„Þetta er ein svívirðilegasta aðgerð sem ég hef orðið vitni að, þó þær séu nú orðnar margar,“ segir Sema Erla Serdar formaður Solaris sem fylgdist í kvöld með lögreglunni handtaka fimm manna írakska fjölskyldu sem verður vísað úr landi.
Fréttablaðið greindi frá því í kvöld að lögreglan hefði handtekið fjölskylduna í dag, meðal annars tvær ungar konur þar sem þær voru á leið úr skólanum. Um er að ræða Maysoon Al Saedi og börn hennar Zahraa Hussein, Yasamein Hussein, Hussein Hussein og Sajjad Hussein.
Sema Erla segist vera í áfalli eftir að hafa fylgst með aðgerð lögreglu. Sema birti myndbönd af aðgerðinni á Instagram síðu sinni og segist hafa haft mannréttindabrot í beinni.
Hún segir ekkert skýra tímasetningu brottrekstursins annað en að það hafi legið á að koma fjölskyldunni af landi brott áður en aðalmeðferð í máli hennar er tekin fyrir þann 18. nóvember næstkomandi.
„Það er ekkert annað sem skýrir þetta. Lögreglan mætir fyrirvaralaust heim til fólksins, handtekur einn fjölskyldumeðlim og færir í gæsluvarðhald og heldur öðrum bara í gíslingu á heimilinu og þeim tilkynnt að þeim verði brottvísað í nótt,“ segir Sema.
„Þetta er svo ótrúlegt einmitt í ljósi þess að fjölskyldan hefur farið í mál við íslenska ríkið, þannig það er bara fyrst og fremst verið að flytja þau úr landi áður en kemur að aðalmeðferð í málinu svo að þau og Hussein sérstaklega séu ekki á staðnum til þess að segja sína frásögn. Þannig það er bókstaflega verið að reyna að eyðileggja dómsmálið og ríkið að verja ríkið með þessu framferði.“
Sema segir að sér þyki sú meðferð á fólkinu sem hún hafi fylgst með í kvöld viðbjóðsleg. „Við horfðum upp á þetta í kvöld og ég er bara í sjokki. Ég á varla til orð yfir það sem ég var að horfa upp á.“
Sjö lögreglubílar mættir
„Við erum að tala um fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu, við erum að tala um mann í hjólastól sem var illa reynt að drösla inn í bíl af þremur einstaklingum sem greinilega kunnu ekkert,“ segir Sema.
„Svo er fjölskyldunni skipt upp og sett eitt og eitt inn í bíl, ég veit ekki hvar ég á að byrja enda taldi ég eitthvað um tuttugu lögreglumenn og sjö lögreglubíla þegar mest var.“
Sema segir að miðað við sínar upplýsingar sé fjölskyldan komin upp á flugvöll. „Móðir þeirra er orðin mjög veik og þau eru að kalla eftir læknisþjónustu fyrir hana en er neitað um að hitta lækni.“
Málinu ekki lokið
Aðspurð hvort eða hvað sé í stöðunni þegar málunum er svo háttað segist Sema óviss um að hægt verði að stöðva þessa brottvísun.
„Þessu máli er ekki lokið. Þau eru með góða lögfræðinga sem munu taka þetta mál alla leið og að öllum líkindum mun það enda fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Þetta er brot á mannréttindasáttmálanum, sáttmála um réttindi fatlaðs fólks og svo er þetta bara ómanneskjuleg og ógeðfelld meðferð á fólki. Þessu lýkur ekkert hér, það er alveg á hreinu.“