Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, segir fyrirtækið hafa þurft að undirbúa sig fyrir verkföllin sem hófust í dag, til dæmis með því að stöðva frekari bókannir á hótelinu og flytja gesti á önnur hótel. „Þetta hefur verið nokkuð vel undirbúið, þó þetta sé auðvitað mjög erfitt.“

„Óneitanlega er það auðvitað alltaf þannig að ef það fer að lengjast í þessu verkfalli þá munu gestir fara að finna fyrir þessu, sem er auðvitað ekki gott.“

Hann segist vona að verkfallið muni ekki standa yfir í lengri tíma, þá verði erfitt að halda úti starfsemi á öllum hótelunum. Og ef fleiri fari í verkfall verði hreinlega orðið erfitt að taka á móti þeim gestum sem komi til landsins.

Davíð segir að æðstu stjórnendur hjá Íslandshótelum megi ganga í störf þeirra sem séu í verkfalli og að það muni þeir gera. „Það eru allar hendur boðnar og búnar í að láta hlutina ganga sem best fyrir sig,“ segir hann.

Hann segir erfitt að átta sig á því hversu mikið fyrirtækið muni tapa á verkfallinu, og fullyrðir hann að það sé nú þegar orðið mikið.

„Það er alveg ljóst að tapið verður mikið og eftir því sem verkfallið verður lengra því meira verður tapið, eðlilega.“