Pétur segist sérlega ánægður með titil bókarinnar Þegar karlar stranda – og leiðin í land.


„Fyrst hélt ég að undirtitillinn væri – og leiðin til baka. Það böggaði mig því ég er ekkert á leiðinni til baka. Þeir sem lenda í þessu fara ekki til baka, þeir fara í land og lenda á öðrum stað.“

Sirrý: „Enda geturðu kannski ekkert farið til baka eða langar það jafnvel ekki.“

Pétur: „Þá væri maður að fara í sömu förin, í sama stressið. Þeir sem hafa farið virkilega langt niður fara ekki þangað aftur. Þeir þurfa að losna undan stressinu og streitunni sem kom þeim þangað.“

Á síðasta ári kom út bók Sirrýjar, Þegar kona brotnar – og leiðin út í lífið á ný. Sú bók fjallaði um íslenskar konur sem kiknuðu undan álaginu en risu aftur upp. Nýja bókin fjallar um sama málefni en rætt er við íslenska karla. Hvernig ætli hafi gengið að fá karla til að opna sig um málefnið?

„Það gekk bara mjög vel. Það var mikilvægt að velja inn í þetta breiddina sem mér finnst hafa tekist. Það voru menn ólmir í að segja sögu sína en voru langt frá landi. Það er sjálfsagt að ræða það en þá ertu í raun ekki fær um að segja eitthvað uppbyggilegt fyrir aðra þegar þú sjálfur ert að sökkva djúpt,“ segir Sirrý sem vildi fá ólíka menn með ólíkar sögur sem hafa lært af því ferli að fara alla leið í kulnun eða annað niðurbrot í lífinu.

„Eins og Pétur sem eftir erfiða reynslu velur sér nýjan stað til að fara í land á. Því þessi erfiða reynsla hefur breytt honum og til þess þarf ákveðinn þroska.

Mín upplifun er að það sé ekki erfitt að fá karlmenn til að tala. En það sem ég er spennt að vita er hvort við séum tilbúin til að hlusta. Það er margt sem bendir til þess að við konur viljum ekkert endilega opna á það þegar karlar tjá sig um það hvernig þeim líður.“

Pétur: „Ég upplifi þetta ekki svona með karlmennina. Ég ákvað strax að vera algjörlega opinn varðandi mína reynslu. Mér fannst ég ekki hafa neitt að skammast mín fyrir heldur er ég stoltur af því sem ég hef komið frá mér á lífsleiðinni og það er full skýring á því af hverju ég keyrði á vegginn. Ég talaði því við fólk um þetta og það kom mér á óvart hversu grunnt maður þurfti að kafa til að finna karla sem voru að ströggla eða þekktu aðra sem voru að ströggla. Þeir þurftu að tala og vildu vita hver merkin væru.“

Úr bókinni: „Pétur Guðjónsson (62 ára) var á tímabili með um 800 starfsmenn sem heyrðu undir hann í 30 löndum. Langvarandi álag, mikil ferðalög um heiminn fjarri stórri fjölskyldu, reyndi á og hann tók verulega nærri sér að þurfa að segja upp fólki. Uppsöfnuð streita varð að kulnun, „urrandi þunglyndi og kvíða.“ Rafmagnsverkfræðingurinn átti á tímabili erfitt með einföldustu verkefni, þoldi ekkert áreiti, fór með eyrnatappa í verslanir og þurfti að taka kvíðastillandi lyf til að geta farið inn í matsal fyrirtækisins.“

Vinnuveitandi sýndi skilning


Þegar geðlæknir greindi Pétur með alvarlega kulnun bað hann um ótímabundið leyfi frá starfi og fór í einu að öllu að ráðleggingum læknisins. Aðalatriðið var að hvíla sig, hann fór í göngutúra, lagði sig og dvaldi mikið í húsi þeirra hjóna í Kjósinni, stundum einn og oft án útvarps. Eins mátti hann ekki byrja á neinum nýjum verkefnum.

Pétur segir skilning vinnuveitanda hafa skipt miklu.

„Þetta var aldrei spurning og engin pressa á mér að koma til baka.“

Pétur horfðist í augu við vandann þegar hann heyrði viðtal við sálfræðing í útvarpinu. „Ég var fyrir löngu búinn að gera mér grein fyrir þessu en fann alls konar afsakanir og hugsaði með mér að ég myndi bara taka því rólega og jafna mig.

Þegar ég svo heyrði sálfræðing í útvarpinu ræða kulnun áttaði ég mig á því að ég tikkaði í öll box og var búinn að gera lengi. Það var köld vatnsgusa og ég hugsaði að ég yrði að gera eitthvað í þessu. Það er ekki eðlilegt að sitja alltaf úti í bíl í fimm mínútur áður en maður fer í vinnuna.“

„Það var köld vatnsgusa og ég hugsaði að ég yrði að gera eitthvað í þessu. Það er ekki eðlilegt að sitja alltaf úti í bíl í fimm mínútur áður en maður fer í vinnuna.“

Sirrý: „Fólk var líka vant því að þú værir hress og glaður.“

Pétur: „Já, fólk sagðist síst hafa átt von á að þetta kæmi fyrir mig. Ég væri alltaf svo hress og kátur. En hver er í mestri áhættunni? Þeir sem eru fullir af orku og eru að gefa fullt af orku.“

Sirrý: „Þú varst líka alltaf með hjartað með og tókst starfið á mennskunni svo það reyndist þér svo ofboðslega erfitt að segja fólki upp gegn vilja þínum.“

Úr bókinni: „Ég er með gáttatif, sem er erfðatengt, en það „triggeraðist“ þegar ég þurfti að segja upp framkvæmdastjóra mínum í Rússlandi. Hann hafði verið hjá okkur í mörg ár. Að segja góðum manni upp starfi sínu í gegnum myndsíma tók svo á mig að klukkutíma síðar lá ég í yfirliði á gólfinu.“

Pétur: „Ég er mikil tilfinningavera og tek líðan annarra inn á mig og þeir sem eru þannig eru í mikið meiri hættu.“

Áhugaleysið lúmskast


Pétur segir mikilvægt að fylgjast með viðvörunum áður en það er um seinan og segir fólk ekki gera sér grein fyrir því hversu alvarlegt það er að ganga of nærri sér.

Aðspurður segir Pétur slæman svefn og minnisleysi vera algeng fyrstu einkenni kulnunar. „Það sem mér fannst þó lúmskast var áhugaleysið, smátt og smátt missti ég áhuga á hlutunum. Þegar ég greindist áttaði ég mig allt í einu á því að ég hafði ekki spilað á gítar í þrjú ár, ég hafði ekki lesið bók í þrjú ár, ég var hættur að hafa gaman af því að elda. Smám saman hafði slökknað á neistanum.“

Pétur segir áhugaleysið hafa verið lúmskast en smám saman hafi slökknað á neistanum. Fréttablaðið/Valli

Sirrý: „Hann er óþekkjanlegur á myndum frá því fyrir þremur árum síðan og lítur mikið betur út í dag heldur en þegar hann var á bólakafi í sínu starfi.“

Pétur: „Það kemur mér á óvart hversu mikið er um þetta í kringum okkur og jafnvel ungt fólk.“

Sirrý: „Sumir tala aldrei um þetta og deyja, ég tala um þöglu sjómennina í bókinni en þeir fara með sína líðan alla leið í gröfina.

Við þurfum minna af öllu, eins og Pétur talar um, að einfalda líf sitt og taka til að mynda ekki við vinnupóstum í fríum og svo framvegis.“

Pétur: „Að þetta skyldi koma fyrir mig var vakning hjá framkvæmdastjórninni hjá Marel. Þau áttuðu sig á því að þetta gæti komið fyrir hvern sem er.“


Mikilvægt að einfalda lífið


Pétur upplifði sterkt að samstarfsfélagar leituðu til hans. „Fólk hefur líka tekið ráðleggingum mínum og einfaldað líf sitt og það hefur oft komið til mín einhverjum mánuðum síðar og þakkað mér fyrir.“

Sirrý: „Pétur er farsæll maður sem notið hefur virðingar í starfi, menntaður rafmagnsverkfræðingur, en er samt nógu stór til að segja að greindarvísitalan hafi hreinlega hrunið í kulnuninni og hann ekki getað ráðið við einföldustu verk. Við þurfum á því að halda að karlmenn stígi fram og segi svona hluti.

Það er einmitt einn í bókinni, Björn Kristján sem segir frá því að hann hafi farið illa út úr fjármálahruninu. Hann hélt húsinu en missti heilsuna. Þegar hann fór og lét mæla testesterón líkamans var það í algjöru lágmarki. Hann ræðir hvernig sjálfsöryggið og kynhvötin hafi horfið.“

Pétur segist vera kominn með um 80 prósent orku til baka og verði aldrei eins og hann var áður.

„Ég er sáttur við það enda kominn yfir sextugt og ætlaði hvort eð er að fara að hægja á. „Ég fer aldrei meira en upp í áttatíu prósent og það er allt í lagi, þetta er verra fyrir þá sem yngri eru. Þetta er háalvarlegt mál.“

Sirrý: „Fólk verður að finna leið til að minnka stressið en stundum er lausnin að skipta um starf. Við þurfum að losa okkur við þessar hugmyndir um það hvernig leiðin á að liggja, sérstaklega hjá flottum karlmönnum. Það er engin minnkun í því.“

Ráðstefna VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og Háskólans á Bifröst: Þegar karlar stranda - og leitin að jafnvægi verður haldin föstudaginn 9. október í Háskólanum á Bifröst.

Ráðstefnustjóri verður Sirrý Arnardóttir og streymt verður frá ráðstefnunni á vefsíðu VIRK.

Nánari upplýsingar um dagskrá og fyrirlesara má finna hér: https://www.virk.is/is/um-virk/upplysingar/frettir/thegar-karlar-stranda-og-leitin-ad-jafnvaegi