Vigdís hefur verið í sjálfskipaðri einangrun undanfarnar vikur og því spjöllum við í gegnum síma en Vigdís segir símann og bækurnar sjá til þess að hún finni ekki fyrir nokkurri einmanakennd nú þegar alheimsfaraldur kemur í veg fyrir að hún megi nokkurn hitta.
Þegar ég spyr Vigdísi við upphaf samtals okkar hvernig hún hafi það lætur hún vel af sér en segist hugsa til allra þeirra sem hún þekki og séu veikir.


Forsetaembættið færst nær fólkinu


Vigdís sem gegndi embætti forseta Íslands í fjögur kjörtímabil eða frá árinu 1980 til 1996 segist aðspurð um breytingar á embættinu engan vafa leika á því að það hafi færst nær fólkinu.

„Kristján Eldjárn hóf þá vegferð. Mér fannst hann alveg sérstaklega góður forseti. Iðulega hugsaði ég til hans þegar eitthvað kom upp á og spurði sjálfa mig: Hvað hefði nú Kristján gert í þessu? Hann tók svo vel utan um verkefnið og mér þótti ekki verra að vera arftaki hans.“

Vigdís sem var bæði fyrsti kven-forseti Íslands og heimsbyggð-arinnar allrar þótti alþýðlegur for-seti. Hún lagði sig fram um að vera ópólitísk og því mætti segja að hún hafi mótað embættið að einhverju leyti og gert að sínu, þó hún geri ekki mikið úr því sjálf.

„Það sem ég gerði þarna fyrir löngu síðan var að ljúka upp dyrum fyrir æskunni. Mér finnst það vera það merkilegasta sem ég gerði. Ég opnaði embættið meira með því að fara að gróðursetja tré með börnunum og tala þannig við æskuna. Þegar ég fór að ferðast um landið frétti ég af því að verið væri að prjóna lopapeysu eða útbúa eitthvað annað sem átti að færa mér.

Fólkið langaði að færa forseta sínum gjafir og ég fékk ótal fallegar gjafir í forsetatíð minni sem mér þykir vænt um eins og lopapeysur og langspil sem Akureyringar gáfu mér.

Vigdísi finnst sjálfri það merkilegasta sem hún gerði í embætti hafa verið að ljúka upp dyrum fyrir æskunni með því að gróðursetja með þeim tré um land allt.

Ég fór því að hugsa hvað ég gæti gefið á móti og datt í hug að koma með gróður á þá staði sem ég heim-sótti.“ Vigdís færði hverjum stað þrjú tré sem hún gróðursetti með börnunum. „Stelpurnar gróðursettu eitt tré fyrir strákana og strákarnir fyrir stelpurnar og svo gróðursettum við saman eitt tré fyrir ófæddu börnin. Þetta var afskaplega skemmtilegt og á þennan hátt kynntist ég æsku landsins og eignaðist vináttu hennar.


Börn og ungt fólk í uppáhaldi


Mér hefur alltaf þótt vænt um börn og ungt fólk. Þau fundu það krakkarnir og voru ekkert að snobba fyrir mér. Þau komu til mín, bentu á forsetabílinn og spurðu „Átt þú þennan bíl? Og ég svaraði: „Nei, við eigum hann saman, þetta er bíll ríkisins,“ segir Vigdís og hlær og segir að börnunum hafi þótt töluvert til þess koma.

„Tímarnir voru mikið að breytast á þessum árum og ég opnaði embættið kannski meira og trúi því að ég hafi fært það enn nær þjóðinni.“

Vigdís ferðaðist meira erlendis en forverar hennar í embætti höfðu gert og hitti fjölmarga erlenda þjóðarleiðtoga. Aðspurð hvern hún hafi hitt í embættistíð sinni sem hafi verið henni eftirminnilegastur gerir hún lítið úr því. „Ég myndi nefna þig ef ég hefði hitt þig,“ segir hún og bætir svo við;

„Ég er ekki þannig hugsandi að ég fari að nefna eina persónu fram yfir aðra. Ég hitti auðvitað höfðingja heimsins en þetta voru einfaldlega samtíðarmenn mínir. Það höfðu allir áhrif á mig hver með sínu lagi eins og gengur í lífinu. Mér þykir yfirleitt vænt um fólk. Ég kynntist þessari þjóð afskaplega vel og hvernig hún hugsar.“

„Ég er ekki þannig hugsandi að ég fari að nefna eina persónu fram yfir aðra. Ég hitti auðvitað höfðingja heimsins en þetta voru einfaldlega samtíðarmenn mínir."

Vigdís segist ekki hafa verið meðvituð um að hún væri að brjóta blað í sögunni þegar hún var kjörin forseti. Það var ekki fyrr en hún sá sjálfa sig á forsíðu kínversks dagblaðs að hún skildi að um heimsfrétt væri að ræða. Mynd/Gunnar V. Andrésson

Ætlaði bara að vera hún sjálf


Vigdís er ósjaldan nefnd þegar Íslendingar og þá ekki síst konur eru beðnar um að nefna fyrirmyndir enda var hún eins og fyrr segir fyrst kvenna til að vera kjörin forseti þjóðar sinnar og það ógift.

En skyldi hún vera meðvituð um hlutverk sitt sem fyrirmynd og brautryðjandi og hverjar ætli séu fyrirmyndir hennar sjálfrar? „Það var ekki til í mínum uppvexti að eiga fyrirmyndir. Það var aldrei talað um slíkt enda kemur fyrirbærið „role model“ að utan. Ég ætlaði aldrei að verða eins og einhver, ég ætlaði bara að vera ég sjálf.

Fyrirmyndir veita þó auðvitað styrk og mér finnst það stundum mjög merkilegt að vera fyrsta konan í heiminum sem kjörin var í embætti forseta í lýðræðislegri kosningu.

Íslendingar voru mjög framsýnir þá, og eru reyndar enn,“ segir Vigdís og hlær en hún hafði sjálf ekki hugmynd um það þegar hún bauð sig fram til forseta að mögulega væri hún að brjóta blað í heimssögunni.

„Ég hafði ekki hugmynd um þetta þegar ég bauð mig fram. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég fékk úrklippu af forsíðu kínversks dagblaðs með mynd af mér aleinni á rölti og hugsaði með mér að þetta hlyti að vera eitthvað alveg sérstakt – fyrst það rataði á forsíðu í kínversku blaði.“

Varstu ekki hissa?

„Ég man nú ekkert eftir því. Ég er ekkert sérstaklega sjálfhverf svo ég er ekki mikið að hugsa út í svona lagað. Ég er mikið heillaðri af öðru fólki en sjálfri mér og hugsa meira um það. Ég er lítið að velta mér upp úr því hvað ég hef verið að gera.

Ég er ekkert sérstaklega sjálfhverf svo ég er ekki mikið að hugsa út í svona lagað. Ég er mikið heillaðri af öðru fólki en sjálfri mér og hugsa meira um það.

Ég er alltaf jafn hissa þegar það er nefnt við mig að ég hafi verið brautryðjandi. Ég tók bara því sem að höndum bar,“ segir Vigdís af hógværð.

Vigdís segist alltaf jafn hissa þegar það sé nefnt við hana að hún sé brautryðjandi. Hún hafi einfaldlega tekið því sem að höndum bar. Mynd/Kristinn Magnússon

En ætli það sé einhver eftirsjá nú þegar Vigdís stendur á níræðu og horfir yfir farinn veg?

„Nei, guð hjálpi þér, hvernig heldurðu að það væri að verða níræður og burðast með eftirsjá? Það væri til að eyðileggja tilveru manns að velta sér upp úr slíku. Maður getur ekki breytt því sem orðið er.“

Hreyfir sig daglega og les


Þegar ég hef það á orði að það sé ótrúlegt að níræðisafmælið sé handan við hornið samsinnir Vigdís því. „Ég er bara alveg sammála þér! Það er alveg ótrúlegt! Hugsaðu þér!“

Hún segir aldurinn leggjast vel í sig. „Ég er býsna hress og spræk, ég vona að þú sjáir það bæði og heyrir á mér,“ segir hún og hlær. „Ég er afar þakklát fyrir þessa góðu heilsu sem ég hef.“

Vigdís segist l á heimili hennar eru bækur upp í rjáfur í öllum herbergjum. "Maður er aldrei einmana þegar maður hefur bækur," segir Vigdís sem les allt sem hún kemst í. Mynd/Gunnar V. Andrésson

Vigdís segist hreyfa sig vel daglega, eins og maður eigi að gera „Ég er með þrekhjól hér fyrir aftan skrifborðið sem ég á þó til að gleyma að fara á, og svo stunda ég Qi Gong (kínverskar orkuæfingar), á hverjum degi.

Ég les allt sem ég kemst í, blöð og bækur og mér þykir alltaf jafn gaman að lesa ljóð. Nú er ég sem oftar að lesa ljóð með vini mínum. Við hringjumst á, stingum upp á ljóði og berum saman bækur okkar.“

Vigdís segist lesa eldri ljóð sem nýrri, eða allan ljóðaskápinn eins og hún orðar það. „Ég er reyndar hætt að læra ljóð utanbókar,“ viðurkennir hún, „en ég kann enn alla rútubílasöngvana sem maður lærði í menntaskóla.“

Lánsöm að vera lífsforvitin


„Ég held að hugarfar skipti miklu máli,“ segir Vigdís þegar við höldum áfram að ræða góða heilsu. „Ég læt ekki svartsýni ná yfirhöndinni en ég er líka á góðum járnum eins og sagt er um hrossin. Ég er á mjög góðum járnum,“ segir hún ákveðin.

„Konur í minni ætt lifa lengi og amma mín sem ég heiti eftir, Vigdís frá Miðdal, varð 100 ára en ég er ekkert viss um að það sé eftirsóknarvert. Það fer auðvitað alveg eftir heilsu og hugarfari.

Konur í minni ætt lifa lengi og amma mín sem ég heiti eftir, Vigdís frá Miðdal, varð 100 ára en ég er ekkert viss um að það sé eftirsóknarvert.

Ég er svo lánsöm að vera lífsforvitin. Ég er forvitin um lífið og mannveruna og hvernig við mennirnir komumst af. Ég er ekki forvitin um einkahagi fólks og man sjaldnast kjaftasögur, þær eru svo leiðinlegar. Ég les mikið frönsk blöð og fylgist vel með franskri pólitík og reyndar stjórnmálum heimsins yfirleitt.

Vigdís er í sjálfskipaðri einangrun þessa dagana og segist helst sakna þess að sjá barnabörnin fjögur, hér er hún ásamt Ástríði dóttur sinni, árið 1980 þegar Vigdís tók við embætti. Mynd/Gunnar V. Andrésson

Níræðisafmælið nálgast í miðju samkomubanni og því er ekki annað hægt en að spyrja Vigdísi hvort hún hafi þurft að hætta við stór veisluhöld. „Nei, ég er heldur á móti afmælishátíðum fyrir sjálfa mig og hef alltaf verið.“

Afmælisdögunum hefur hún frekar varið með nánustu fjölskyldu og notið sín á þann hátt en ekki haldið stórveislur og því er samkomubannið ekki að koma í veg fyrir stórar áætlanir.


Aldrei einmana

Eins og fyrr segir er Vigdís í sjálfskipaðri einangrun og hefur verið ein heima hjá sér frá því að COVID-19 faraldurinn náði hingað til lands. „Ég hef ekkert farið nema út á stétt að spretta úr spori.“

En ætli einmanakennd hafi ekki gert vart við sig? „Ég er svo lánsöm að ég finn aldrei fyrir einmanakennd. Maður er aldrei einmana þegar maður hefur bækur. Svo hef ég síma, það dásamlega tæki, fólk hringir í mig og ég get hringt í fólk. Eins og nú erum við að tala saman í síma, ég er ekki einmana þessa stundina,“ segir Vigdís.

„Ég er svo sjálfri mér nóg og hér eru bækur upp í rjáfur og í öllum herbergjum. Ég þarf ekki að kvarta.“

Aðspurð hvers hún sakni helst á meðan hún ekki megi fara út á meðal fólks svarar Vigdís; „Ég sakna þess að sjá ekki börnin. Ég sakna þess mikið,“ segir hún en Ástríður dóttir Vigdísar á fjögur börn. „Ég get talað við þau í síma en ég sakna þess að sjá ekki barnabörnin, þau eru lífsyndi. Það er ekkert yndislegra en að eignast börn.“

„Ég get talað við þau í síma en ég sakna þess að sjá ekki barnabörnin, þau eru lífsyndi. Það er ekkert yndislegra en að eignast börn.“

Enginn óhultur í stríði


En hvaða lærdóm ættum við að draga af því ástandi sem nú ríkir?

„Kannski er lærdómurinn sá að ekkert er öruggt í þessum heimi. Þetta er eins og styrjöld nema þetta ástand er ekki sjálfskapað eins og styrjaldir eru. Enginn er óhultur í stríði. Skjólleysið er algjört því það er sama hvar við erum, við erum skjól-laus gagnvart þessari veiru.

Það er merkilegt að upplifa þessa tíma og viðbrögðin við þeim. Mér finnst við sem þjóð hafa brugðist við á aðdáunarverðan hátt. Ég ber mikla virðingu fyrir og dáist að þessari þjóð og hversu vel við höfum tekist á við þetta verkefni.

Þar skiptir tungumálið einnig höfuðmáli. Við tölum öll sama tungumálið og horfum á sömu fréttirnar, - þannig erum við öll meðvituð um hvað er á seyði. Við erum öll læs og höfum aðgang að fjölmiðlum sem tengja okkur við heiminn.

Það eru mikil forréttindi að vera hluti af smáþjóð. Það ríkir mikil umhyggja hjá smáþjóðum. Við berum mikla virðingu fyrir lífinu,“ segir Vigdís að lokum.