Hljómsveitin Spand­au Ballet var einn helsti brautryðjandi nýrómantísku bylgjunnar sem spratt upp úr klúbbastemningunni í London og Birmingham, undir sterkum áhrifum frá til dæmis David Bowie í upphafi níunda áratugarins, sem löngum hefur verið kenndur við „sítt að aftan.“

Frjáls og óháður, eftir að hafa hætt í það minnsta tvisvar í Spandau Ballet í illu, er söngvarinn Tony Hadley væntanlegur til Íslands í lok október í boði Todmobile, sem hefur stundað það með góðum árangri undanfarin ár að fá fornfræga áhrifavalda sína til samstarfs og tónleikahalds.

„Það var bara hringt og mér var boðið að koma til Íslands og ég sagði bara: „Já, af hverju ekki?“ Gigg er gigg, en þetta verður mitt fyrsta á Íslandi,“ sagði breski söngvarinn Tony Hadley eldhress þegar Fréttablaðið náði við hann Zoom-sambandi á föstudagsmorgni.

Eru Íslendingar klikkaðir?

Tónleikar Todmobile, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Hadleys verða í Laugardalshöll 30. október, en svo skemmtilega vill til að Hadley, sem varð sextugur í júní, stendur á þeim tímamótum í október að hafa verið í tónlist í 40 ár.

„Þetta verður mjög skemmtilegt og ég hlakka mikið til að koma,“ segir Hadley, og hafið engar áhyggjur. Ég mun taka Gold, True, Through the Barricades, Only When you Leave og To Cut a Long Story Short,“ segir Hadley og telur upp vinsælustu lög Spandau Ballet frá gullaldarárunum.

„Ég tel að á tónleikum sé mikilvægast að spila það sem fólkið vill heyra og maður verður að taka þessi lög. Ég er mjög sannfærður um að það eigi að sjá til þess að fólkið fái það sem það vill,“ segir Hadley og spyr: „Hvernig eru íslenskir áheyrendur? Klikkaðir?“

Ætli það megi ekki segja að þeir séu yfirleitt klikkaðir á kurteisan hátt.
„Já, það virðist vera svolítið þannig þegar maður kemur til Skandinavíu,“ segir Hadley og hlær. „Fólkið þar virðist einmitt svolítið klikkað, en kurteist.“

Úldinn hákarl

„Konan mín hefur komið tvisvar til Íslands og hún segir að þetta sé stórkostlegt land. Þau eru ekki mörg löndin sem ég á eftir að heimsækja en Ísland hefur verið eitt þeirra og ef mér hefði ekki verið boðið að koma til þess að syngja, þá hefðum við átt eftir að fara í frí til Íslands. Vegna þess að konan mín segir að það sé svo fallegt. Stórkostlegt.“

Alison Evers, eiginkona Hadleys, hefur meðal annars starfað fyrir bílaframleiðendurna Audi og Volkswagen og hann segir hana hafa komið hingað á þeirra vegum. „Hún hefur borðað úldinn hákarl og alls konar. Allt túristadótið,“ segir Hadley og greinilegt að hann er kominn í ferðahug eftir að hafa mátt þreyja COVID-þorrann í Bretlandi.

Einn í ballet

„Ég elska að spila á tónleikum,“ segir Hadley þegar hann tekur tónleikaþráðinn upp aftur. „Og það er gaman að segja frá því að ég er nýbúinn að gefa út nýtt lag sem heitir Obvious,“ segir Hadley um fyrstu smáskífuna af væntanlegri breiðskífu sem ljóst er að muni eitthvað tefjast vegna COVID.

Hadley segir að honum finnist ósköp ljúft að geta lætt nýjum lögum að á tónleikum, inn á milli gömlu slagaranna með því að segja: „Hey, tékkiði á þessu. Þetta er nýtt lag. Ég vona að ykkur líki það.“ Ég held að það sé mikilvægt fyrir tónlistarmenn að halda áfram að semja og framleiða nýtt efni. Jafnvel þótt það skili engum peningum,“ segir Hadley og hlær og hvetur blaðamann til þess að finna Obvious á YouTube.

„Sólóferillinn hefur reyndar gengið mjög vel og ég hef verið mjög heppinn,“ segir Hadley sem unir hag sínum vel eftir að hann hætti í Spandau Ballet. „Þetta var skrýtið þegar Spandau Ballet gliðnaði í sundur í fyrsta skipti. Sveitin hefur tilhneigingu til þess og það var mjög sérstakt að vera sóló listamaður eftir að hafa verið í hljómsveit síðan þú varst sextán ára. En ég hef borið gæfu til þess að umkringja mig frábærum tónlistarmönnum og svo puðar maður bara áfram í þessu.

Augnskuggar fortíðarinnar

Sitt sýnist hverjum um níunda áratuginn, tónlist hans og tísku en tónlist tímabilsins endist von úr viti og ekki þarf annað en að kalla Sigga Hlö og útvarpsþáttinn hans, Veistu hver ég var? til vitnis.
„Í alvöru?“ Hváir Hadley og finnst greinilega nokkuð til um þegar honum er tjáð að vikulegur útvarpsþáttur með 80´s tónlist hafi notið stöðugra vinsælda árum, ef ekki áratugum, saman.
Hann sjálfur, einn óumdeildra frumkvöðla bresku nýrómantíkurinnar sem skall á heimsbyggðinni upp úr 1980, kippir sér þó ekki upp við neitt og veltir hvorki fyrir sér gömlum né nýjum merkimiðum.

„Mér er alveg sama. Ég er þá gamalrómantíker núna. Ég er ekki lengur nýr, en þetta var gott tímabil. Það var spennandi að vera þarna,“ segir Hadley þegar hann er spurður hvort það sé kalt í glæstum augnskugga fortíðarinnar, en nýrómantíkerarnir kunnu á sínum tíma mátulega vel við þann stimpill og kepptust við að hreinsa hann af sér, án þess þó að hárlakkið og andlitsmálningin skoluðust af í leiðinni.

„Að vera hluti af Live Aid, Band Aid og njóta þeirra margvíslegu vinsælda sem við gerðum, er eitthvað sem flestir geta aðeins látið sig dreyma um. Við skemmtum okkur stórkostlega og mér er alveg sama þótt ég sé kallaður nýrómantíker eða gamalrómantíker,“ segir hann og hlær.

Pólitískur glimmerpottur

Hadley segir að hver áratugur fyrir sig hafi vissulega einhver sérkenni þegar þannig sé á þá litið og margt geti þótt hallærislegt þegar horft er til baka. Það er að segja þangað til nógu langt er frá liðið og ljómi nostalgíunnar færist yfir. „Á tímabili furðuðu einhverjir sig á þeim sem lýstu aðdáun sinni á Spandau Ballet eða Duran Duran.

„Síðan líður nógu langur tími og fólk fer að horfa til baka í nostalgíu og getur þá viðurkennt að það hafi bara í raun verið nokkuð góð lög þarna og eitthvað um góðar hljómsveitir. Þau hafi kannski klætt sig svolítið furðulega, en þetta var gott tónlistartímabil.

Ég er ekki mikið fyrir að dvelja í fortíðinni og ég tel að níundi áratugurinn hafi verið frábær og einstakur og að dramatísku, pólitísku breytingarnar séu mikilvægastar. Kalda stríðinu lauk, Apartheid, Live Aid. Það breyttist rosalega margt á þessum áratug.

Hvað tónlistina varðar segir Hadley hana alls ekki jafn einsleita og margir vilja vera láta. „Culture Club, Depeche Mode, Spandau Ballet, Duran Duran og The Human League hafa mjög ólíkan tón. Þarna eru alls konar mismunandi hljómar, þótt þeir hafi orðið hlutar af tónlistarlegu afli. Raddir okkar Simons Le Bon eru gerólíkar og hvor okkar með sinn einstaka söngstíl,“ segir Hadley og nefnir einnig Midge Ure úr Ultravox, sem er einmitt einn þeirra sem hafa nú þegar troðið upp með Todmobile.

„Þannig að ég held að þetta hafi verið mjög áhugaverður áratugur. Mér finnst margir af þeim yngri í dag syngja á almennari nótum. Þetta er svolítið eins og að fólk vilji hljóma eins og einhver annar.“