Tæplega 90 prósent leiksvæða á Norðurlandi eystra hlutu aðalskoðun í fyrra að sögn Umhverfisstofnunar. Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær hefur slík skoðun aðeins farið fram á leiksvæðum í Reykjavík í undantekningartilfellum síðan 2013.

Aðalskoðun leiksvæða á að gera á minnst á tólf mánaða fresti samkvæmt reglugerð.

Tölur um fjölda leiksvæða sem hlutu aðalskoðun árið 2020 liggja ekki fyrir á Suðurlandi, Vesturlandi, Norðurlandi vestra eða á Kjósarsvæði. Helmingur leiksvæða á Vestfjörðum hlaut slíka skoðun í fyrra og tæplega helmingur á Suðurnesjum. Ekkert leiksvæði á Austurlandi hlaut aðalskoðun í fyrra.

Yfir áttatíu prósent leiksvæða í Kópavogi og Hafnarfirði hlutu aðalskoðun árið 2020 en alvarlegt slys varð í leiktæki á skólalóð í Kópavogi fyrir tæpum þremur mánuðum er sex ára drengur féll úr þriggja metra háum kastala og hryggbrotnaði.

„Almennt er mjög gott eftirlit með öryggi á leikvallasvæðum og sinna heilbrigðiseftirlitssvæðin og rekstraraðilar slíku eftirliti, enda eru starfsmenn heilbrigðiseftirlitssvæða þjálfaðir í slíku eftirliti,“ segir Gunnar Alexander Ólafsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Á vef Umhverfisstofnunar segir að reglubundnum skoðunum og rekstrarskoðunum sé vel sinnt á flestum leiksvæðum en að um árabil hafi mikill minnihluti rekstraraðila leiksvæða óskað eftir aðalskoðun. Árið 2009 hafi aðeins 20 prósent svæða verið aðalskoðuð.

BSI á Íslandi ehf. er eina faggilta skoðunarstofan hér á landi sem getur og hefur leyfi til að framkvæma aðalskoðanir á leiksvæðum.Árni H. Kristinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að breyting hafi orðið til batnaðar því fleiri láti gera aðalskoðun árlega.

„Hér er um vitundarvakningu að ræða,“ segir Árni. „Þó er hægt að segja að Reykjavíkurborg skeri sig alveg úr í þessum efnum.“

Rót vandans segir Árni vera að eftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sé í ólestri „þar sem horft er fram hjá samræmdum eftirlits­kröfum, meðal annars við veitingu starfsleyfa leikskóla, þar sem gerð er krafa um að fylgt sé kröfum um að meðal annars aðalskoðun sé framkvæmd árlega.“

Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur segir aðalskoðun aðeins hluta af reglubundnu, innra eftirliti sem rekstraraðila sé skylt að hafa með leiksvæði.

„En reglubundnar yfirlitsskoðanir og rekstrarskoðanir ábyrgðaraðila hafa mest vægi varðandi daglegt öryggi á leiksvæðum,“ segir Árný.

Þá segir Árný heilbrigðiseftirlitið með lögboðið eftirlit á leiksvæðum í borginni hjá öllum rekstraraðilum, en bendir á að fleiri reki leiksvæði í Reykjavík en borgin. Langflest leiksvæði séu í góðu ásigkomulagi. „Heilbrigðiseftirlitið gerir kröfur um úrbætur í samræmi við tilefni og í flestöllum tilfellum er hratt og vel brugðist við athugasemdum, ef ekki er því fylgt eftir,“ segir Árný.

Spurð hvers vegna borgin hafi ekki sætt viðurlögum við brotum á reglugerð, segir Árný Heilbrigðiseftirlitið ekki hafa beitt rekstraraðila, sveitarfélög eða einkaaðila leiksvæða þvingunarúrræðum, vegna þess einungis að aðalskoðun hafi ekki farið fram.

„Þvingunarúrræðum af hálfu Heilbrigðiseftirlitsins gagnvart rekstraraðilum er beitt, til dæmis starfsemi takmörkuð eða leiktæki tekin úr notkun ef ástæða er til. Aðalskoðun ein og sér tryggir ekki öryggi á leiksvæðum eins og dæmin sanna,“ segir Árný.