ekki í lagi með manninn. Ég fór á skyndi­hjálpar­nám­skeið í verk­mennta­skólanum á Akur­eyri fyrir mörgum árum. Í vinnunni hjá mér eru svo reglu­lega haldin stutt nám­skeið sem stýrði mér á­fram í þessi réttu við­brögð þennan dag,“ er haft eftir Guðna. 

Guðni vill líka koma á fram­færi þakk­læti til þeirra sem að­stoðuðu hann þennan dag. Ein­staklingar á vett­vangi að­stoðuðu hann við að hringja á 112 og fram­kvæma hjarta­hnoð. Einnig komu lög­reglu­þjónar að honum og bentu honum á að þessi lífs­reynsla gæti haft á­hrif á hann seinna enda mikið sjokk að lenda í þessum að­stæðum. 

„Maður veit aldrei hvernig maður bregst við þegar maður kemur á slysi. Ég hafði í rauninni ekki hug­mynd um það hvernig ég myndi bregðast við en ég hugsaði að það er alltaf best að gera eitt­hvað í stað þess að gera eki neitt. Í þessu til­felli hefði það verið stór mis­tök að gera ekki neitt. Ég fékk ó­trú­lega hugar­ró þegar ég heyrði í manninum sem ég bjargaði rúmum sólar­hring síðar og hann þakkaði mér kær­lega fyrir lífs­björgina,“ segir Guðni.