Þor­grímur Þráins­son, rit­höfundur og fyrr­verandi knatt­spyrnu­maður, er gestur Sig­mundar Ernis Rúnars­sonar í nýjasta þætti Manna­máls á Hring­braut sem sýndur verður á morgun, fimmtu­dag, kl. 19.00 og endur­sýndur kl. 21.00.

Sig­mundur og Þor­grímur ræddu allt á milli himins og jarðar enda hefur margt á daga Þor­gríms drifið. Hér gefur að líta stutt brot úr sam­tali þeirra.

Aldrei haft á­huga á á­fengi

Þor­grímur hefur lengi verið ötull tals­maður heil­brigðs lífs­stíls. Hann fór í her­ferð fyrir nokkrum árum síðan gegn reykingum og er annálaður bindindis­maður, eins og al­þjóð veit. Sig­mundur spurði Þor­grím hvernig stæði á því að hann hafi aldrei byrjað að drekka.

„Ég er oft spurður að þessu. Ég varð nánast fyrir ein­elti sem ungur maður úti á lífinu, allir að bjóða mér í glas og ég sagði alltaf bara nei takk. Ég hefði örugg­lega verið hug­rakkari, átt kærustur og gert ein­hverja vit­leysu ef ég hefði verið að nota á­fengi. Ég tók bara á­kvörðun, ég veit ekki hve­nær það var,“ segir Þor­grímur.

Móðir hans mis­notaði á­fengi þegar hann var ungur, en það hafi þó ekki haft úr­slita­valdið: „Þegar ég fór að horfa upp á vini mína unga að aldri, ég var að keyra þá heim, hátta þá, svæfa þá og svo vöknuðu þeir morguninn eftir og spurðu hvað hefði gerst í gær. Ég nennti ekki að vera þarna.“

Þor­grímur bætir við: „Ég er bara stoltur bindindis­maður.“

Sigmundur Ernir ræðir við Þorgrím í nýjasta þætti Mannamáls á Hringbraut.
Mynd/Hringbraut

Sig­mundur stenst því næst ekki mátið og greinir frá því að Þor­grímur hafi eitt sinn sagt við hann að hann teldi sig jafn­vel skemmti­legri með víni. Getur það staðist?

„Ég er ekki frá því!“ segir Þor­grímur glettinn. Hann heldur á­fram: „Ég er búinn að lofa, ég má ekki segja frá þessu en ég ætla samt að gera það, að ég er búinn að lofa Guðna Bergs vini mínum að loka okkur ein­hvern tímann inni í pluss-klæddu her­bergi, með eina mynda­vél og hann ætlar að hella mig fullann og sjá hvað gerist. Ég veit ekki hvað mun gerast,“ segir Þor­grímur og hljómar bæði spenntur og stressaður.

Hann hefur þó bragðað á­fengi og fundist það gott, en hefur hrein­lega ekki á­huga á því að drekka það: „Mig langar ekki að vera fullur,“ segir Þor­grímur og leggur á­herslu á orð sín.

„Þetta væri barna­þrælkun í dag“

Þor­grímur ólst að stórum hluta upp á Ólafs­vík og þegar hann hugsar aftur til upp­vaxtar­áranna fyllist hann þakk­læti.

„Veistu það, ég á svo mörgum margt að þakka. Til dæmis bara maður sem rak Bakka-frysti­húsið, Gylfi Magg. Við fengum vinnu hjá honum öll sumur og þegar það kom mikill afli á land í Ólafs­vík, þá var skólanum lokað. Við, 12 ára, fórum í frysti­húsið klukkan átta að morgni, unnum til tíu að kvöldi, dag eftir dag, þreytt með blauta hanska,“ segir Þor­grímur.

Hann bætir við: „Þetta væri barna­þrælkun í dag, en þetta er besti skóli sem ég hef gengið í gegnum.“

Hann hugsar afar hlý­lega til Ólafs­víkur og Snæ­fells­nessins alls og sækir and­legan styrk með reglu­legum heim­sóknum þangað.

Manna­mál er á dag­skrá á sjón­varps­stöðinni Hring­braut alla fimmtu­daga kl. 19.00 og endur­sýndur kl. 21.00.