Stefán Ólafsson hagfræðingur Eflingar og Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins ræddu kröfugerð Eflingar á Sprengisandi í dag á Bylgjunni og það að Efling vill að tekið sé sérstaklega mið af búsetu fólks þegar kauptaxtar eru reiknaðir.

„Ég er á móti því að draga launafólk í dilka eftir búsetu,“ sagði Vilhjálmur og bætti svo við „Við búum í einu landi.“

Hann sagðist þó sammála því að húsnæðiskostnaður væri hærri á höfuðborgarsvæðinu en að ef það ætti að fara þessa leið yrði að taka málið alla leið og reikna til dæmis bensínkostnað sem er miklu hærri á dreifbýli og svo nefndi hann einnig hærra orkuverð og húshitun en þau sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Þá nefndi hann einnig flutningskostnað og að það að flytja sófa vestur á firði kostar það um 50 þúsund.

„Ef það á að fara þessa leið verður að taka allan þáttinn eins og hann leggur sig,“ sagði Vilhjálmur og nefndi svo einnig heilbrigðiskostnað til dæmis þungaðra kvenna.

Hann sagði að þegar hefði verið brugðist við hærra húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu með óhagnaðardrifnum leigufélögum, eins og Bjargi, þar sem væri búið að setja upp 500 íbúðir.

Stefán Ólafsson hagfræðingur og starfsmaður Eflingar ræddi kröfugerð þeirra á Sprengisandi í dag.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hann spurði hvernig ætti að gera þetta og nefndi til dæmis þau sem búa í Hveragerði, Hvalfirði og Ölfusi og hvort það ættu að vera ólíkir kauptaxtar eftir póstnúmeri.

Stefán svaraði þessu og vísaði til útgjaldakannanna Hagstofunnar þar sem rætt er við fólk af öllu landinu og allur helsti kostnaður fólks reiknaður út og að þetta væri allt þegar í þeim útreikningum sem hann hefur gert og birt.

Hann samþykkti að ólík samsetning væri á lífskjörum og að sumt væri verra á landsbyggðinni en sumt betra en að tölurnar segi það að í „venjulegri neyslu“ sé ekki munur á því að búa á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, heldur getið verið minna valfrelsi. En áréttaði að samkvæmt útreikningum lægi munurinn á húsnæðikostnaði og að hann væri meiri á höfuðborgarsvæðinu.

Vilhjálmur spurði þá um kennara úti á landi en Stefán ítrekaði þá að það væri verið að tala um láglaunafólk og að það yrði að jafna kjör þeirra, og það væri hægt að gera með þessari uppbót sem Efling leggur til að verði lögð á þeirra félaga á höfuðborgarsvæðinu.

Vilhjálmur og Stefán tókust einnig á um þau orð Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að hann verði að halda trúnaði við sína viðsemjendur og að þess vegna sé ekki hægt að semja við einhvern um meira. Vilhjálmur hafnaði því að hann hefði nokkurn tíma sagt það sama og Halldór og bað Stefán að vera ekki með slíkar dylgjur.

Umræðan var lengri en hægt er að hlusta í beinni á vef Vísis.