Lög­reglan á Spáni hefur hand­tekið breska konu sem hefur verið dæmd fyrir peninga­þvott vegna sölu á far­símum samkvæmt frétt spænska miðilsins El Pais. Konan, sem er 47 ára og þekkt sem S.P. stundaði það á­samt 16 manna hópi að kaupa síma að er­lends frá til þess að forðast að greiða sölu­skatt af þeim, áður en þeir voru endur­seldir í Bret­landi með miklum hagnaði. Hún verður í gæslu­varð­haldi á Spáni þangað til hún verður fram­seld til Bret­lands.

S.P. sem hafði verið kölluð „Eftir­lýstasta kona Bret­lands“ sá um peninga­þvott af á­góðanum í gegnum fyrir­tæki á Spáni, Andorra og Dubaí og er talið að hópurinn hafi tekið inn um einn milljarð breskra punda, eða um 173 milljarða ís­lenskra króna.

Dóms­mál yfir hópnum fór fram 2013, en konunni tókst að flýja Bret­land áður en hún var dæmd í 8 ára fangelsi. Hún hélt sig í felum í Oli­vella, sem er hérað í Barcelona og heim­sótti eigin­maður hennar hana um helgar, þar sem hann kom með nauð­synja­vörur handa henni. Hún hafði forðast hand­töku af yfir­völdum á Spáni áður en hún var loks tekin höndum þegar hún var á göngu með hundunum sínum þann 27. febrúar í Tarragona héraði.