Mynd­band af Helga Hrafni Gunnars­syni, þing­manni Pírata að hlaupa úr pontu meðan jarð­skjálftinn reið yfir í dag hefur vakið mikla athygli meðal landsmanna. Jarðskjáfltinn sem reið yfir höfuðborgarsvæðið í dag var 5,5 að stærð fannst vel á Alþingi.

Helgi Hrafn segist léttur á brún ekki skilja af hverju allir eða gera grín af honum þar sem hann var bara að fylgja því sem honum hefði verið kennt í æsku.

„Ég ætlaði að gera þar sem mér var kennt í æsku og það er að hlaupa undir hurða­karminn,“ segir Helgi Hrafn og hlær.

„Í Suður­lands­skjálftanum árið 2000 þá gerði ég þetta líka og hljóp undir hurða­karminn og það sama gerðist að allir vinir mínir bara hlógu að mér. Ég stóð bara og vissi ekki hvort ég hefði fengið rangar upp­lýsingar,“ segir Helgi sem áttar sig ekkert á þessu.

Hann segir að jarð­skjálftinn hafi fundist vel á Al­þingi og nötraði þing­salurinn.

„Þú getur rétt í­myndað þér í þessum risa­stóra sal, allur úr tré með þessar risa­stóru ljósa­krónur.“

Skammaður fyrir að bjarga ekki „gamal­menninu“

Helgi Hrafn segist hafa skemmt sér yfir við­brögðunum á netinu í dag.

„Það vildu margir meina að ræða mín hafi bein­línis valdið jarð­skjálftanum. Svo var einn á Twitter sem að hafði við það að at­huga að ég hefði ekki bjargað „gamal­menninu,““ segir Helgi og hlær en þar er átt við Stein­grím J. Sig­fús­son, for­seta Al­þingis, sem var hinn ró­legasti á meðan skjálftinn reið yfir.

„Það er svo­lítið fyndið því að Stein­grímur J. er kannski ekki ein­hver sem ég þarf að bjarga. Maðurinn hleypur upp á Esjuna að gamni sínu og hefur gert það mörg hundruðum sinnum,“ segir Helgi og hlær.

„Átti ég að stökkva upp og rífa Stein­grím J úr for­seta­stól og bera hann út,“ segir Helgi léttur. „Ég sé nú ekki á mynd­bandinu að hann þurfti mikla hjálp,“ segir Helgi og bætir við að lokum að allir séu heilir á Alþingi eftir skjálftann.