Kveikt var á eftirlitsmyndavélum í stofum þar sem keppendur á ReyCup gista í Laugardalshöll. Móðir fimmtán ára stúlku sem keppir á mótinu segir að dóttur sín hafi ekki vitað af myndavélunum og þær hafi oft verið fáklæddar eða naktar þegar þær skiptu um föt í stofunum.

Samkvæmt upplýsingum frá móður stúlkunnar fór þeim að gruna að kveikt væri á myndavél í stofunni, dóttir hennar og tveir aðrir keppendur hafi farið inn á svæði sem aðeins sé ætlað starfsmönnum og séð stofuna sína á tölvuskjá.

Myndin er tekin af stúlkum sm fóru að rannsaka málið. Á skjánum stendur að slökkva eigi á þeim á kvöldin.

Gunnhildur Ásmundsdóttir, framkvæmdarstjóri ReyCup vildi ekki svara spurningum um málið að svo stöddu.

„Þetta mál er í skoðun og ég get ekki tjáð mig um það fyrr en seinna í dag, segir Gunnhildur.

ReyCup er stærsta knattspyrnumót landsins fyrir unglinga á aldrinum 13 – 16 ára, bæði drengir og stúlkur keppa á mótinu. Keppnendur gista í sjö skólum í Reykjavík auk Laugardalshallar, aðeins stúlkur gista í Laugardalshöll. Mótið hófst síðastliðinn miðvikudag og lýkur í dag, samkvæmt dagskrá á frágangi gistirýmis að vera lokið kl. 13 í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá foreldrum hefur mótstjóri boðað fund með fulltrúum þess liðs sem svaf í umræddum svefnplássum, eftir síðasta leik mótsins. Unnið hafi verið í málinu í allan morgun.