Jafnréttismálin voru rædd í kappræðum formanna stjórnmálaflokkanna á Stöð 2 í kvöld og sakaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, ríkisstjórnina um að hafa ekki gert nóg í jafnréttismálum.
Heimir Már Pétursson, fjölmiðlamaður, stýrði kappræðunum og spurði hann Þorgerði hvort það kæmi til greina að setjast niður og ræða mögulegt ríkisstjórnarsamstarf með ríkisstjórnarflokkunum þremur eftir kosningar.
Þorgerður sagði Viðreisn ekki útiloka neinn en sagði að flokkurinn myndi ekki gefa eftir málefnalega. Hún leiddi síðan umræðuna yfir í jafnréttismál og sagði það þyrfti alltaf að vera á borðinu þegar til það kæmi að mögulegu stjórnarsamstarfi.
Hún sakaði síðan ríkisstjórnina um að hafa ekki gert nóg til að bæta kjör kvennastétta. Sagði ríkisstjórnina hafa frestað jafnlaunavottuninni og sagði Framsókn og Sjálfstæðisflokksins vera skila auðu í málefnum hinsegin fólks.
Heimir Már færði boltann yfir til Katrínar Jakobsdóttur, formanni Vinstri-grænna í framhaldinu af orðum Þogerðar og sagði: „Hér er forsætisráðherra sem lagði fram helling á málum einmitt í þessum málaflokkum og ég efast um að hún sé sammála þessari lýsingu?“ sagði Heimir.
Katrín svaraði um hæl „enda er þetta röng lýsing.“
„Við getum tekið hinsegin málin. Hér urðu gríðarlegar framfarir vegna þeirra mála sem ég sjálf lagði fram um kynrænt sjálfræði og réttindi trans og intersex barna. Þetta er mál sem við VG settum á stefnuskrá og ég man ekki eftir að neitt hafi gerst í þessum málum siðan VG var síðast í ríkisstjórn,“ sagði Katrín.
„Við fórum í það að endurskoða jafnréttislögin og bæta þar úr. Launamunur kynjanna hefur minnkað í tíð þessarar ríkisstjórnar,“ sagði Katrín og benti einnig á að forsætisráðuneytið hafi innleitt jafnlaunavottun.
„Vegna þess ég er ekki þar að ég fordæmi það sem frá öðrum kemur. Þannig ég hef tekið að mér að innleiða jafnlaunavottunina sem Þorgerður og hennar félagar í Viðreisn höfðu frumkvæði af og það hefur gengið vel,“ sagði Katrín.
„Þorgerður ætti að vita það líka að núna eru til kynninga tillögur mínar u það hvernig við getum ráðist í það verkefni að leiðrétta kjör kvennastétta,“ hélt Katrín áfram og reyndi Þorgerður að grípa fram í þegar Katrín svaraði henni „Nei nú ætla ég að klára.“
Katrín nefndi sem dæmi breytingar á þungunarrofslöggjöfinni en henni hafði ekki verið breytt í 44 ár. „Löggjöf sem snýr að því að styrkja sjálfsákvörðunarrétt kvenna og hver tók það mál fram. Það var Vinstri græn,“ sagði Katrín og Þorgerður tók undir með henni og sagði vera ánægð með VG þar.
„Þess vegna ætla ég ekki að láta einhvern hér inni hvorki hana Þorgerði mína kæru vinkonu eða nokkurn annan segja að ég standi ekki vaktina í jafnréttismálum því það er bara rangt,“ sagði Katrín að lokum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, tók síðan orðið og kom því á framfæri að Framsókn hafði barist fyrir jafnréttismálum, mannréttindamálum og réttindum hinsegin fólks frá því áður en Viðreisn var til. „Og við stöndum þar enn,“ sagði Sigurður Ingi.