Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af manni í miðbænum í gærkvöldi en um var að ræða mann sem var eftirlýstur af lögreglu. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu
Ekki kemur fram í tilkynningu lögreglu fyrir hvað maðurinn var eftirlýstur en greint er frá því að hann er einnig grunaður um vörslu fíkniefna. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.
Þá brást lögregla við tilkynningu um mann í annarlegu ástandi sem var með vandræði í miðbænum korteri síðar. Hann var handtekinn og vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.
Ökumenn stöðvaðir
Meðal annarra verkefna lögreglu voru slys og umferðarlagabrot en lögregla hafði afskipti af nokkrum ökumönnum, ýmist vegna aksturs án gildra ökuréttinda, skort á tryggingum bíls, eða að bíll var með röng skráningarnúmer.
Tveir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna en í einu tilfelli var ökumaðurinn með börn í bílnum og er málið því unnið í samstarfi við Barnavernd.
Braut rúðu í lögreglubíl
Í hinu tilfellinu var um að ræða ökumann sem er einnig grunaður um ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum, vörslu fíkniefna, og eignaspjöll, en hann hafði brotið rúðu í lögreglubíl.
Ökumaðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins. Farþegi sem var í bílnum var einnig handtekinn vegna gruns um vörslu fíkniefna.