Í tæpan áratug hefur Guðmundur Sölvi verið í ferli hjá tannréttingalækni, kjálkaskurðlækni og lýtalækni og hafa Sjúkratryggingar Íslands árlega sent Guðmundi Sölva boðun í endurmat, þrátt fyrir að staða Guðmunda Sölva hafi ekkert breyst.

Ragnheiður og Guðmundur Sölvi funduðu með Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra í gær vegna málsins. Mæðginin ræddu málið í Fréttavaktinni á Hringbraut miðvikudaginn 8. mars 2023.

Aðspurð segir Ragnheiður enga niðurstöðu hafa komið fram á fundinum.

„Ekki beint varðandi okkar stöðu, en hann hlustaði og fór yfir málin með sínu fólki. Við vorum úr stjórn Breiðra brosa, ásamt lögfræðingi Umhyggju. Hann fór yfir stöðuna, hvernig þetta er búið að vera og ætlaði að kynna sér málið betur og hafa svo aftur samband.“

Læknar í biðstöðu

Ragnheiður segir svörin ekki hafa verið á þá leið sem hún vonaðist eftir. Væntingar hennar undanfarin ár hafi verið á þá leið að hver slagur verði síðasti slagurinn, og núna verði hlustað.

Læknar sem koma að máli Guðmundar Sölva eru í biðstöðu um þessar mundir. „Þeir verða bara að bíða, nema við lendum í því að borga okkar brúsa,“ segir hún.

Síðast fór Guðmundur Sólvi í endurmat árið 2020, þá nýkominn úr aðgerð. „Hann er núna aftur boðaður í endurmat og hann er í miðri meðferð. Þegar þessari reglugerð er breytt er talað um að hann þurfi ekki að vera í endurmati nema bara einu sinni,“ segir hún. „Núna er þetta eitthvað nýtt.“

Tannréttingasérfræðingurinn sem unnið hefur að málinu hefur fengið 24 milljóna króna endurgreiðslukröfu frá Sjúkratryggingum Íslands vegna skjólstæðinga sem fæddir eru með skarð, ásamt fleirum. „ Já, það er stór fjárhæð. Okkar mál er inni í þessari tölu,“ segir Ragnheiður.

„Við verðum bara að bíða og sjá og vonandi að það verði hlustað á okkur núna.“

Skrýtið að vera barn í þessari stöðu

Aðspurður segir Guðmundur Sölvi stöðuna vera skrýtna. Sömuleiðis sé bæði skrýtið og leitt að þurfa að koma opinberlega fram í baráttunni.

Ragnheiður bætir við. „Við höfum gert þetta allt í sameiningu og ég hefði ekki getað gert þetta nema með hans aðstoð. Hann hjálpar mér í upphafi að opna málið, þegar ég pósta þessu upphaflega. Frá upphafi er hann með í hlutunum, bara jákvæðni punktur is,“ segir hún.

„Það er slatti eftir. Núna er verið að reyna að færa til tennur og á meðan erum við bara að bíða. Það koma niður skakkar augntennur og það þarf að fjarlægja framtönn. Tannréttingar hjá honum eru ekki það sama og venjulegar tannréttingar, þetta er allt annað.“

Ragnheiður segir að heilbrigðiskerfið hefði mátt gera betur í málunum. „Horfa á hvað þeir eru að segja og hvað þeir skrá niður sem fæðingargalla og annað. Í stað þess að við þurfum endalaust að berjast fyrir réttindum okkar barna. Nú er vonandi kominn lokahnykkurinn á að það sé hlustað og skoðaðar þessar reglugerðir. Ég á ekki að þurfa að berjast fyrir öllu fyrir barnið.“

Varðandi næstu skref segir Ragnheiður.

„Að hann komist að lokaniðurstöðu og þetta verði unnið í sameiningu. Við erum sérfræðingar að okkar börnum og veljum okkar sérfræðinga út frá því og hverjum við treystum. Þau verða að treysta okkur líka.“

Rætt var við Ragnheiði og Guðmund Sölva í Fréttavaktinni á Hringbraut þann 9. mars 2023. Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að neðan.