„Það voru margir skjálftar og nokkuð snarpir sem áttu upp­tök sín mjög nærri bænum núna síðustu helgi. Fólk varð vart við þá og við það rifjuðust upp kannski at­burðir sem voru fyrir rúmu ári þegar gaus,“ segir Fannar Jónas­son bæjar­stjóri Grinda­víkur, en til stendur að halda í­búafund á morgun vegna ó­vissu­stigs sem lýst hefur verið yfir vegna jarð­skjálfta­hrinu á Reykja­nes­skaga.

„Þetta er ekki þægi­legt og fólki líður misilla með þetta. Það er þess vegna sem við viljum halda þennan fund,“ segir Fannar en vísinda­menn og full­trúar frá lög­reglu­em­bættinu munu vera við­stödd. Hann segir að það verði að upp­lýsa íbúa hvers vegna þetta er að gerast og hvers má vænta í fram­haldinu.

„Það eru miklar og góðar mælingar sem eru gerðar á þessu svæði. Menn eru reynslunni ríkari frá jarð­­skjálfta­hrinum á Reykja­nesinu og svo eld­­gosinu á Geldinga­­dölum. Það er bara verið að reyna geta í það sem menn sjá fyrir sér og upp­­­lýsa fólk með réttustu og bestu upp­­­lýsingunum,“ segir Fannar.

Spurður hvort að Grinda­vík sé reiðu­búin undir annan eins ferða­manna­straum og flæddi yfir bæinn við síðasta gos í Fagra­dals­fjalli, segir Fannar að bæjar­yfir­völd séu meira en reiðu­búin.

„Það var strax tekin sú á­­kvörðun á sínum tíma að vera ekki að hefta för fólks að þessum mjög merki­­lega náttúru­­fyrir­­bæri,“ segir Fannar.

„Við reyndum að gæta þess að fólk færi sér ekki að voða og reyndum að ein­hverju leyti að stýra um­­­ferðinni. Það var náttúru­­lega gríðar­­legur fjöldi sem kom í bæinn og það er enn þá mikið að fólki að mæta í bæinn, en það er búist við straumum af fólki hingað í sumar. Ef það dregur til frekari tíðinda á svæðinu þá mun það draga fólk hingað og okkar hlut­­verk er að reyna gæta öryggi fólks.“

Fannar segir að Reykja­nes­skaginn sé vaknaður til lífsins. „Eftir 800 ára svefn þá er hann að vakna á nýjan leik. Það virðist vera heil­­mikið líf undir fótunum á okkur og menn vitandi þetta eru bara að reyna undir­­búa sig sem best.“