Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 15. janúar 2021
23.00 GMT

Unnur segist hafa kolfallið fyrir sjálfsævisögulegri bók Héðins, Vertu úlfur, þegar hún las hana fyrir fimm árum síðan. Í bókinni lýsir Héðinn reynslu sinni af geðhvörfum og nauðungarvistun og vakti hún mikla athygli á sínum tíma fyrir einlægni og hispursleysi.

Nú er bókin við það að lifna við á Stóra sviði Þjóðleikhússins í leikgerð og leikstjórn Unnar Aspar og í síðustu viku sat Héðinn í fyrsta sinn andspænis sjálfum sér á leiksviðinu, úti í sal sem áhorfandi.
Fbl_Megin: Það er Björn Thors sem heldur uppi einleiknum Vertu Úlfur og var eiginkona hans og sjálfur leikstjórinn, fullviss um að Héðinn færi fram á lögbann á sýninguna eftir þessa „frumsýningu.“ Um er að ræða gríðarlega persónulega sögu, sem ekki aðeins er unnin upp úr bókinni heldur einnig dagbókarfærslum Héðins, samtölum hans og leikstjórans, fyrirlestrum og smásögu.


Óttaðist að hann fengi lögbann


„Fyrir mig og listræna aðstandendur sýningarinnar var aðalfrumsýningin að fá Héðin í salinn. Hann hafði verið alveg fyrir utan æfingaferlið og var loks mættur. Ég sat fyrir aftan hann og sá að hann gat í upphafi ekki horft. Ég var farin að ímynda mér að hann myndi fá lögbann á sýninguna og ég hafði útbúið ræðu í huganum um að þetta væri sjálfstætt listaverk og svo framvegis,“ segir Unnur og hlær. „Það var því gríðarlegt spennufall þegar hann svo lagði blessun sína yfir sýninguna.“


„Ég var farin að ímynda mér að hann myndi fá lögbann á sýninguna og ég hafði útbúið ræðu í huganum um að þetta væri sjálfstætt listaverk og svo framvegis.“ Unnur


„Það eru í raun aðeins tvær setningar í sýningunni sem ég kannast ekki við að hafa sagt sjálfur. Svo hjó ég eftir því hvað mamma var sagt oft. Ef það hefði verið sagt oftar en sex sinnum hefði ég stoppað það,“ segir Héðinn. „Tenging mín við hana er sú sterkasta sem ég hef átt á þessum 50 árum sem ég hef lifað og fannst erfitt að orðið væri sagt of oft,“ segir Héðinn, en móðir hans er fallin frá.

Unnur bætir við: „Með móðurtengingunni er ég að reyna að færa áhorfendur nær kviku persónunnar. Texti Héðins er brjálæðislega leikbær og það segir mikið um hann sem skáld að orðin og setningarnar eru svo vel mótaðar og það auðveldaði Bjössa mikið að fara inn í ákveðnar aðstæður og tilfinningar.“


Man maníuna í smáatriðum


Í bókinni og nú verkinu er fjallað um maníu sem Héðinn upplifði árið 2008, aðdraganda hennar og eftirköst og er eftirtektarvert í hvers lags smáatriðum hann lýsir líðan sinni og upplifun.

„Í þessu oflæti og þunglyndi árin 2008-2009 gerist svolítið sérstakt, ég man öll smáatriði svo vel. Ég hafði alls farið í fjórar svona sveiflur áður, árin 1992 og 1994,“ útskýrir Héðinn en hefur ekki sömu sögu að segja í þeim tilfellum. „Þarna man ég alla maníuna. Í reiði minni eftir nauðungarvistun og ofbeldi fer ég svo að skrifa þetta allt niður. Ég byrjaði í þriðju persónu, því það var auðveldara að byrja aðeins fjær, en svo færi ég mig innar. Þegar ég skrifa sé ég þetta fyrir mér myndrænt og úr verður þessi samfella sem grundvallast öll á því að muna þessa upplifun, þessa alternatífu túlkun á raunveruleikanum.“

Unnur segir ýmislegt fleira hafa ratað inn í verkið en bókina sjálfa. „Hann sýnir þvílíkt örlæti og traust með því að hleypa mér í dagbækur sínar frá geðdeild, auk þess sem ég hef aðgang að fyrirlestrum og skrifum hans sem eru opinber. Mitt hlutverk var að finna leið fyrir leiksviðið og hleypa okkur inn í ferðalag persónunnar. Finna baráttu hennar, að hún sé á allt öðrum stað í lok ferðarinnar en í upphafi og leyfa okkur að tengjast persónunni, ekki síst tilfinningalega. Öll rannsóknarvinnan og samtalið við Héðin skilar sér inn í sýninguna á einn eða annan hátt. Í raun stígum við inn í hugarheim Héðins Unnsteinssonar þar sem við erum að vinna með frumefnin fjögur.“


„Manía er auðvitað ekkert nema of mikill eldur og of lítil jörð. Of mikið loft og ekkert vatn!“ segir Héðinn ákveðinn og uppsker hlátur Unnar.


„Manía er auðvitað ekkert nema of mikill eldur og of lítil jörð. Of mikið loft og ekkert vatn!“ Héðinn


Saga um mennskuróf


Titillinn Vertu úlfur er vísun í bók frá átjándu öld. „Mér var bent á franska bók um varúlfa frá 1890. Hún geymir frásagnir um hamskipti og fólk sem er ekki talið hæft til að búa í samfélagi manna og er sent út í skóg til að vera með úlfunum: Vertu úlfur!“ útskýrir Héðinn.

Verkið verður frumsýnt næstu helgi á Stóra sviðinu en það var ekki upphaflega planið að sýna einleikinn þar.

„Nú í árferði óvissu og í skrítnum kringumstæðum erum við að fara að frumsýna fyrr en áætlað var og á stærra sviði. Í takti við heimsbyggðina er allt á hvolfi hjá okkur og var þetta sannarlega áskorun fyrir listræna teymið, sem þurfti að endurhugsa allt konseptið. En ég hikaði ekki enda á inntak verksins sannarlega erindi þessa dagana,“ segir Unnur.

„Mér finnst þessi sýning vera um mennsku. Rennslið sló mig í þá átt. Þarna er maður sem fær að reyna það að fara út á ystu mörk skynsviðs síns og upplifa hluti sem kannski flestir upplifa ekki, taka hamskiptum. En hann er alltaf á einhverju mennskurófi og því er erindið sammannlegt.“

„Ég er algjörlega sammála, en það sem heillaði mig við bókina var að mér fannst hún á einhvern undarlegan hátt fjalla um mig. Ég hef persónulega ekki reynslu af geðhvörfum en ég hef reynslu af átökum og áföllum og baráttunni við það að vera manneskja.“


„Ég hef persónulega ekki reynslu af geðhvörfum en ég hef reynslu af átökum og áföllum og baráttunni við það að vera manneskja.“ Unnur


Héðinn: „Hún er kannski lýsing á hugsanaferlum sem við eigum öll sameiginlega. Í þessu tilfelli fara þeir aftur á móti út á jaðar skynseminnar og verða það hraðir í oflætinu að tengslahugsanir taka við. Allt í einu verður bílnúmerið BA 666 að níunda flugi British Airways frá Heathrow því 6 plús 6 eru 12 og 1 plús 2 eru 3 og 3 plús 6 eru 9 og BA getur staðið fyrir British Airways,“ útskýrir Héðinn á sinn eintaka lifandi en meitlaða hátt þegar hann rifjar upp eitt atriða bókarinnar.

„Þetta eru bara eðlilegir hugsanaferlar en þeir eru híberventileitaðir í oflætinu og verða þannig að einhverju öðru. En grunnurinn byggist á því sem við eigum sameiginlegt, þessari mennsku.

Héðinn sá verkið sem unnið er upp úr sjálfsævisögulegri bók hans Vertu úlfur, í síðustu viku og gat ekki horft fyrstu mínúturnar. Fréttablaðið/stefán

Mér finnst þráðurinn í sýningunni vera mennskuróf þó það fari auðvitað út fyrir það sem eðlilegt þykir þá er það alltaf forsenda þessara sammannlegu eiginleika. Það að geta hugsað, fundið til og vera manneskja.“

Unnur: „Og þörf okkar fyrir að tilheyra og vera viðurkennd og elskuð.“

Héðinn: „Og hafa hlutverk.“

Unnur: „Mér finnst svo fallegt að Héðinn tileinkar bókina öllum þeim sem hafi einhvern tíma staðið utan hringsins og það leyfi ég mér að fullyrða að við höfum öll gert. Mér finnst það mjög mikilvægt því í okkar menningu er tilfinningin gagnvart geðröskunum oft: „við og hinir.“ Það sem kallaði á mig í bók Héðins er að þetta erum við öll. Okkur líður öllum einhvern tíma mjög illa. Svo er það spurningin um þessi mörk, hvenær við erum orðin veik.“

Héðinn: „Hvenær verður vanlíðan að þjáningu og hvenær verður þjáning að röskun eða fráviki? En hugmyndin „utan hringsins“ er fengin beint upp úr kvæði Steins Steinars sem heitir Utan hringsins þó að það ljóð hafi skírskotun í rómantíska höfnun,“ útskýrir Héðinn og fer með ljóðið:


Ég geng í hring
í kringum allt sem er.
Og innan þess hrings
er veröld þín.

Minn skuggi féll um stund
á gluggans gler.


Ég geng í hring
í kringum allt, sem er


Og utan þess hrings
er veröld mín.„Þetta er svo sterk myndlíking. Hvenær stendurðu utan hringsins og er hringurinn nú orðinn svo þröngur að það er nánast ekkert eftir í honum? Það eru allir með einhverjar raskanir og standa þannig utan hringsins.“


Öll einhvern veginn á skjön


Unnur: „Við erum öll orðin einhvern veginn á skjön. Mér finnst alvarlegt hversu viðurkennt það er að fólk sé á lyfjum. Það er eðlilegur hluti af lífinu að upplifa kvíða, í honum felst líka sköpun og kraftur. En það er eins og unga kynslóðin að einhverju leyti hallist að því að það sé eitthvað að ef þau eru kvíðin því við erum farin að ofgreina allt. Margt er gott við greiningarþróunina en annað er varhugavert.“

Héðinn: „Á 140 árum er búið að búa til huglæga narratífu sem keyrð er áfram á 850 milljörðum Bandaríkjadala á hverju ári, sjúkdómakerfinu. Er eðlilegt að sorg sé flokkuð sem geðröskun? Eða feimni? Þessir normal varíantar mannlegra tilfinninga eru hver á fætur öðrum að verða að röskun. Þetta er erfitt við að eiga enda ekki hægt að sýna fram á þessar raskanir með blóðprufum. Þetta er alltaf huglægt mat eins aðila á huglægu ástandi annars.“


„Er eðlilegt að sorg sé flokkuð sem geðröskun? Eða feimni? Þessir normal varíantar mannlegra tilfinninga eru hver á fætur öðrum að verða að röskun." Héðinn


Héðinn heldur áfram: „Rannsókn sem kom út á dögunum sýnir að 34,4 prósent grunnskóladrengja geta ekki lesið sér til gagns og að ellefu prósent drengja, undir átján ára, hér á landi eru á ADHD lyfjum, þegar það eru tvö til fjögur prósent á Norðurlöndunum. Það er jafnframt öfugur hvati að jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiði skólum meira eftir því hversu margir í árgangi eru með greiningar. Það er undarlegt að við sem menn séum farin að skilgreina okkur frekar út frá röskunum okkar og frávikum, frekar en styrkleikum okkar og getu. Það eru mikið minni peningar í heilbrigði en í veikindum,"


Kerfi keyrt áfram á greiningum


Héðinn hefur um árabil starfað á sviði geðheilbrigðismála, sem sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu, hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og sem formaður Geðhjálpar, auk þess sem hann hefur kennt, haldið fyrirlestra og skrifað fjölda greina um málefnið. Hann hefur barist fyrir umbótum í geðheilbrigðismálum og ekki síst að opna á umræðuna um hvort við séum á réttri leið í greiningum og meðhöndlun.

„Þegar ég var að vinna hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnun fékk ég nóg þegar ég upplifði hvernig kerfið er um of keyrt áfram á þessum greiningum og frekar á vangetu einstaklinga en styrkleikum,“ segir hann ákveðinn.

„Þetta er líka samfélagslegur vandi. Ef við teljum eitthvað vera að okkur þá viljum við lausn strax. Lausnin er ekki í pillu heldur þarf að vinna í svefni, næringu, hreyfingu og fleiru til að umbylta lundarfari, það er ekki svo einfalt að það sé gert með pillu. Lyf eru til margra góðra hluta nytsamleg, en ekki eina svarið.“

Héðinn bendir á að þróun í geðheilbrigðismálum hafi verið of lítil. „Á 110 ára sögu Nóbelsverðlaunanna hefur geðlæknisfræði, sem er um það bil 30 prósent af umfangi læknavísindanna, tvisvar fengið verðlaunin. Síðast var það árið 1949 og þá fyrir framheilanám. Erum við mikið að stunda það í dag að stinga sjö sentimetra ísnál upp undir augun til að skemma framheilann? Nei. Þetta er allt saman góð viðleitni, en við höfum gengið of langt í sjúkdómavæðingu.“


Hvenær verður vanlíðan röskun

Héðinn samsinnir því að við óttumst það að líða illa. „Það getur margt jákvætt sprottið upp úr vanlíðan. En eins og sýningin kemur inn á þurfum við að spyrja okkur, hvenær vanlíðanin er orðin það mikil að hún verður að þjáningu eða röskun. Hversu illa þarf þér að líða til að þú sért orðinn veikur? Þegar þú ert líkamlega veikur er hægt að sýna fram á það með hlutlægum hætti.“


„Hversu illa þarf þér að líða til að þú sért orðinn veikur?" Héðinn


Héðinn bendir á að þegar komi að geðinu sé alltaf um huglægt mat að ræða, hann setur spurningarmerki við kerfið sem stuðst er við og tekur sem dæmi greiningu á þunglyndi.

„Þú þarft að búa við fimm einkenni þunglyndis í þrjá mánuði til að greinast þunglyndur samkvæmt greiningarkerfinu. Af hverju ekki fjögur einkenni í tvo? Eða tíu í átta? Þetta eru ekki hlutlæg fyrirbrigði heldur narratíva sem okkur hefur verið seld. Hún er góð viðleitni og gagnleg upp að vissu marki, en mörgum finnst hún hafa farið of langt og þá veltir maður fyrir sér forsendunum. Ég sé aðallega þessar stóru forsendur sem eru 850 milljarðar Bandaríkjadala í veltu á hverju ári. Hundrað og tíföld fjárlög íslenska ríkisins.“

Unnur: „Það sem er magnað við Héðinn er að hann situr beggja megin borðsins. Hann býr bæði að þessari lífsreynslu, að fara í gegnum upp- og niðursveiflu geðhvarfanna og svo þessari gríðarlegu yfirsýn um geðheilbrigðismál. Hann hefur ferðast um allan heim, beitt sér í málaflokknum og jafnvel haft áhrif á lagabreytingar varðandi sjálfræðissviptingu og annað. Við leikarar erum alltaf að leita að því að túlka togstreitu og drama, og ef þetta er ekki það þá veit ég ekki hvað.“


Það má enginn vera öðruvísi


Talið berst að fordómum sem lengi hafa verið viðloðandi geðræna kvilla og segist Héðinn ekki hafa farið varhluta af þeim, enda rödd hans verið hávær í umræðunni

„Segjum sem svo að ég lifi í 80 ár og tíu prósent tímans sé ég með virka geðröskun. Níutíu prósent ævinnar er ég í svokölluðu normi, sem við vitum þó ekkert hvað er. Samt sem áður bý ég við þann möguleika alla ævina að dómgreind mín og skoðanir geta verið dregnar í efa á þeim forsendum.


„Ég mætti mínum eigin fordómum í ferlinu og hann sínum." Unnur


„Þannig tekur fólk áhættu með því að opinbera sig um geðrænar áskoranir, því þannig getur staða þess í samfélaginu gerbreyst. Það má enginn vera öðruvísi og ef þú ætlar að vera öðruvísi þá er eins gott að þú gerir það bara á leikhússviðinu. Þar máttu það, því þar geta aðrir hlegið og klappað.“

„Ég mætti mínum eigin fordómum í ferlinu og hann sínum. Í verkinu erum við mikið að fjalla um það hvað við erum í raun öll uppfull af fordómum. Ég á til að mynda fatlaða dóttur sem er með fordóma gagnvart öðrum fötluðum börnum. Við erum öll með þessa filtera, að um leið og eitthvað er öðruvísi er það óþægilegt.“

Lokaði augunum í upphafi

Nú styttist í frumsýningu eftir heilt ár af undirbúningsvinnu og er ekki annað að heyra en aðstandendur séu sáttir við afraksturinn.

Héðinn: „Ég er stjórnsamur að eðlisfari en þar sem ég er kominn á miðjan aldur reyni ég að sleppa tökunum. Ég held ég hafi látið Unni hafa um fjörutíu bækur, greinar myndir og fleira á meðan á hennar vinnu stóð. En ég er um það bil að sleppa tökunum á þessu,“ segir hann og hlær, en bætir svo við að hann hafi sent henni langan póst eftir rennslið. „Það var mjög sérstakt að sitja úti í sal og horfa á tuttugu ár ævi sinnar. Ég gat ekki horft fyrstu tíu til fimmtán mínúturnar og lokaði bara augunum. En ég var bæði uppnuminn og hrifinn.“


„Ég gat ekki horft fyrstu tíu til fimmtán mínúturnar og lokaði bara augunum. En ég var bæði uppnuminn og hrifinn.“ Héðinn


Unnur: „Ég tók ákvörðun um að vera í mjög miklu samtali við Héðinn við vinnslu leikgerðarinnar, en það hefði verið hægt að gera þetta öðruvísi. En hafandi hitt hann, vissi ég að hann væri þvílíkur brunnur visku og það er ekki hægt að segja að hann hafi haft lítið fram að færa. Svo við stigum þann dans í marga mánuði og á endanum held ég að allar tilfinningarnar sem ég upplifði gagnvart Héðni birtist í sýningunni, og það var allur tilfinningaskalinn. Það er mín von að áhorfendur fari í gegnum sama tilfinningarússí­bana.“

Héðinn: Ég er búinn að segja þessa sögu hátt í þúsund sinnum. Það var því aldrei neinn vafi í mínum huga að gera þetta með Unni, en ég sleppti ekki tökunum strax. En þetta hefur farið frábæra leið og ég er yfir mig hrifinn af útkomunni.

Grunnstefið er alltaf: Ég er eins og þið. Þetta er bara mantran að sannfæra fólk um að maður sé eins og allir aðrir, þrátt fyrir að mannflóran nærist ávallt best á fjölbreytni.

Athugasemdir