Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, viðurkennir að hann hefði ekki haft neitt á móti því að taka við hlutverki dómsmálaráðherra, þegar sú staða losnaði óvænt í fyrradag. Hann segist þó skilja þá ákvörðun Bjarna að setja Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur yfir málaflokkinn í fjarveru Sigríðar Á Andersen, sem steig frá borði tímabundið.

Sigríður hætti sem ráðherra „í nokkrar vikur“ í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu vegna skipunar í Landsrétt. Brynjar segir frá því í færslu á Facebook að „góður maður og velviljaður“ maður hafi í gær sagt honum að þeir sem ætluðu sér frama í stjórnmálum, ættu ekki að slá á létta strengi á netinu. Aldrei væri tekið mark á slíkum mönnum. „Sérstaklega er það mikilvægt þegar þeir eru hvorki fyndnir né skemmtilegir. Betra væri að skrifa, eins og Styrmir Gunnarsson, um spillingu annarra og hvernig við eigum að breyta þessu ömurlega samfélagi okkar,“ skrifar hann.

Brynjar segir í færslunni að hann ætli að taka þetta til sín og skrifa „nokkra langa og ólæsilega pistla um stjórnmál næstu vikurnar og munu fylgja myndir af ömmu minni heitinni, sem mun aldrei hafa brosað svo vitað sé til.“

Í samtali við Fréttablaðið segist Brynjar hafa metnað til að verða ráðherra. Honum finnist hann vel til þess fallinn, í ljósi menntunar sinnar og fyrri starfa, að fara með dómsmálin. Spurður hvort hann sé fúll yfir að hafa ekki fengið tækifærið nú svara hann: Nei, nei. Ég á enga kröfu eða rétt á einu eða neinu. Ég skil þessa ákvörðun í gær. Það var ekki hægt að skipa einhvern nýjan inn í þessar ríkisstjórn í gær. Þetta var tímabundin ráðstöfun. Ég er ekkert súr yfir því.“

Á honum má heyra að það kitlar hann að taka sæti í ríkisstjórn. „Að sjálfsögðu gerir það það. Sérstaklega þegar svona ráðuneyti er í okkar höndum. Ég tel mig, vegna reynslu og þekkingar, geta látið gott af mér leiða þarna og hlýt því að sækjast eftir því. Annars væri ég alger lurða.“