Tilkynningar til lögreglu vegna brota á samkomubanni skipta hundruðum síðasta sólarhringinn. Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra, segir að eftirlit verði hert næstu daga og skoðað verði hvort það þurfi að beita sektum.

Hann segir brot á sam­komu­banninu vera aðal­lega tvenns konar. „Þetta er annars vegar ein­stakir veitinga­staðir sem hafa ekki alveg fylgt þessu og ein­stakar verslanir,“ segir Víðir í sam­tali við Frétta­blaðið. „Síðan höfum við fengið til­kynningar um í­þrótta­hópa sem hafa verið að hittast og æfa,“ bætir hann við. Hann segir það mjög sér­stakt að Ungmennafélag Íslands hafi fundið sig knúið til þess að setja fram sér­staka til­kynningu um að í­þrótta­fé­lög séu ekki að virða sam­komu­bannið. „Það segir kannski eitt­hvað um stöðu málsins,“ segir Víðir.

Viðskiptavinir verslana vandamálið

Hann fór sjálfur í vett­vangs­ferð í dag og skoðaði mat­vöru­verslanir. Hann segir þær lang­flestar vera fara eftir reglum og sinna sam­komu­banninu vel. „Þeir eru að telja inn í búðirnar, þeir eru með doppur í gólfinu, þeir eru með að­skilnað fyrir starfs­mennina en svo eru það bara við­skipta­vinirnir sem eru ekki að virða þetta. Starfs­menn Bónus eru að labba á milli og biðja fólk um að virða tveggja metra milli­bilið og svo um leið og starfs­mennirnir er farnir frá þá er komnir þrír við­skipta­vinir á sama kassann,“ segir Víðir en heyra mátti vonbrigði í rödd hans á hegðun fólks.

Hann biður fólk um að gefa sam­borgurum sínum meira pláss og flýta sér hægt.

„Þetta er eitt­hvað sem við þurfum að taka á. Verslanirnar eru að gera sitt. Þeir eru að fylgja reglunum og svo erum við sem við­skipta­vinir ekki að fara eftir neinu.“

„Við verðum öll að standa saman í þessu“

Hann segir að ekki hefur þurft að sekta neinn enn sem komið en segir að það verður skoðað. „Það er ljóst að það þarf að skoða það að beita því. En í þessum til­kynningum sem ég fór að skoða sér­stak­lega og síðan fór og kynnti mér sjálfur þá snýr þetta kannski miklu frekar að því hvernig við sjálf virðum frið­helgi hvers annars í þessu á­standi heldur en það að at­vinnu­rek­endurnir séu ekki að standa sig. Fólk virtist ekki nenna því að bíða í röðinni það virtist vilja troða sér á kassann,“ segir Víðir. Sektir við brot á samkomubanni geta verið á bilinu 50 til 500 þúsund kr.

Hann segir að til standi að herða eftir­lit næstu daga en það sé erfitt að bregðast við ef rekstrar­aðilarnir eru að standa sig en við­skipta­vinirnir ekki. Það er ekki hægt að sekta við­skipta­vini. „Fyrir sam­komu­banns hlutan þá snúa sektar­gerðirnar fyrsta og fremst að þeim sem er á­byrgur fyrir að­stöðunni eða hús­næðinu og ef hann er að standa við sitt og með allar merkingar og gerir allt í sínu valdi stendur til þess að reglurnar eru ekki brotnar þá er mjög erfitt að sekta við­komandi,“ segir Víðir.

„Þetta sýnir bara enn þá meiri á­hersluna á það hversu mikil­vægt það er að hver sinni sínu og er ekki að varpa á­byrgðina yfir á aðra. Við verðum öll að standa saman í þessu og verðum öll að gera okkar þá gengur þetta, öðru­vísi ekki.“