Eftirlit Samgöngustofu á starfsleyfishöfum verður bæði umfangsmeira og tíðara þegar breytingar eru á rekstri. Ávallt sé markmið að tryggja flugöryggi. Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir í samtali við Fréttablaðið að tíðni og umfang eftirlits Samgöngustofu með rekstri flugfélaga fari eftir aðstæðum hverju sinni. Hún segir að stofnunin tjái sig ekki um málefni einstaka starfsleyfishafa.

Spurð út í fundi Samgöngustofu með WOW Air sagði hún að hún gæti ekki tjáð sig um einstaka fundi við fjölmiðla. Þórhildur útskýrir að allt starf Samgöngustofu byggi á vinnureglum sem eigi sinn uppruna í sameiginlegri evrópskri reglugerð. Hún útskýrir að eftirlit Samgöngustofu með flugrekstrarhöfum miði að því að flugöryggi sé alltaf sett í fyrsta sæti.

„Með flugöryggi þá meinum við að sama hvaða breytingar verða á rekstrarumhverfi flugrekenda þá sé það aldrei vanrækt að viðhald vélanna sé með fullnægjandi hætti, þjálfun áhafna sá ávallt sinnt og svo framvegis. Þetta er okkar biblía í eftirlitsþættinum og það er markmiðið,“ segir Þórhildur.

Hvernig fer eftirlitið fram?

„Það fer fram með ýmsum hætti en byggir að miklu leyti á gagnaskoðun. Þau geta verið með reglubundnum hætti ef að engar breytingar eru á rekstrarumhverfi þá geta það verið ársreikningur eða ársáætlun. En þegar breytingar eru á rekstrinum, til að mynda endurskipulag fjárhags, þá getur eftirlitið orðið umfangsmeira og tíðara,“ segir Þórhildur.

Hún segir að eftirlitið fari ávallt eftir aðstæðum en þegar „áskoranirnar margar þá verður eftirlitið meira.“ Hún segir að með í aukni eftirliti geti falist nákvæmari skoðun á gögnum frá flugfélaginu og ítarlegri upplýsingarkrafa, með þeim hætti að það getur orðið viðvarandi.

Spurð hvort neytendur og almenningur hafi í auknum mæli hringt til þeirra til að forvitnast um réttindi sín segir Þórhildur margir hafi hringt, en tekur þó fram að mikið sé hringt alla daga. Hún segir að réttindi flugfarþega séu bæði á þeirra könnu og á könnu Neytendastofu

„Réttindi flugfarþega eru á okkar könnur hvað varðar samskipti þeirra við flugrekendur. Það hefur verið töluvert spurt um réttindi flugfarþega. Þetta er búið að vera mikið í fréttum og margir hafa áhuga á þessu máli. Þetta er samfélagslega mikilvæg mál og kemur mörgum við,“ segir Þórhildur að lokum.