„Þetta eru fyrst og fremst bara von­brigði eins og í hvert sinn sem við fáum svona fréttir,“ segir Rögn­valdur Ólafs­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­vörnum, þegar Frétta­blaðið innti hann eftir við­brögðum við fréttum morgunsins. Þá var greint frá því að Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, hafi verið á meðal hátt í fimm­tíu gesta lista­sýningar í Ás­mundar­sal í gær­kvöldi. Lög­reglan leysti sam­komuna upp enda skýrt brot á sam­komu­tak­mörkunum sem miðast nú við tíu manns.

Rögn­valdur segist ekki vilja tjá sig mikið um mál Bjarna sér­stak­lega – al­manna­varnir og sótt­varna­yfir­völd hafi ekki verið að taka ein­stak­linga sér­stak­lega fyrir í þessu sam­hengi. „Fólk veit alveg hvað það er sem við erum að reyna að gera og af hverju. En ég er bara mjög von­svikinn og leiður.“

Spurður hvort það grafi ekki undan því sem al­manna­varnir og sótt­varna­yfir­völd eru að reyna að ná fram þegar ráð­herra ríkis­stjórnarinnar brýtur gegn reglunum og hvort hann hafi á­hyggjur af því að þetta sendi röng skila­boð út í sam­fé­lagið segir Rögn­valdur: „Það eru náttúru­lega von­brigði þegar að fólk sem er litið upp til stendur ekki eftir væntingum. Það getur vel verið að ein­hverjir túlki þetta sem á­stæðu til að slaka á en þetta er það ein­mitt ekki.“

Menn fljótir að detta í gamla gírinn

Hann segir að al­manna­varnir hafi ein­mitt verið að tala fyrir því allan mánuð að fólk sleppi sínum hefðum og venjum á að­ventunni sem fela í sér hittinga þetta árið. „Við höfum verið að vara við þessu og ég get ekki annað gert en að hvetja fólk til að fara á­fram var­lega. Ef maður passar sig ekki er maður fljótur að detta aftur í gamla gírinn.“

Hann segir þá að sótt­varna­yfir­völd séu afar hrædd um að það komi bak­slag í far­aldurinn eftir há­tíðirnar ef fólk passar sig ekki sér­stak­lega vel. Hingað séu að fljúga fleiri til landsins en hefur verið undan­farna mánuði og fleiri að hópast saman í boðum. „Okkur finnst þetta allt á­vísun á bak­slag.“