Brýnt er að koma í veg fyrir vanvirðandi meðferð einstaklinga sem færðir eru til skýrslutöku hjá lögreglu eða dómara. Huga þarf meðal annars að klæðaburði viðkomandi og að hann sé hvorki niðurlægjandi né ekki til staðar.

Þetta kemur fram í erindi til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá nefnd um eftirlit með lögreglu. Tilefnið er kvörtun til nefndarinnar frá Hjalta Árnasyni, föður Árna Gils Hjaltasonar, sem sýknaður var af tilraun til manndráps í Landsrétti eftir að mál hans hafði tvívegis verið dæmt í héraði.

Faðir Árna kvartaði undan því að hann hefði verið yfirheyrður á nærfötunum einum fata. Í niðurstöðum nefndarinnar segir að myndbandsupptaka sýni að hann hafi verið í slopp í yfirheyrslu. Í erindi nefndarinnar segir að í engu tilviki eigi sakborningur að sæta því að sitja í skýrslutöku eða vera færður fyrir dóm án þess að vera klæddur með fullnægjandi hætti.

Afrit af bréfi nefndarinnar var einnig sent til OPCAT-eftirlits Umboðsmanns Alþingis, sem fylgist með réttindum frelsissviptra.