„Þetta eru fyrst og fremst bara vonbrigði eins og í hvert sinn sem við fáum svona fréttir,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, þegar Fréttablaðið innti hann eftir viðbrögðum við fréttum morgunsins. Þá var greint frá því að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafi verið á meðal hátt í fimmtíu gesta listasýningar í Ásmundarsal í gærkvöldi. Lögreglan leysti samkomuna upp enda skýrt brot á samkomutakmörkunum sem miðast nú við tíu manns.
Rögnvaldur segist ekki vilja tjá sig mikið um mál Bjarna sérstaklega – almannavarnir og sóttvarnayfirvöld hafi ekki verið að taka einstaklinga sérstaklega fyrir í þessu samhengi. „Fólk veit alveg hvað það er sem við erum að reyna að gera og af hverju. En ég er bara mjög vonsvikinn og leiður.“
Spurður hvort það grafi ekki undan því sem almannavarnir og sóttvarnayfirvöld eru að reyna að ná fram þegar ráðherra ríkisstjórnarinnar brýtur gegn reglunum og hvort hann hafi áhyggjur af því að þetta sendi röng skilaboð út í samfélagið segir Rögnvaldur: „Það eru náttúrulega vonbrigði þegar að fólk sem er litið upp til stendur ekki eftir væntingum. Það getur vel verið að einhverjir túlki þetta sem ástæðu til að slaka á en þetta er það einmitt ekki.“
Menn fljótir að detta í gamla gírinn
Hann segir að almannavarnir hafi einmitt verið að tala fyrir því allan mánuð að fólk sleppi sínum hefðum og venjum á aðventunni sem fela í sér hittinga þetta árið. „Við höfum verið að vara við þessu og ég get ekki annað gert en að hvetja fólk til að fara áfram varlega. Ef maður passar sig ekki er maður fljótur að detta aftur í gamla gírinn.“
Hann segir þá að sóttvarnayfirvöld séu afar hrædd um að það komi bakslag í faraldurinn eftir hátíðirnar ef fólk passar sig ekki sérstaklega vel. Hingað séu að fljúga fleiri til landsins en hefur verið undanfarna mánuði og fleiri að hópast saman í boðum. „Okkur finnst þetta allt ávísun á bakslag.“