Sigmundur Ernir Rúnarsson
Föstudagur 12. ágúst 2022
22.37 GMT

Bandarísku hjónin Daniel og Sierra Hund, sem bæði eru á þrítugsaldri, afréðu að fara í draumaferðina til Íslands í mars á þessu ári til að fagna tveggja ára brúðkaupsafmæli sínu.

Þau eru alvön fjallamennsku og finnst fátt skemmtilegra en að taka þátt í ævintýrum við erfiðar aðstæður upp til tinda og toppa – og þegar Sierra sá ljósmyndir frá Íslandi fyrir nokkrum árum hétu þau sér því að halda hingað til lands í brúðkaupsferðina sína.

En svo brast heimsfaraldurinn á með samkomuhömlum og ferðatakmörkunum, svo nýgiftu hjónin þurftu að fresta förinni til Íslands um óákveðinn tíma.

Loks rofaði til í byrjun þessa árs – og stefnan var tekin á eyjuna í norðri á tveggja ára brúðkaups­afmælinu, beint í helstu fjallabálka Íslands á Tröllaskaganum þar sem freistandi er fyrir ofurhuga að reyna sig við þverbrattar fjallshlíðar á þar til gerðum fjallaskíðum, oft og tíðum við hrikalegar aðstæður.


Ég bjóst við að deyja


Hjónakornin komu sér fyrir í bústað við utanverðan Tröllaskagann um miðjan mars og voru varla búin að taka upp úr töskunum þegar óþreyjan knúði dyra hjá Daniel sem afréð að halda einsamall til fjalla til að athuga aðstæður í fannbreiðunum í Vermundarstaðahyrnu í Húngilsdal, sem er einn þverdalanna sem liggja norðanvert í dalnum fram af Ólafsfirði.

Veður var skaplegt, smávegis hríðargeyfa á lofti – og Daniel sóttist ferðin vel upp á hyrnuna sem er í um 750 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar setti hann undir sig fjallaskíðin, en kveðst strax hafa fundið fyrir harðfenni undir skíðunum, sem varð til þess að hann missti fljótlega gripið í glerhálli hlíðinni og féll svo að segja lóðbeint niður eftir snarbrattri snjórennu á milli klettabelta, kútveltist yfir hamrabelti og hrapaði þaðan niður stóra fönn uns hann stöðvaðist í urðarbelti í miðri hlíðinni.

„Ég áttaði mig strax á því að ég var hryggbrotinn,“ segir Daniel, „því efri og neðri hluti líkamans sneru sitt á hvað.“ Og hann kveðst raunar þegar hafa orðið úrkula vonar um að nokkur maður myndi finna hann í þessu afskekkta þverhnípi þar sem hann lá í grafarkyrrðinni og gat sig hvergi hreyft.

„Ég var reiður sjálfum mér fyrir að hafa farið einn til fjalla, án skíðafélaga, svo ég bjóst bara við því að deyja á staðnum.“


„Ég var reiður sjálfum mér fyrir að hafa farið einn til fjalla, án skíðafélaga, svo ég bjóst bara við því að deyja á staðnum.“

Daniel


Daniel hefur verið í stöðugri endurhæfingu frá því hann hrapaði á fjallaskíðum á Tröllaskaga í mars, en með ólíkindum er að hann hafi lifað slysið af. MYND/Aðsend

Sierra, kona Daniels, beið hans niðri í bústað, en hann hafði sagst ætla að láta vita af sér klukkan tíu. En þegar hana fór að lengja eftir honum hugsaði hún í fyrstu sem svo að hann hefði ákveðið að taka sér aðra ferð niður fjöllin á skaganum.

„Svo fór ég að hafa áhyggjur eftir því sem tíminn leið,“ segir hún, „kannski hafði hann fótbrotnað, hugsaði ég, eða að hann hefði hlotið einhverja aðra skráveifu sem tefði heimför hans,“ bætir Sierra við.

„En það hvarflaði aftur á móti aldrei að mér að eitthvað alvarlegra hefði hent hann, af því hann er þaulreyndur skíðamaður frá unga aldri. Ég bara trúði því alls ekki.“


Allt svæði ellefu kallað út


En svo fór að björgunarsveitir voru kallaðar út – og þaulvanir og heimavanir liðsmenn þeirra lásu rétt í aðstæður frá fyrstu mínútu. Leitarsvæðið væri stórt, aðstæður með erfiðasta móti, lágskýjað með þó nokkurri ofanhríð.

Allt svæði 11 var því ræst út, á bilinu 80 til 100 manns í öllum björgunarsveitunum við Eyjafjörð. Augljóst var þá þegar að verkefnið væri harðsótt, enda fjalllendið á milli Ólafsfjarðar og Fljóta einstaklega erfitt yfirferðar.

Daniel fannst þó að lokum um tvö­leytið, fyrir harðfylgi leitarmanna sem dreifðu sér um dal­skorninga á milli þverbrattra og tröllslegra fjallanna. Og fyrstur á vettvang var Kári Brynjólfsson, ungur liðsmaður björgunarsveitarinnar Dalvíkur.

Kári Brynjólfsson, í björgunarsveitinni Dalvík var fyrstur á vettvang slyssins og lýsir ótrúlegum aðstæðum við björgunina á Tröllaskaga. Mynd/Aðsend

„Ég var á vel negldum snjósleða og snaraði mér upp eina brekkuna í Húngilsdal, sá ekki neitt en fór aftur sömu leið upp fjallið af því að leitarmenn niðri í dal töldu sig sjá eitthvað uppi í fjallinu – og einmitt í seinni ferðinni sé ég að maður veifar mér af veikum mætti og hefur sennilega heyrt í vélargnýnum,“ rifjar Kári upp.

Hann lagði snjósleðanum í hvelli niðri á jafnsléttu og klæddi sig í jöklabroddana áður en hann hentist upp fjallið til að veita manninum fyrstu hjálp.

„En urðin, sem hann lá í, var glerhál, raunar öll frosin, svo það var erfitt að fóta sig í þessum mikla bratta,“ segir Kári sem kveðst hafa átt í erfiðleikum í fyrstu með að koma einangrunardýnu utan um manninn til að draga úr hitatapinu.


„En urðin, sem hann lá í, var glerhál, raunar öll frosin, svo það var erfitt að fóta sig í þessum mikla bratta."

Kári


„Ég sá strax að hann var með meðvitund en kaldur mjög og þjáður,“ segir Kári, „en augljóst var að hann var stórslasaður,“ bætir hann við.

„En ég gerði mér líka grein fyrir því að aðstæður til björgunar voru með erfiðasta móti.“

Það sem hjálpaði þó til á næstu mínútum, eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út, var að heldur birti til.

„Það var mér mikill léttir þar sem ég stóð þarna yfir hinum slasaða,“ segir Kári, en þar með var honum ljóst að þyrlan kæmist að öllum líkindum alla leið á slysstað.

En björgunin var rétt að byrja. Fleiri leitarmenn dreif að slysstaðnum, en svo erfitt var þar um vik í hengifluginu að koma þurfti fyrir tryggingum og línum í hjarninu svo menn færu sér þar ekki að voða.

Eins byrjuðu sérþjálfaðir fjallabjörgunarmenn að koma fyrir þreföldu línukerfi í fjallshlíðinni, svo hægt yrði að virkja varaáætlun, kæmist þyrlan ekki á slysstað, en þá yrði hinum slasaða slakað hægt og örugglega niður hlíðina í sjúkrabörum þar sem þyrlan biði.

Frá vettvangi slyssins 17. mars í ár. Á milli 80 og 100 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni og björguninni, en allar sveitir í Eyjafirði voru kallaður út vegna atviksins. Mynd/Lögreglan á Norðurlandi eystra

Á meðan því verki vatt fram voru líka tveir sjúkraflutningamenn komnir upp í urðina og gátu hafið verkjastillandi meðferð á þeim slasaða og undirbúið hann á annan hátt undir frekari lífsbjörg. Og við tók biðin langa eftir þyrlunni sem þurfti að taka eldsneyti á Akureyri.

„Þetta var með því tæpasta,“ útskýrir Kári, en kveðst hafa fyllst bjartsýni þegar hann heyrði fyrstu hljóðin í þyrlunni. Og flugmenn hennar reyndust vandanum vaxnir þegar á hólminn var komið. „Sigmaðurinn kom niður til móts við okkur með börurnar og þar var Daniel komið fyrir með allri þeirri aðgætni sem þarf að hafa í huga þegar um svo slasaðan mann er að ræða,“ segir Kári.

Líkamshitinn um 25 gráður


Það er með hreinum ólíkindum að Daniel hafi lifað slysið af, ekki einasta sakir þess að hann hafi fundist svo fljótt, heldur ekki síður í ljósi þess sem gerðist eftir að hann hafði verið hífður upp í þyrluna.

Stuttu eftir að þyrlan lagði af stað af slysstað fór hann í hjartastopp, af ástæðum sem rekja má til mikillar ofkælingar og innvortis blæðinga. Líkamshiti hans mun að líkindum hafa verið kominn niður fyrir 25 gráður. Hann var því hnoðaður í hálfa klukkustund í þyrlunni – og hálfa þriðju klukkustund eftir að hann komst undir læknishendur.

Það staðfestir Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir, sem tók á móti Daniel þegar þyrla Landhelgisgæslunnar lenti með hann við bráðamóttökuna í Fossvogi. Fréttablaðið hafði frumkvæði að því að Daniel og Sierra veittu Tómasi leyfi til að segja frá einstaklega flókinni lífsbjargarmeðferð sem Daniel gekkst undir á næstu dögum og urðu þau góðfúslega við því.

„Þetta tilfelli er með flóknari fjöláverkatilfellum sem meðhöndluð hafa verið á Íslandi,“ rifjar Tómas upp og bætir því við að ótrúlegt megi heita að sjúklingurinn hafi lifað af svo mikinn áverka og ofkælingu.


„Þetta tilfelli er með flóknari fjöláverkatilfellum sem meðhöndluð hafa verið á Íslandi."

Tómas


Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnalæknir, ásamt Ingu Láru Ingvarsdóttur, doktorsnema við ECMO-tækið sem bjargaði lífi Daniels Hund.

„Í stuttu máli þá hryggbrotnaði hann við fallið þannig að hryggurinn fór alveg í sundur um miðbikið og olli áverka á mænuna, lömun fyrir neðan mitti, en ósæðin hélt, sem betur fer, því ella hefði hann ekki lifað áverkann af,“ segir Tómas.

„Hryggáverkanum fylgdu þó miklar innvortis blæðingar, aðallega í brjóstholi, en einnig í heila og kviðarholi.“

Tómas segir að það hafi skipt sköpum fyrir lífsbjörgunina að Daniel komst í færanlegt ECMO-tæki í Fossvogi, sem er hjarta- og lungnavél sem getur stutt við bæði þessi lífsnauðsynlegu líffæri svo vikum skiptir þegar þau bila alvarlega.

Daniel hafi svo verið fluttur með ECMO-dælunni með sérútbúnum flutningabíl yfir á Landspítalann við Hringbraut og lagður þar inn á gjörgæsludeildina þar sem sjúklingum er sinnt eftir opnar hjarta­aðgerðir. Þar hafi hann verið hitaður hægt og rólega upp um hálfa aðra til tvær gráður á klukkustund – og hjartað svo stuðað aftur í takt þegar hann hitnaði í 28 gráður.

Hjartað skyndilega í gang


„Hjartað var nokkra daga að taka við sér eftir hnoðið og dróst sáralítið saman fyrstu dagana,“ segir Tómas, „en hrökk svo skyndilega í gang á fjórða sólarhring,“ bætir hann við. Lungun hafi einnig jafnað sig það vel að hægt hafi verið að taka Daniel úr ECMO-dælunni og halda áfram meðferð hans í öndunarvél, svo og nýrnavél, vegna bágs ástands nýrnanna.„Hjartað var nokkra daga að taka við sér eftir hnoðið og dróst sáralítið saman fyrstu dagana."

Tómas


En meðferðin varð áfram óhemju flókin eftir því sem lífsbjörginni vatt fram.

„Það þurfti að opna vöðvahólf á báðum ganglimum og á hægri handlegg vegna bjúgs sem kom eftir mikla útlimaáverka þegar hann lenti í urðinni, svo og vegna kælingar,“ útskýrir Tómas, en afleiðingin var ekki umflúin, það komst drep í báða fótleggina. „Það varð því að aflima báða fætur, en hægri hönd bjargaðist, líkt og sú vinstri,“ bætir Tómas við.

Hryggurinn hafi svo verið spengdur og sjúklingurinn fluttur í öndunarvél um borð í flugvél til Bandaríkjanna til frekari meðferðar og endurhæfingar, tæplega fjórum vikum eftir innlögn á Landspítala.

Tómas er ekki í nokkrum vafa um að meðferðin sem beitt var í hjarta- og lungnavélinni í þessu tilviki hafi bjargað lífi Daniels. Verkefnið hafi þó verið óhemju flókið vegna mikilla áverka og innri blæðinga.

„En líkamskælingin á slysstað var þó jákvæð að því leyti að heilaskaði varð minni þrátt fyrir nokkurra klukkustunda hnoð,“ segir Tómas og minnir á að við 37 gráðu líkamshita verði óafturkræfur heilaskaði eftir fjórar mínútur.

Hann vekur líka athygli á því að aðeins einn sjúklingur á Íslandi hafi verið meðhöndlaður með lægri líkamshita í umræddri vél, en frá 1991 hafa yfir fimmtíu sjúklingar verið meðhöndlaðir hér á landi með ECMO-dælu.


„En líkamskælingin á slysstað var þó jákvæð að því leyti að heilaskaði varð minni þrátt fyrir nokkurra klukkustunda hnoð."

Tómas


Heilbrigðisstarfsfólk Landspítala sé stolt af því að kunna hér til verka. Landspítali sé ein minnsta ECMO-miðstöð í heimi en geti engu að síður boðið upp á jafn flókna meðferð í ekki stærra landi. Þar vegi þyngst að teymið sem komi að meðferðinni hafi fengið þjálfun í henni á stærstu sjúkrahúsum erlendis, þar sem tilfelli séu langtum fleiri en hér á landi.

„ECMO-meðferð er með flóknustu meðferðum sem beitt er á Landspítala og jafnframt sú dýrasta,“ útskýrir Tómas. „Tæplega helmingur sjúklinga lifir meðferðina af, sem gæti í fyrstu virst lítið, en er hátt hlutfall þegar haft er í huga að sjúklingarnir eru allir við dauðans dyr þegar gripið er til meðferðarinnar, en þetta er þeirra síðasta hálmstrá,“ bætir hann við.

Í þessu tilviki hafi miklu máli skipt hversu vel á sig sjúklingurinn var kominn, enda í afar góðri æfingu.

„Eins vó öflugur stuðningur fjölskyldu hans mjög þungt, ekki síst af hálfu eiginkonu hans, sem er hjúkrunarfræðingur. Án baráttuvilja þeirra hefði þetta aldrei gengið, enda mörg ljón á ójöfnum veginum,“ segir Tómas.


Þetta var bara hræðilegt


Sierra segist hafa verið í algeru áfalli þegar hún áttaði sig á alvarleika slyssins og afleiðingum þess fyrir eiginmann sinn. Í fyrstu hafi hún þó haldið í vonina um að ekki hefði svo illa farið, enda frétti hún af því að Daniel hefði getað talað þegar leitarmenn fundu hann.

En svo hafi allur sári veruleikinn blasað við þegar suður á spítalann var komið.

„Ég vissi ekki af því að hann væri að berjast fyrir lífi sínu fyrr en ég kom þangað,“ segir hún. „Þetta var bara hræðilegt. Ég var alveg slegin yfir þessu,“ bætir hún við.

Í sama streng tekur Daniel, en það hafi verið hrikalegt áfall fyrir hann þegar honum varð ljóst hvernig komið væri fyrir honum.

„Það tók mig þó nokkurn tíma að átta mig á þessu nýja hlutskipti mínu og hvaða afleiðingar aflimun, lömun og heilaskaði hefði fyrir mig,“ bætir hann við.


„Það tók mig þó nokkurn tíma að átta mig á þessu nýja hlutskipti mínu og hvaða afleiðingar aflimun, lömun og heilaskaði hefði fyrir mig."

Daniel


Daniel var í lögfræðinámi áður en hann hélt til Íslands, en það nám er í uppnámi eftir heilaskaða sem hann hlaut í slysinu og eftirmál þess. MYND/Aðsend

Sierra segir augljóst að fjöldamargar takmarkanir á venjubundnu lífi blasi við eiginmanni sínum, en endurhæfingin á síðustu mánuðum hefur gengið einstaklega vel – og auðvitað vonist þau bæði eftir því að Daniel endurheimti sem mest af líkamlegri og andlegri getu sinni á komandi árum og hann geti fyrir vikið orðið eins sjálfstæður í sínu daglega lífi og mögulegt er.

„Núna einbeiti ég mér einkum að því að læra að lesa upp á nýtt,“ segir Daniel, en heilaskaðinn af völdum slyssins varð mestur í lesstöð heilans. „Ég held bara í vonina um að ég muni endurheimta þann mikilvæga hæfileika að geta lesið,“ bætir hann við.


„Ég held bara í vonina um að ég muni endurheimta þann mikilvæga hæfileika að geta lesið."

Daniel


Að lokum vilja hjónin koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra sem komu þeim til bjargar á Íslandi, leitarmönnunum, björgunarteyminu, hjúkrunarfræðingunum og læknunum sem gerðu ekkert minna en kraftaverk.

„Þið sinntuð okkur öll af svo mikilli ástúð,“ segir Sierra og minnist þar sérstaklega á viljann til að gera sitt besta. „Við fengum einstaka umönnun,“ segir hún enn fremur, full þakklætis og biður fyrir kærar kveðjur til allra sem komu að málum.

En munu þau heimsækja Ísland aftur?

„Kannski. En fyrst verðum við að vinna úr öllum þeim tilfinningum sem rótað hafa upp hugum okkar frá því ógæfan reið yfir. En kannski seinna,“ segir Sierra Hund. n

Athugasemdir