Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, blæs á fullyrðingar Gunnars Smára Egilssonar, formanns framkvæmdarstjórnar Sósíalistaflokksins, um að helsti munur flokkanna tveggja sé að enga grasrót sé að finna í Flokki fólksins.
„Ég er bara alls ekkert að spá í Sósíalistum. Ég var bara að koma heim eftir vinnu í allan dag og það er svo ofboðslega gaman hjá okkur að ég er ekkert að skipta mér af því sem Sósíalistar eru að spá í,“ segir Inga í samtali við Fréttablaðið.
Greint var frá ummælum Ingu í Sprengisandi á Bylgjunni um helgina, þar sem hún sagði helsta muninn á flokkunum tveimur vera þann að Sósíalistar hafi ekki sama trúverðugleika og Flokkur fólksins. Gunnar Smári brást í kjölfarið við ummælum Ingu á Facebook hópi Sósíalista.
Segir flokkana ekki berjast um atkvæði
Þar taldi Gunnar Smári upp þann mun sem hann telur á flokkunum. Þá hafnar hann því að flokkarnir berjist um sömu atkvæðin og segist vona og sé raunar viss um að Inga muni ná á þing.
„Mesti munurinn er auðvitað sá að Sósíalistaflokkurinn er stjórnmálaflokkur með virka grasrót sem tekur þátt í margháttuðu starfi, mótar stefnu flokksins og baráttu. Það er hins vegar enga stefnu að sjá á vef Flokks fólksins, sem er ekki bara sérstakt í samanburði við Sósíalistaflokkinn heldur í vestrænni stjórnmálasögu,“ skrifar Gunnar Smári.
Þá segir hann annan mun sá að Flokkur fólksins virðist telja að nóg sé að hin fátæku hafi rödd og að sú rödd reyni að biðla til valdastéttarinnar. „Að milda hjarta hennar í von um að hún láti hin fátæku frá fleiri mola af borði sínu. Sósíalistaflokkurinn er hins vegar stjórnmálahreyfing sem stefnir að því að hrekja auðvaldið frá völdum, svo almenningur geti sjálfur ákveðið hverskonar samfélag hann vill byggja upp.“
Gunnar Smári segir kannanir sýna að nánast engin færsla sé á atkvæðum milli flokkanna. Báðir flokkar mælast nú með í kringum 5 prósent fylgi. Hann segir ekkert fólk innan vébanda Sósíalistaflokksins eiga sér rætur í Flokki fólksins.
„Að hluta til kann ástæðan að vera sú að það er ekki venjulegt flokksstarf í Flokki fólksins, sá flokkur er einskonar hollvinasamtök Ingu Sæland. En eftir sem áður eru engin sjáanlegt tengsl þarna á milli.“
Hann segir erfitt að segja til um hvaðan hugmyndin komi um að flokkarnir sláist um sömu atkvæði. „Líklega liggja ræturnar í forréttindablindu hinnar svokölluðu frjálslyndu miðju sem heldur að þeir flokkar sem snúa ekki að sér hljóti að vera meira of minna sama tóbakið.“
Hafði ekki undan að baka vöfflur á sunnudag
„Ég sé bara að þeir eiga sér draum og það er svona svipað og það sem ég hef verið að segja bæði á þingi og annarsstaðar að mér hefur sýnst það sem verið er að setja á prent af foringjanum vera svolítið svipað því sem ég er að segja,“ segir Inga.
„En ég hef ekkert um það að segja. Þeir verða bara að tala fyrir sig sjálfir og finna sín hugðarefni. En það væri nú ánægjulegt ef það væri nú eitthvað nýjabrum á því, þeir væru ekki að koma með sömu orðin og hafa poppað út úr mér.“
Aðspurð út í ummæli Gunnars Smára um grasrótina segir Inga hann sennilega aldrei hafa komið í kaffi til Flokks fólksins. „Eins og til dæmis á sunnudaginn var þar sem komu tugir nýrra andlita og við höfðum ekki undan að baka vöfflur þó við værum orðnar þrjár í eldhúsinu,“ segir Inga.
„Þú getur rétt ímyndað þér hvort að við eigum ekki grasrót. Við erum orðin fimm ára og það fjölgar alltaf stuðningsmönnum okkar, við erum búin að vera á þingi og höfum mjög sterkt bakland. Við eigum eftir að sýna það líka, við eigum efitr að koma með flotta frambjóðendur og fólk á eftir að verða hissa,“ segir Inga.
Til áherslu brýst Inga í söng og vitnar í Stuðmenn. „Við erum komin til að sjá og sigra, Sigurjón digra.“
Styttist í að frambjóðendur verði kynntir
Inga segir aðspurð að það styttist óðfluga í að frambjóðendur flokksins verði kynntir. Hún segir búið að raða þeim á lista en ætlunin sé að skipuleggja viðburð þar sem allir verða kynntir og tekin mynd.
„Við erum bara rosalega glöð og hlökkum til að halda áfram, það er bara svoleiðis. Við höfum engar áhyggjur af því að kjósendur dæmi okkur ekki bara af þeim verkum sem við höfum unnið,“ segir Inga. Hún og Guðmundur hafi mælt fyrir 36 málum á þingi, þrátt fyrir smæð þingflokksins og komið tveimur í gegn.
„Hann er að gera þetta að einhverjum spes söfnuði Ingu Sæland sem er náttúrulega algjörlega út úr kú og korti. Við erum með níu manna stjórn, við erum með rosalega grasrót, við erum búin að bjóða fram í öllum kjördæmum, með á annað hundrað frambjóðendur,“ segir hún.
„Það væri gaman að vita hver það er sem er Sósíalistaflokkurinn. Það væri gaman að fá að vita það.“