„Það er ólíklegt að nefndin ljúki störfum í þessari viku. Við munum funda stíft í vikunni og tökum stöðuna í vikulok,“ segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar.

Nefndin hefur haft langa fundardaga í þessari viku og er að sögn Birgis að hefja umræðu um þau gögn sem nefndin hefur aflað. Aðspurður segir hann gagnaöflun að mestu lokið og nú hefjist umræða um hina matskenndu þætti og eiginlegar umræður um tillögugerð nefndarinnar til þingsins.

Um samstöðuna í nefndinni segir Birgir hana hafa verið góða um málsmeðferð nefndarinnar. „Svo á eftir að koma í ljós hvort samstaða verður um hina matskenndu þætti sem nefndin þarf að fara yfir og tillögugerð nefndarinnar,“ segir Birgir.

Hann segir að í venjulegu árferði skili kjörbréfanefndin sameiginlegri tillögu. En nefndin sé að fást við öðruvísi mál núna.

Birgir segir ómögulegt að segja til um hvort nefndin klofni í lokaniðurstöðu sinni.

„Ég held að vilji allra nefndarmanna standi til þess að skila tillögu í sameiningu og ég vona að svo verði,“ segir Birgir að lokum.