Allt frá því ég var ung hef ég haft þetta þakklæti fyrir fegurð og ferðalög og frelsi hentar mér vel,“ segir Gulla.
„Los Angeles er alþjóðleg borg, og hér hef ég eignast stóra fjölskyldu af fallegum vinum og viðskiptavinum og þegar ég ferðast út um allan heim eignast ég enn fleiri vini svo ég er vinarík alls staðar og það myndast sterk vinasambönd við hvert verkefni,“ segir hún.
„Ég er að njóta lífsins algjörlega til fulls og mér finnst þægilegt að vera frjáls, ég er ævintýragjörn, elska að ferðast um heiminn og gera nýja hluti,“ segir Gulla.
Svo þú getur horft stolt og ánægð á það sem þú hefur áorkað og skilið eftir þig?
„Já, ég er ánægð, en mér finnst ég alltaf vera að byrja og mig langar alltaf að gera meira,“ segir Gulla. „Hvert og eitt verkefni er sérstætt og það eru ákveðnir töfrar sem fæðast í hverju verkefni fyrir sig, og það er það sem hvetur mig,“ segir hún.
„Ég lifi og hrærist í vinnunni, er alltaf með hugann við vinnuna og alltaf að fá nýjar hugmyndir en ég er samt líka góð í því að stoppa, slaka á, fara í spa, út að borða, fer mikið á listasöfn og gallerí og tónleika og dansa við hvert tækifæri.“
Spurð að því hvort hún hugi sérstaklega að því að halda sér á jörðinni þrátt fyrir mikla velgengni segist Gulla hreyfa sig, stunda göngur og jóga. „Ég ákvað að segja já við lífinu, segja já við tækifærum og láta óttann ekki stoppa mig. Það hefur gefið mér mörg tækifæri og ég hef fengið að kynnast svo mikið af fólki, fallegum stöðum og fengið að vinna við það sem mér finnst skemmtilegt,“ segir hún.
„Ég held að ég sé þannig að eðlisfari að mér finnst montið fólk bara leiðinlegt. Þetta er bara vinnan mín, mín ástríða og ég spái ekkert öðruvísi í þetta. Mér finnst ég alltaf geta gert betur og ég er krítísk á sjálfa mig. Ég er með báða fætur á jörðinni og lít á lífið sem gjöf og ævintýri,“ segir Gulla að lokum.