„Í æsku minni var þetta orð, kvöldvaka, mjög tengt skátunum,“ segir Jón Gnarr sem bauð gestum fyrst á kvöldvökur með sér 2018. „Mér fannst misjafnlega gaman í skátunum en kvöldvökur voru alltaf skemmtilegar. Þá voru sagðar sögur, flutt skemmtiatriði og annað stuð. Ég á góða og persónulega tengingu við þetta fallega orð.“

Jón hefur rosalega gaman af íslensku og hefur þá sér í lagi dellu fyrir þeim orðum málsins sem ekki eru til annars staðar.

„Við eigum þjóðararf sem er misjafnlega ósýnilegur og hefur með gleðskap og list að gera. Í gamla daga voru til skemmtanir sem voru kallaðar gleðir og kirkjan bannaði. Það var bara kirkjuleg tilskipun að gleði væri hér með bönnuð,“ segir hann og hlær. „Íslendingar eiga ekki að gleðjast heldur eiga þeir að iðrast og huga að sínu synduga líferni og hvernig megi bæta fyrir það.“

Brunnur í eyðimörkinni

Jóni finnst eins og Íslendingar eigi það til að líta á það sem einhvers konar þroskaskref þegar fólki tekst að yfirstíga gleðina.

„„Nú er ekki fíflagangur lengur, núna er ég það þroskaður og gáfaður að nú þarf ég ekki lengur á gleði að halda. Hún er einskis nýt!“ Ég hef alltaf ögrað þessu viðhorfi því gleðin er svo verðmæt og gerir svo mikið.“

Fjöldi íslenskra fjölskyldna tengir kvöldvökur við Fóstbræður enda hitti fíflagangurinn í þáttunum beint í mark hjá mörgum þegar þeir fóru fyrst í loftið 1997. Jón segir tilfinninguna hafa verið eins og að grafa brunn í eyðimörk.

„Okkur fannst ekkert skemmtilegt að gerast og Fóstbræður var okkar framlag til þess að skapa einhvers konar gleðivettvang. Það mætti mikilli mótspyrnu, sérstaklega hjá eldra fólki því yngra fólk var almennt mjög ánægt með þetta.“

Með því að viðurkenna eigin bresti segir Jón að fólk geti forðast óþarfa vanlíðan.
Fréttablaðið/Anton Brink

Svar við grámyglunni

Þegar Næturvaktin fór svo í gang 2007 hvarflaði ekki að Jóni að nokkur myndi hafa gaman af þessu.

„Ég var alveg viðbúinn því að það yrðu kannski einhverjir nokkrir sem myndu kveikja á þessu en að þetta yrði aldrei neitt „mainstream“,“ segir hann. „Mér fannst sjálfum bara svo gaman að vera Georg Bjarnfreðarson og búa til þennan mann.“

Rétt eins og með Fóstbræður lagðist Næturvaktin vel í landann þar sem áður óþekktri eftirspurn í grámyglu var svarað.

„Það kom mér á óvart hvað þetta varð vinsælt því mér finnst þetta jafnvel leiðinlegt. Þetta er kómedía hversdagslegra leiðinda. Ég meina, þetta er bara um þrjá menn á bensínstöð um nótt.“

Hvatvísin er lykillinn

Sérkennilegt sagnasafn Jóns telur hann hafa komið til með óhefðbundnu viðhorfi sínu til lífsins.

„Ég hef farið ótroðnar slóðir í lífinu því ég er bæði fljótfær og hvatvís. Það hefur gert það að verkum að ég hef oft komið mér í sérkennilegar aðstæður,“ segir hann og bætir við hvað honum þyki gaman að velta fyrir sér örlögunum. „Af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru. Það hefur svo margt gerst fyrir mig sem mér finnst mystískt – bara stórfurðulegt.“

Þá hefur Jón líka búið sér til sínar eigin furðulegu aðstæður með eigin rugli og vísar þar til pólitíska ævintýrisins þegar hann stofnaði Besta flokkinn.

„Ég var ekki með neitt plan, mér fannst bara gaman að fikta með þetta,“ segir hann hlæjandi. „Ég horfði um daginn á gamalt myndband á Youtube þar sem var tekið viðtal við mig eftir að ég stofnaði flokkinn þar sem ég sagði að okkur væri drullusama því börn væru ekki með kosningarétt. Ég var bara á fullu í útúrsnúningum en það hefur verið þannig í svo mörgu sem ég hef gert. Ég er með eitthvert dræv að vaða áfram í þetta og er ekki mikið að hugsa um afleiðingar eða viðtökur.“

Eftir að hann varð borgarstjóri tók það Jón nokkrar vikur að meðtaka það almennilega.

„Það kom mér samt meira á óvart að þetta vakti eftirtekt í útlöndum. Stórir fjölmiðlar tóku viðtöl við mig því mér datt ekki í hug að nokkur hefði áhuga á þessu.“

Jón óraði ekki fyrir því að neinn myndi skemmta sér yfir Næturvaktinni.

Uppgötvun í sminkstólnum

Aðdragandinn að borgarstjóratíð Jóns var oft ansi skrautlegur.

„Ég er ekkert rosalega vel áttaður á málefnum líðandi stundar, hver er hver og svona,“ segir hann og dæsir. „Ég er ekkert alltaf með það á hreinu.“

Þessi persónuþoka Jóns kristallaðist í því þegar hann var á leið í viðtal til að kynna kvikmyndina Bjarnfreðarson á Stöð 2 og mætti þar konu sem var að koma úr sminki.

„Hún þekkti mig augljóslega en ég vissi ekki hver hún var. Hún heilsaði mér og spurði mig hvort ég væri þá búinn að stofna stjórnmálaflokk. Ég játaði því og hún sagði þá að við myndum sjást í baráttunni.“

Eftir að konan fór settist Jón í sminkstólinn og spurði hver þetta hefði nú verið.

„Stína sminka spurði mig hvort ég væri að djóka og ég neitaði því. Þá sagði hún mér að þetta væri Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur. Ég vissi þá ekki einu sinni hver væri borgarstjórinn í Reykjavík! Fólk fattar stundum ekki hvað ég er mikið út úr kortinu. Sumir hugsa: „Hann getur nú ekki verið alveg svona ruglaður,“ en ég er það.“

Sagan af því hvernig Jón hitti Hönnu Birnu í fyrsta skipti er ansi kostuleg.
Fréttablaðið/GVA

Brestur að leyna brestum

Þótt Jón viti ekki alltaf hver sé hver þá skammast hann sín ekkert fyrir það.

Eru kannski fleiri sem eru svona mikið út úr kortinu en þora ekki að viðurkenna það?

„Jú, en miklu minna en það var,“ svarar Jón. „Ég held að þetta hafi byrjað að breytast með minni kynslóð en það er mjög mikið af fólki sem er að dylja alls konar veikleika því það er hrætt um að það hafi alvarlegar afleiðingar í för með sér sem mér finnst mikil synd.“

Jón telur mikilvægt að horfast í augu við eigin bresti.

„Mín reynsla er sú að þegar fólk leynir veikleikum þá veldur það oft því sjálfu sársauka og skömm. Annað fólk undrast á því að það geti ekki gert eitthvað og þá getur fólk byrjað að næra með sér minnimáttarkennd og vanlíðan, sem mér finnst alveg ömurlegt.“

Þannig hefur Jón kosið að viðurkenna eigin bresti og bregðast við með auðmýkt.

„Þar með er það aftengt sjálfum mér. Þetta er ekki eitthvað sem ég geri heldur er eitthvað sem veldur því að ég geri svona,“ segir hann. „Sem betur fer hefur orðið mikil hugarfarsbreyting í þessum málum og það er orðið meira í lagi að stíga fram og viðurkenna að eitthvað sé ekki í lagi.“

Kappklædd Dunkirk-hetja

Jón minnist þess þegar fjölskyldan bjó í Texas og hann var dreginn tilneyddur af eiginkonu sinni og syni sínum inn í áskrift í líkamsræktarstöð.

„Þau vildu vera með kort þarna og ég fór með, en á meðan þau voru í tímum þá var ég bara að slaka á í spa-inu þar sem var gufubað,“ segir hann og bendir á að íbúar Texas kunni ekki á gufuböð. „Þetta var orðið hluti af einhverju hot jóga dæmi og fólk mætti bara kappklætt í gufuna, nýkomið úr tíma, þambandi marga lítra af vatni á meðan ég sat þarna í sundskýlunni. Sumir mættu meira að segja í skóm!“

Kappklæddir Kanarnir létu sér ekki nægja að vanhelga gufubaðið heldur mætti einn þeirra í strigaskóm í heita pottinn áður en Jón kallaði baðvörðinn til.

„Það var svo einu sinni þegar ég sat inni í gufunni þegar inn kemur mjög gamall maður í gráum rykfrakka með hatt, jakkafötum og spariskóm,“ segir Jón og hlær. „Hann vindur sér á tal við yngri mann sem situr þarna, í íþróttagallanum, og þeir fara að tala um herþjónustuna sína.“

Þá kom í ljós að sá eldri hafði barist í seinni heimsstyrjöldinni og tók meðal annars þátt í orrustunni um Dunkirk átján ára gamall.

„Þetta var bara eins og sena úr einhverri Coen-bræðra mynd!“

Jón segir að viðhorf sitt til leiðinda hafi hjálpað honum að lifa eigin fjölskyldu af.
Fréttablaðið/Anton Brink

Trúnósegull

Hvatvísi Jóns á það þó til að leiða hann í aðstæður sem jafnvel honum finnst of skrítnar.

„Það er margt sem hefur komið algjörlega aftan að mér og bara gerst fyrir mig. Ég er líka kannski þannig manneskja að fólki finnst í lagi að ræða skrítna hluti við mig,“ segir hann. „Ég get alveg fallist á það þannig, að fólk stundum fer á eitthvert trúnó við mig sem það myndi kannski ekki gera við marga aðra.“

Sem listamaður reynir Jón að vera vakandi fyrir fólki sem er ekki bara skringilegt heldur beinlínis leiðinlegt.

„Ég elska leiðinlegt fólk. Ef ég sé leiðinlegt fólk þá verð ég að stöðva við,“ segir hann. „Mér finnst íslenski kverúlantinn og leiðindapúkinn vera svo frábær persóna. Karlar og konur með einhver sérkennileg viðhorf – það bara gleður mig meira en nokkuð annað.“

Leiðinlegt fólk er áunnið bragð og deilir eiginkona Jóns ekki þessari sérkennilegu ástríðu hans.

„Henni leiðist leiðinlegt fólk og það fer sjálfkrafa í taugarnar á henni á meðan það heillar mig,“ segir hann. „Það er mikið af mjög leiðinlegu fólki í fjölskyldu minni og einhvern veginn tókst mér að lifa hana af með þessu viðhorfi. Þetta er nefnilega ekki leiðinlegt. Á einhvern hátt er þetta skemmtilegt og einhvern veginn er hægt að búa til eitthvað frábært úr þessum endalausu leiðindum.“