Brotist var inn á frístundaheimili í hverfi 104 og tilkynnt um það til lögreglu stuttu fyrir klukkan átta. Þetta kom fram í tilkynningu úr dagbók lögreglu sem send var á fjölmiðla í dag. Gluggi hafði verið spenntur upp og þar farið inn. Engu hafði verið stolið en töluverðar skemmdir höfðu verið unnar þar inni.

Á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um tvær líkamsárásir í hverfi 101. Hin fyrri var tilkynnt rúmlega kortér yfir tíu og var árásaraðilinn handtekinn og færður á lögreglustöð. Honum var sleppt eftir skýrslutöku og árásarþolanum, sem hafði minni háttar áverka, voru kynnt kæruferli.

Seinni árásin var tilkynnt klukkan níu mínútur í þrjú. Var árásaraðilinn handtekinn og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins. Árásarþoli var með áverka í andliti og á háls en ætlaði sjálfur að leita sér aðstoðar á bráðadeild.

Eftirlýstur maður var handtekinn í hverfi 110 stuttu fyrir klukkan eitt í dag þegar hann réðst á annan mann. Við handtöku mannsins kom í ljós að hann var eftirlýstur hjá lögreglunni í öðru máli. Hann var því vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknarinnar en árásarþolinn hugðist sjálfur leita sér aðstoðar á bráðadeild.