Forsætisnefnd fundar um Klaustursmálið svokallað á Alþingi klukkan 15 í dag, Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri Grænna sem situr í nefndinni, telur ólíklegt að málið verði afgreitt á fundinum. „Ég efast um að málinu muni ljúka í dag en vonandi mun þetta klárast bráðlega.“

Steinunn segist lítið geta tjáð sig um málið að svo stöddu þar sem það sé í miðju vinnuferli en hún telur ekki ólíklegt að einhver svör muni líta dagsins ljós í vikunni. „Við vinnum að því að reyna að klára þetta sem fyrst en við viljum auðvitað líka gera þetta vel,“ bætir hún við.

Gæti dregist á langinn

„Þetta er eina svona málið sem ég hef verið að fást við,“ segir Steinunn en að hennar sögn er enn óljóst hvort málið muni dragast á langinn eða ekki. Hún er þrátt fyrir það handviss um að málið verði klárað. „Við vinnum hörðum höndum að þessu núna, þannig að einhvern tíman kemur þetta, vonandi sem allra allra fyrst.“

Ásamt Steinunni situr Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í nefndinni en þau voru kosin til að gegna stöðu varaforseta nefndarinnar tímabundið eftir að forsætisnefnd lýsti sig vanhæfa til að fjalla um málið. Steinunn og Halldór voru í hópi fárra þingmanna sem ekki höfðu tjáð sig opinberlega um Klaustursmálið.

Hátterni þingmanna í brenndepli

Eins og alþjóð veit sátu þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins saman á barnum Klaustri þann 20. nóvember síðastliðinn og töluðu niðrandi um samstarfsmenn sína á Alþingi. Bára Halldórsdóttir tók upp samtöl þingmannanna og sendi á fjölmiðla. Í kjölfarið upphófst mikil umræða um hátterni þingmanna, kynjahyggju, fötlunarfordóma og fordóma gegn samkynhneigðum.

Steinunn og Haraldur óskuðu eftir ráðgefandi áliti siðanefndar Alþingis í febrúar en þau vildu fá það staðfest hvort siðareglur þingmanna ættu við um það sem átti sér stað á Klaustri. Þau hlutu síðan álit siðanefndarinnar 22. júlí, sem komst að þeirri niðurstöðu að ummæli þingmannanna sex á Klaustir félli undir gildissvið siðareglna þingsins. Staða þingmanna sem opinberar persónur skipti máli í niðurstöðunni og sú staðreynd að háttsemin á Klausturbar hafi átt sér stað á opinberum vettvangi og tengist málum sem hafi verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni.

Óljóst hverjir skiluðu andsvari

Umræddir þingmenn fengu síðan frest þar til síðasta föstudag til að skila andsvörum sínum um niðurstöðu siðanefndar. Steinunn segir nefndina hafa tekið á móti andsvörum frá Klaustursþingmönnum en getur ekki nefnt hverjir þeirra brugðust við.