Á­höfn TF-SIF, flug­­vél Land­helgis­­gæslunnar, stuðlaði að björgun rúm­lega 1.300 flótta­manna á meðan þau sinntu eftir­liti á vegum Landa­­mæra­­stofnunar Evrópu, Fron­tex, síðustu mánuði.

Hregg­viður Símonar­son, annar stýri­maður flug­vélarinnar, hefur sinnt slíku eftir­liti í um tíu ár. Hann segir að straumur flótta­manna yfir Mið­jarðar­hafið hafi á tíma­bilinu minnkað að ein­hverju leyti, en einnig breyst. Þá verði þó að taka til­lit til þess að ís­lenska gæslan sinni eftir­liti á stóru svæði, sem færri fari um á leið sinni yfir hafið.

„Ég er búinn að vera á flug­vélinni alveg síðan hún kom árið 2009. Við erum á­kveðinn hópur stýri­manna, alls fimm, sem skiptust á, en það eru alltaf tveir um borð í vélinni. Tveir okkar hafa verið alveg frá upp­hafi,“ segir Hregg­viður Símonar­son hjá Land­helgis­gæslunni í sam­tali við Frétta­blaðið.

Auk hans í eftir­liti eru yfir­leitt flug­virki, aðrir stýri­menn, flug­menn og stöðvar­stjóri.

Verk­efnið hefur verið í gangi í sam­vinnu við Fron­tex frá árinu 2010. Hregg­viður segir að þá hafi eftir­litið mikið farið fram nærri Grikk­landi, aðal­lega í Les­bos, um það leyti er þegar stríðið í Sýr­landi hófst. Hann segir að um­fang vandans hafi breyst mikið á tíma­bilinu. Færri komi nú til Ítalíu og Grikk­lands og fleiri til Spánar.

„Á fyrstu árunum var þetta að­eins í Grikk­landi, en frá því hefur það færst til Spánar,“ segir Hregg­viður.

Allskonar bátar á hafi

Hluti af eftir­litinu er að greina það sem er á hafi.

„Það eru alls­konar bátar, allt frá flutninga­skipum með fólki niður í jetski. Alls­konar fiski­bátur og skútur,“ segir Hregg­viður.

Hann segir að starfs­menn Land­helgis­gæslunnar komi ekki að björgun flótta­fólksins sem slíkri, en það sé innan þeirra verka­hrings að fylgjast með bátunum og láta vita hvar þeir eru svo björgunar­bátar komast til þeirra.

„Ef fólk er í sjónum getum við kastað til þeirra bátum og ef það er mjög langt í að­stoð, en yfir­leitt hanga þau enn utan á bátunum. Við höfum séð hálf­sokkna báta sem fólk er í, en sem betur fer hefur verið mjög stutt í björgina,“ segir Hregg­viður

Hann segir að sumir bátarnir sem þau sjái séu vel fullir.

„Það þyrfti ekki mjög slæmt veður svo að þeir myndu fara á hliðina,“ segir Hregg­viður.

Hann segir að að­stæður á Mið­jarðar­hafinu séu mjög ó­líkar eftir því hvaða árs­tíð ræðir. Á sumrin leitist fólk jafn­vel eftir því að flytja sig yfir í myrkri til að forðast hitann. Þá geti fólk lifað það af um langa hríð þegar svo heitt er að lenda í sjónum, kunni það að synda, sem í mörgum til­fellum það kunni ekki.

„Það hrein­lega sekkur,“ segir Hregg­viður.

Hreggviður hefur sinnt eftirliti við Miðjarðarhafið í tæp tíu ár.
Fréttablaðið/Anton Brink

Lengd flugs fari eftir því hvort þeir finni eitthvað

Hvert flug er að sögn Hregg­viðs um fjórar til sex klukku­stundir, það fari eftir því hversu stórt svæðið er sem þeir eigi að skoða og hvort þeir finni eitt­hvað.

„Ef við finnum eitt­hvað þá lengist alltaf flugið og við getum verið allt að sex og hálfan tíma. Við höfum verið að finna alveg upp í sex­tán báta í einu flugi. En yfir­leitt eru það um þrír eða fjórir,“ segir Hregg­viður.

Gert er ráð fyrir því að í á­höfn TF-SIF, flug­­vél Land­helgis­­gæslunnar, hafi stuðlað að björgun rúm­lega 1.300 flótta­manna á meðan þau sinntu eftir­liti á vegum Landa­­mæra­­stofnunar Evrópu, Fron­tex, síðustu mánuði en að sögn Hregg­viðs hafa þau oft áður verið fleiri og eru lík­lega um tugir þúsunda saman­lagt ef litið er til alls þess tíma sem Ís­land hefur tekið þátt í eftir­litinu.

Hafi stuðlað að björgun tugþúsunda á tíu árum

„Síðan við byrjuðum eru það örugg­lega tugir þúsunda. Það er mis­jafnt eftir svæðum. Lang­mest erum við að finna á Spáni, en minna við Grikk­land og Ítalíu. En það er bara af því að það eru færri bátar og lengra að fara þangað, sér­stak­lega til Ítalíu. En við finnum alls­konar báta, bæði litla og stóra,“ segir Hregg­viður.

Hann segir að það sé þó einnig vegna þess að vegna þjálfunar og þekkingar sinnar fái starfs­menn ís­lensku land­helgis­gæslunnar svæði út­hlutað sem minni um­ferð er um.

„Við erum á hafinu. Við nýtumst best í stærra svæði því við sjáum meira, það eru yfir­leitt þyrlur á litlu svæðunum,“ segir Hregg­viður.

Hann segir að búnaður flug­vélarinnar TF-SIF sé ein­stak­linga góður fyrir eftir­litið. Það séu mynda­vélar utan á vélinni og radar og svo hafi starfs­mennirnir mikla og góða reynslu. Fimm starfs­menn skipti eftir­litinu á milli sín, en hjá öðrum fjöl­mennari þjóðum séu kannski 100 ein­staklingar að skipta því á milli, sem þýði að hver fari kannski að­eins einu sinni. Það skapist þannig ekki sama reynsla hjá öðrum þjóðum.

Í byrjun ágúst­­mánaðar urðu stýri­­menn vélarinnar varir við meinta smyglara sem voru með alls 66 flótta­­menn um borð um miðja nótt. Fólkinu hafði verið komið fyrir í „hrip­­lekum gúmmí­bát“. Hluti hópsins í sjónum en sem betur fer kom á­höfn flug­­vélarinnar auga á fólkið og gerði spænskum yfir­­völdum við­vart. Hregg­viður segir að slík sjón þó alls ekki al­geng.

„Báturinn var mjög hrað­skreiður og þeir eru það yfir­leitt ekki. Við erum oft að sjá stóra gúmmí­báta með einum mótor og 60 til 70 manns um borð. Fólk getur ekki rétt úr löppunum, það er það þétt setið,“ segir Hregg­viður.

Hann segir að þau geti yfir­leitt séð hvort um sé að ræða karla, konu eða börn og telur að meiri­hluti þeirra sem flýja séu karl­menn. Hann telur að flótta­fólkið megi flokka í um tvo flokka, það séu annars vega fólk frá Sahara eyði­mörkinni sem flýr hungur og stríð og svo ungir Norður-afrískir menn sem eru í leit að vinnu. Þau sem komi frá Sahara eyði­mörkinni komi í stærri hópum, eða um 50 manns, en hinir séu minni og geti verið allt niður í fimm eða sex manns.

Fái ekki að vita um afdrif fólksins eftir björgun

Hann segir að eftir að gæslan láti við­eig­andi yfir­völd vita af fólki fái þau ekki meiri upp­lýsingar um af­drif þeirra.

„Það er farið með það í land og við fáum aldrei meiri fréttir. Við vitum að þeim er bjargað, hversu mörg þau eru og skiptingu á því hvort um er að ræða börn eða full­orðna, en meira fáum við ekki að vita. Af því að við tökum ekki fólk um borð, en það var kannski að­eins öðru­vísi þegar skipin voru því þá tókum við flótta­menn um borð og fórum með þau í land,“ segir Hregg­viður.

Land­helgis­gæslan sinnir slíku eftir­liti um tvisvar á ári í um tvo mánuði í senn á hverju ári. Um er að ræða fram­lag Ís­lands í sam­eigin­legt landa­mæra­eftir­lit á syðri landa­mærum Schen­gen-svæðisins og segir á heima­síðu Land­helgis­gæslunnar að öllum Schen­gen-ríkjum ber skylda til að að­stoða hvert annað á á­lags­svæðum.

Frá 2010-2015 var Land­helgis­gæslan með varð­skip og flug­vél í þessum verk­efnum en frá 2016 hefur eftir­lits og björgunar­flug­vélin TF-SIF flug­vélin sinnt þessum verk­efnum í 2 til 4 mánuði á ári. Verk­efnið felst í vöktun ytri landa­mæra Schen­gen í lög­sögu Spánar, Ítalíu og Grikk­lands við norður Afríku. Um er að ræða al­menna lög­gæslu með á­herslu á björgun flótta­fólks. Sjá nánar hér.