Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW segist hafa fengið margvíslega hjálp eftir hann missti WOW í gjaldþrot. Hann geti rifjað upp margar sögur í því efni, en ein þeirra er honum hvað hjartfólgnust.

„Ég á svo mörgum það að þakka hvernig ég gat rifið mig aftur í gang, svo sem Valda í Hjólakrafti sem kunnur er fyrir að koma krökkum sem eiga erfitt upp á reiðskjóta og þaðan út í náttúruna. Hann skipaði mér að taka rúntinn með þeim. Og allt í einu sat ég með þessum krökkum í rútu á hringveginum á meðan við skiptumst á að hjóla og deildi með þeim svefnaðstöðu og matarborði, krökkum sem höfðu lent í allskonar mótlæti í æsku – og þarna áttaði ég mig á því að ég ætti síðastur manna að væla.“

„Hér sameinast það alþjóðlega og staðbundna í einum punkti. Og hér sjáum við stóru breytinguna. Fyrir tíu árum var kallað eftir fleiri álverum. Núna er kallað eftir meiri náttúruvernd. Og Ísland skorar þar hæst allra þjóða á norðurslóðum með öllu sínu ósnortna víðerni, hreinu vatni og lofti – og öryggi,“ segir Skúli, minnugur þess hvað ferðamaðurinn vill. „Hingað mun New York-búinn koma sem aldrei hefur komið við mold eða séð lifandi fisk.“