Lög­maðurinn Jónas Haralds­son er kominn á svartan lista í Kína vegna greina­skrifa sinna í Morgun­blaðinu. Hann má ekki ferðast til landsins og þá hafa mögu­legar eignir í hans í Kína verið frystar.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Jónas að­gerðirnar hins vegar heldur bit­lausar þar sem hann á engar eignir í Kína og þá stóð ekki til að heimsækja landið á næstunni.

„Þetta er bara stöðluð að­ferð sem er notað um Evrópu og víða. Þetta kemur sér illa fyrir þá sem eru í við­skiptum, vinna í Kína eða eiga pening í banka­kerfinu þar en ég er ekkert að fara ferðast til Kína og engan pening í Kína,“ segir Jónas.

„Þetta bitnar í raun ekkert á mér. Það hefði þurft eitt­hvað annað og bita­stæðara til að að sparka í mig. Þetta er bara mátt­laust,“ segir Jónas brattur.

„En þetta getur komið sér illa fyrir fullt af fólki sem eru í við­skiptum eða vísinda­sam­bandi við kín­versk fyrir­tæki og stofnanir og alla­vega,“ segir Jónas og bætir við að í sínu til­felli er þetta bara tákn­rænt.

Utanríkisráðuneytið hringdi heim til Jónasar

Spurður um hvort hann muni halda á­fram að gagn­rýna kín­versk stjórn­völd í ræðu og riti, úti­lokar hann það ekki.

„Já, bara ef mér dettur það í hug. ég er ekkert að skrifa sér­stak­lega út af þessu frekar en öðru ég hef skrifað ýmis­legt,“ segir Jónas.

Yfir­völd í Kína til­kynntu utan­ríkis­ráðu­neytinu um að Jónas væri kominn á svartan lista og var hann boðaður á fund í ráðu­neytinu í kjöl­farið.

„Það var hringt í mig hérna heim frá utan­ríkis­ráðu­neytinu. Ég kem alveg að fjöllum og veit ekkert hvaða erindi þeir eiga við mig. Þá kemur í ljós að þeir vilja fá mig á fund. Ég vildi gjarnan vita um hvað og fæ þá nasa­sjón af því að það eru Kín­verjarnir sem eru að klaga mig. Svo fór ég upp eftir á þá er komið í ljós að ég sé kominn á svartan á lista,“ segir Jónas.

„Þá voru þeir búnir að fá vita þetta. Þetta fer í gegnum diploma­takerfið.“

Jin Zhijian, sendiherra Kína á Ísland.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Síðan fór ég að skrifa um co­vid eða „Kína­veiruna“ sem þeir þoldu ekki“

Jónas segir það alls ekki eins­dæmi að kín­versk stjórn­völd refsi ein­stak­lingum sem þeim hugnast ekki og segir að fjöl­margir Evrópu­búar eru á svörtum lista.

„Þetta er bara eins og er að gerast víða. Eitt­hvað land mót­mælir og fer í refsi­að­gerðir vegna mann­réttinda­brota á Úígúrum. Þá byrja Kín­verjarnir að týna út ein­hverja heima­menn, hvort sem það er í Hollandi, Frakk­landi og hvað annað og setja þá á svartan lista. Þannig þetta er ekkert eins­dæmi,“ segir

„En eins og menn horfa á þetta þá byggist þetta á mál­frelsi og tjáningar­frelsi,“

Að sögn Jónasar er ekki um eina sér­staka greina að ræða en hann segist hafa skrifað margar greinar um Kína, kín­versk stjórn­völd og kín­verska sendi­ráðið.

„Síðan fór ég að skrifa um co­vid eða „Kína­veiruna“ sem þeir þoldu nú ekki. Ég vildi að þeir mundu borga heiminum skaða­bætur fyrir að hafa komið þessu á. Þeim hefur ekki líkað við það og það er það sem þeir kalla á­róður og lygar,“ segir Jónas.