Tveir voru handteknir og vistaðir í þágu rannsóknar eftir að lögreglan náði að þvinga bíl þeirra af veginum á Kjalarnesi. Þeim var veitt eftirför úr Árbænum.

Mennirnir eru sakaðir um brot á lögum um líkamsárás, akstur undir áhrifum áfengis/fíkniefna, umferðarlagabrot og fleira.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hófst eltingarleikur lögreglunnar í Árbæ og fór í gegnum Grafarvoginn á leið sinni upp á Kjalarnes.

Þannig voru þrír lögreglubílar og sérsveitarbíll að störfum við að reyna að stöðva umrædda bifreið.

Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að rannsókn málsins sé á frumstigi og því geti lögreglan ekki tjáð sig frekar að svo stöddu.