Tim Cook hefur nú stýrt Apple í ellefu ár. Hann var útnefndur eftirmaður Steve Jobs síðsumars 2011, er sá síðarnefndi háði sitt dauðastríð, en Jobs lést af völdum krabbameins í brisi 5. október það ár.

Tim Cook hóf störf hjá Apple árið 1998, en áður starfaði hann hjá tölvufyrirtækinu Compaq. Seinna lýsti hann þessu svo: „Ég hlustaði á hjartað þennan dag snemma árs 1998, en ekki vinstra heilahvelið eða einu sinni fólkið sem þekkti mig best … það voru ekki liðnar fimm mínútur af viðtalinu við Steve [Jobs] þegar mig langaði bara að láta vaða og fara til Apple.“

Hjá Apple gegndi Cook til að byrja með ýmsum stjórnunarstöðum og stuðlaði meðal annars að margra milljóna dala sparnaði, með því að endurskipuleggja verksmiðjur og vöruhús félagsins. Hann gerði líka langtímasamninga við framleiðendur leifturminniskubba og tryggði nauðsynlega íhluti fyrir iPod og síðar iPhone og iPad.

Jobs barðist við briskrabbamein og hafði betur, en meinið kom aftur og þegar heilsu hans tók að hraka verulega valdi hann Cook sem eftirmann sinn og tók Cook við starfinu 25. ágúst 2011. Jobs dó sex vikum síðar, 5. október.

Frá því að Cook tók við keflinu af Jobs hefur vöxtur Apple verið hraður og vaxandi. Gagnrýnendur hans segja hins vegar að mjög skorti á þá nýsköpun sem einkenndi Apple undir Steve Jobs.

Þeir neikvæðustu fárast yfir því að árlegar kynningar Apple á nýjum vörum séu nú lítið meira en kynningar á uppfærslum á eldri tækni, ólíkt því sem var á tíma Jobs þegar tekin var gríðarleg áhætta og kynntar til leiks vörur sem breyttu heiminum, á borð við iPod, iMac, iPhone og iPad.

Fjárfestar hlæja hins vegar alla leiðina í bankann. Tekjur Apple á fjárhagsárinu 2021 námu meira en milljarði Bandaríkjadala á hverjum einasta degi ársins. Í síðasta mánuði kynnti Apple iPhone 14 og Apple Watch 8, auk iOS 16 stýrikerfisins fyrir snjalltæki og watchOS 9 stýrikerfisins fyrir úrin.

Áfangar í sögu Apple

 • 1. apríl 1976 Apple lítur dagsins ljós.
 • Janúar 1984 Macintosh-tölvan kynnt.
 • 1985 Steve Jobs bolað út úr Apple.
 • Júlí 1997 Steve Jobs snýr aftur sem forstjóri.
 • Ágúst 1998 iMac kynntur.
 • Jan. og okt.2001 iTunes og iPod.
 • Mars 2001 OS X.
 • Janúar 2007 iPhone og Apple TV.
 • Apríl 2010 iPad.
 • Ágúst 2011 Tim Cook verður forstjóri.
 • September 2014 iPhone 6 og Apple Watch.
 • September 2016 Nýir AirPods.
 • September 2017 iPhone X.
 • Ágúst 2018 Apple verður verðmætasta fyrirtæki sögunnar.
 • Mars 2019 Apple beinir sjónum að sölu á þjónustu.
 • Mars 2019 Apple-kreditkort.