Björn Leifsson, eigandi World Class, segist ekki vera ósáttur með hertu aðgerðir yfirvalda sem tóku gildi á miðnætti en meðal þeirra var að loka öllum líkamsræktarstöðvum á Íslandi.
„Ég er alveg sáttur við þessar aðgerðir þannig lagað. Auðvitað er maður ekki sáttur við að þurfa loka en eitthvað verður að gera til að stoppa þetta,“ segir Björn.
Fréttablaðið greindi frá því í dag að smitaður einstaklingur fór á æfingu Í World Class Laugum á laugardaginn. Ekki er vitað til þess hvort einstaklingurinn hafi smitað frá sér en að sögn Björns fara þeir sem voru settir í sóttkví vegna smitsins í skimun um helgina.
„Það hafa komið smitaðir einstaklingar í fyrri bylgju í tíma hjá okkur og það kom ekkert smit út frá því. Svo kom maður hérna fyrir mánuði síðan og þá smitaðist enginn sem var með honum í hólfi. Núna seinasta laugardag kom smitaður einstaklingur og það fóru 28 í sóttkví og það kemur í ljós á laugardaginn hvort það komi smit út frá því en ég vona svo sannarlega ekki,“ segir Björn
„Ég vill meina að þetta er með öruggari stöðum til að vera á,“ bætir hann við.
„Það eina sem ég er ósáttur við er þessi mismunun“
Þrátt fyrir að Björn hafi skilning fyrir aðgerðum yfirvalda er hann engu að síður ósáttur með framkvæmdina.
„Það eina sem ég er ósáttur við er þessi mismunun. Af hverju eru öllum verslunum og matvöruverslunum lokað eða allavega bara opið fyrir tíu manns. Af hverju mega koma fimmtíu manns í saman þar. Ég hefði viljað loka öllu þannig við sitjum bara öll við sama borð.“
„Mér finnst þetta skrýtin ráðstöfun því nú eru fataverslanir og annað. Þetta eru ekki lífsnauðsynlegar búðir og það að það megi vera fimmtíu manns þar inni og tuttugu starfsmenn meðan annars staðar má vera tíu og hjá okkur má enginn vera. Þannig ég hefði bara viljað sjá meiri jöfnuð í þessu,“ segir Björn.
Spurður um hvort hann hafi áhyggjur af rekstrinum í þessari lokun, segir hann svo ekki vera.
„Þetta tekur að sjálfsögðu í en við erum bara það rótgróið og öflugt fyrirtæki að við lifum þeta af,“ segir Björn.