Inga Sæ­land, for­maður Flokks fólksins, blæs á full­yrðingar Gunnars Smára Egils­sonar, formanns fram­kvæmdar­stjórnar Sósíal­ista­flokksins, um að helsti munur flokkanna tveggja sé að enga gras­rót sé að finna í Flokki fólksins.

„Ég er bara alls ekkert að spá í Sósíal­istum. Ég var bara að koma heim eftir vinnu í allan dag og það er svo of­boðs­lega gaman hjá okkur að ég er ekkert að skipta mér af því sem Sósíal­istar eru að spá í,“ segir Inga í sam­tali við Frétta­blaðið.

Greint var frá um­mælum Ingu í Sprengi­sandi á Bylgjunni um helgina, þar sem hún sagði helsta muninn á flokkunum tveimur vera þann að Sósíal­istar hafi ekki sama trú­verðug­leika og Flokkur fólksins. Gunnar Smári brást í kjölfarið við um­mælum Ingu á Face­book hópi Sósíal­ista.

Segir flokkana ekki berjast um at­kvæði

Þar taldi Gunnar Smári upp þann mun sem hann telur á flokkunum. Þá hafnar hann því að flokkarnir berjist um sömu at­kvæðin og segist vona og sé raunar viss um að Inga muni ná á þing.

„Mesti munurinn er auð­vitað sá að Sósíal­ista­flokkurinn er stjórn­mála­flokkur með virka gras­rót sem tekur þátt í marg­háttuðu starfi, mótar stefnu flokksins og bar­áttu. Það er hins vegar enga stefnu að sjá á vef Flokks fólksins, sem er ekki bara sér­stakt í saman­burði við Sósíal­ista­flokkinn heldur í vest­rænni stjórn­mála­sögu,“ skrifar Gunnar Smári.

Þá segir hann annan mun sá að Flokkur fólksins virðist telja að nóg sé að hin fá­tæku hafi rödd og að sú rödd reyni að biðla til valda­stéttarinnar. „Að milda hjarta hennar í von um að hún láti hin fá­tæku frá fleiri mola af borði sínu. Sósíal­ista­flokkurinn er hins vegar stjórn­mála­hreyfing sem stefnir að því að hrekja auð­valdið frá völdum, svo al­menningur geti sjálfur á­kveðið hvers­konar sam­fé­lag hann vill byggja upp.“

Gunnar Smári segir kannanir sýna að nánast engin færsla sé á at­kvæðum milli flokkanna. Báðir flokkar mælast nú með í kringum 5 prósent fylgi. Hann segir ekkert fólk innan vé­banda Sósíal­ista­flokksins eiga sér rætur í Flokki fólksins.

„Að hluta til kann á­stæðan að vera sú að það er ekki venju­legt flokks­starf í Flokki fólksins, sá flokkur er eins­konar holl­vina­sam­tök Ingu Sæ­land. En eftir sem áður eru engin sjáan­legt tengsl þarna á milli.“

Hann segir erfitt að segja til um hvaðan hug­myndin komi um að flokkarnir sláist um sömu at­kvæði. „Lík­lega liggja ræturnar í for­réttinda­blindu hinnar svo­kölluðu frjáls­lyndu miðju sem heldur að þeir flokkar sem snúa ekki að sér hljóti að vera meira of minna sama tóbakið.“

Hafði ekki undan að baka vöfflur á sunnu­dag

„Ég sé bara að þeir eiga sér draum og það er svona svipað og það sem ég hef verið að segja bæði á þingi og annars­staðar að mér hefur sýnst það sem verið er að setja á prent af foringjanum vera svo­lítið svipað því sem ég er að segja,“ segir Inga.

„En ég hef ekkert um það að segja. Þeir verða bara að tala fyrir sig sjálfir og finna sín hugðar­efni. En það væri nú á­nægju­legt ef það væri nú eitt­hvað nýja­brum á því, þeir væru ekki að koma með sömu orðin og hafa poppað út úr mér.“

Að­spurð út í um­mæli Gunnars Smára um gras­rótina segir Inga hann senni­lega aldrei hafa komið í kaffi til Flokks fólksins. „Eins og til dæmis á sunnu­daginn var þar sem komu tugir nýrra and­lita og við höfðum ekki undan að baka vöfflur þó við værum orðnar þrjár í eld­húsinu,“ segir Inga.

„Þú getur rétt í­myndað þér hvort að við eigum ekki gras­rót. Við erum orðin fimm ára og það fjölgar alltaf stuðnings­mönnum okkar, við erum búin að vera á þingi og höfum mjög sterkt bak­land. Við eigum eftir að sýna það líka, við eigum efitr að koma með flotta fram­bjóð­endur og fólk á eftir að verða hissa,“ segir Inga.

Til á­herslu brýst Inga í söng og vitnar í Stuð­menn. „Við erum komin til að sjá og sigra, Sigur­jón digra.“

Styttist í að fram­bjóð­endur verði kynntir

Inga segir að­spurð að það styttist óð­fluga í að fram­bjóð­endur flokksins verði kynntir. Hún segir búið að raða þeim á lista en ætlunin sé að skipu­leggja við­burð þar sem allir verða kynntir og tekin mynd.

„Við erum bara rosa­lega glöð og hlökkum til að halda á­fram, það er bara svo­leiðis. Við höfum engar á­hyggjur af því að kjós­endur dæmi okkur ekki bara af þeim verkum sem við höfum unnið,“ segir Inga. Hún og Guð­mundur hafi mælt fyrir 36 málum á þingi, þrátt fyrir smæð þing­flokksins og komið tveimur í gegn.

„Hann er að gera þetta að ein­hverjum spes söfnuði Ingu Sæ­land sem er náttúru­lega al­gjör­lega út úr kú og korti. Við erum með níu manna stjórn, við erum með rosa­lega gras­rót, við erum búin að bjóða fram í öllum kjör­dæmum, með á annað hundrað fram­bjóð­endur,“ segir hún.

„Það væri gaman að vita hver það er sem er Sósíal­ista­flokkurinn. Það væri gaman að fá að vita það.“