Einar Bárðason ræðir um líf sitt og ferilinn í einlægu viðtali við Helgarblað Fréttablaðsins sem kemur út á morgun.
Hann fagnar því um þessar mundir að 25 ár eru liðin frá því að hans vinsælasta lag, Farin, kom út. Fyrir nokkrum árum hætti Einar að drekka og nýtur nú lífsins.
Um síðustu aldamót var Skítamórall á toppi ferilsins og lög Einars ómuðu víða. Farin, Spenntur, Myndir og fleiri lög voru á toppnum og sveitballamenningin á Íslandi var mikil. Spurður að því hvort hann hafi lifað rokkstjörnulífsstíl um aldamótin segir Einar svo ekki vera, hann hafi alltaf verið í vinnunni frá níu til fimm.
„En ég held að menn hafi nú prófað ýmislegt og svo annað hvort ílengjast menn í því eða ekki,“ segir hann og bætir við að hann hafi aldrei hafa verið mikill djammari sjálfur. „Eiginlega svo lítill að ég tók þá ákvörðun fyrir sjálfan mig fyrir nokkrum árum að hætta að alveg drekka. Þetta gerði ég með bætta heilsu að leiðarljósi og og vildi undirbúa mig fyrir það að verða miðaldra,“ segir Einar.
„Ég ætlaði bara að hætta í eitt ár og var aðeins að fikta við edrú lífsstílinn og svo fannst mér þetta bara svo fínt og leið miklu betur svo ég er enn hættur,“ bætir hann við.
„Við hjónin förum sjaldan út að skemmta okkur. Við erum mjög heima- og fjölskyldukær þegar öllu er á botninn hvolft og þetta er í rauninni búið að vera miklu minna mál en ég hélt. Ég hélt að ég mynd léttast við það að hætta að drekka en svo var ég alltaf að verðlauna mig með allskonar öðru svo það gekk ekki vel. Þegar maður er kominn á þennan aldur þá þarf maður bara að fara að velja gáfulegri hluti í mataræði,“ segir hann en Einar verður 51 árs í næstu viku.
