Myndefni úr tölvuleiknum The Last of Us Part II var lekið á YouTube í byrjun vikunnar. Beðið hefur verið eftir leiknum í að verða sex ár. Leikurinn er framhald af The Last of Us sem kom út árið 2013 og vann til margra verðlauna og er á mörgum topplistum yfir bestu leiki síðustu ára.

Í myndefninu má meðal annars sjá nokkur dæmi um hvernig leikurinn spilast en einnig er sýnt frá mikilvægum sögupunktum. Endi leiksins er sýndur í myndefninu. Leikurinn kemur út 19. júní og hefur verið seinkað tvisvar á framleiðsluferlinu. Það er því mikil eftirvænting hjá tölvuleikjaunnendum.

Samkvæmt umfjöllun Newsweek var það ósáttur starfsmaður framleiðslufyrirtækisins Naughty Dog sem lak myndefninu. Í kóða myndefnisins sést að það er frá prófunarferli í febrúar og mars sem einungis er aðgengilegt starfsmönnum.

Framleiðendur leiksins gáfu út yfirlýsingu á Twitter þar sem þeir lýstu yfir vonbrigðum. „Gerið ykkar besta til að forðast spilla og við biðjum að þið eyðileggið ekki fyrir öðrum. Leikurinn kemur til ykkar bráðlega. Það skiptir ekki máli hvað þið heyrið eða sjáið, loka upplifunin verður þess virði.“

Fyrri leikurinn kom út árið 2013 og fékk góðar viðtökur. Helst var hrósað sögunni sem gerist eftir heimsendi af völdum uppvakningaplágu. Þeir eru þó ekki eina ógnin, söguhetjurnar þurfa einnig að berjast gegn mannfólki sem svífist einskis.