„Ég fagna því að tilheyra samfélagi sem hefur breyst mikið til hins betra á skömmum tíma. Samfélagi, þar sem ein stærsta og fjölmennasta hátíð landsins snýst um samstöðu með mannréttindabaráttu.“

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ávarpi sem hún flutti í Hljómskálagarðinum í dag að lokinni Gleðigöngunni, hápunkti Hinsegindaga.

Katrín sagði í ræðu sinni að þeir væru ekki margir dagarnir sem samtvinnuðu með jafn mögnuðum hætti gleði, kraft, þakklæti, stolt og baráttuþrek. „Saga réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi vitnar eins og aðrar baráttusögur um mótlæti, sigra - og stundum tap, þrjósku, framfarir en umfram allt einstaka staðfestu þeirra sem vita að þau berjast fyrir betri og réttlátari heimi,“ sagði hún meðal annars.

Katrín sagði í ávarpi sínu að Ísland hefði dregist aftur úr í réttindum hinsegin fólks. Hún boðaði jafnframt frumvarp um „framsækið lagaumhverfi um kynrænt sjálfstæði“. Þegar það yrði að lögum kæmi það Íslandi í fremstu röð „þar sem við eigum að vera“.

„Réttindabarátta hinsegin fólks er ofarlega á forgangslista núverandi ríkisstjórnar og við höfum þegar náð góðum áföngum á þessu fyrsta hálfa ári. Frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu var samþykkt í vor og er mikilvægt skref til að tryggja mannréttindi allra. Ríkisstjórnin hefur tvöfaldað fjárframlög til Samtakanna 78 þannig að þau geti betur sinnt sínu mikilvæga starfi.“

Ávarpið má í heild lesa hér.