„Ég gæti ekki hagsmuna neins sem á aðild að þessu máli,“ segir Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður, í samtali við Fréttablaðið.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir á Facebook-síðu sinni að hann spái því að einhver sem Vilhjálmur Vilhjálmsson, lögmaður Ingólfs Þórarinssonar, hafi kært til lögreglu eða hótað málssókn, hafi leitað til Gunnars Inga.

Ekki rétt að tala um dómstól götunnar

Gunnar Ingi sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að mál Ingólfs, best þekktur sem Ingó Veðurguð, sé ekki fyrsta málið þar sem látið er reyna á ummæli í tengslum við #metoo-byltinguna. Fimm hafa fengið kröfubréf þar sem farið er fram á miskabætur og afsökunarbeiðni vegna ummæla í garð Ingó sem voru látin falla á samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum. Gunnar sagði erfitt að meta hvor sjónarmiðin vegi þyngra, rétturinn til að segja frá sinni upplifun eða mannorð þess sem er ásakaður um eitthvað óviðeigandi eða refsivert.

„Að setja fram ásakanir af þessu tagi byggist á tjáningarfrelsinu sem eru stjórnarskrárvarin réttindi. Fólk sem setur fram slíkar ásakanir er því í fullum rétti til þess að gera það,“ sagði hann. Bætti hann við að það væri hlutverk dómstóla að skera út um hluti sem þessa. „Ég held að það sé ekki rétt að kalla þetta dómstól götunnar. Þetta er einfaldlega umræða sem á sér stað um málefni sem á erindi við almenning.“

Klóraði sér í höfðinu

Brynjar skrifar á Facebook um viðtalið við Gunnar Inga og segir að hann hafi ósjaldan klórað sér í höfðinu yfir viðtölum við lögmenn um mál sem séu til umræðu. „Sérstaklega þegar látið er í veðri vaka að þar sé á ferð hlutlaus sérfræðingur en er í raun í hagsmunagæslu fyrir einhvern sem á aðild að málinu. Það er ekki ósvipað því þegar fjölmiðlar fá menn sem eru bara í venjulegri pólitík til að vera hlutlausa álitsgjafa að því að þeir geta sveipað yfir sig skikkju fræðanna,“ skrifar Brynjar.

„Ég ætla að leyfa mér að spá því að einhver þeirra, sem stórvinur minn, Villi Vill, hefur kært til lögreglu eða hótað málssókn, hafi leitað til þessa ágæta lögmanns um að gæta hagsmuna sinna.“

Virðir tjáningafrelsi Brynjars

Gunnar Ingi hafnar þessu í samtali við Fréttablaðið. „Það er skondið að Brynjar skuli setja fram þá ásökun án þess að hafa sannanir fyrir því. Er það ekki mótsögn?,“ segir hann.

„En ég virði rétt hans samkvæmt tjáningarfrelsinu til að setja fram þetta bull sem annað sem hefur komið frá honum.“