Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti í gær ákvörðun sína um að veita sex milljón króna styrk til Frú Ragnheiðar, skaðaminnkunarverkefnis Rauða krossins. Styrkurinn kemur til viðbótar við níu milljóna styrk sem verkefninu var veittur þegar styrkjum var úthlutað til félagasamtaka sem starfa að heilbrigðismálum fyrr á þessu ári.

Frú Ragnheiður er sjálfboðaliðaverkefni sem býður fólki sem notar vímuefni í æð upp á skaða­minnkandi þjónustu, svo sem nýjar nálar, ásamt því að veita heilbrigðisþjónustu. Þjónustan er veitt í sérútbúnum bíl sem er á ferðinni um höfuðborgarsvæðið sex kvöld í viku.

Í svari Rauða krossins við fyrirspurn Fréttablaðsins segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, að styrkurinn sé afar mikilvægur til að halda verkefninu gangandi en að enn vanti mikið upp á. „Styrkur sem þessi aðstoðar okkur auðvitað við að halda verkefninu áfram en það vantar enn töluvert fjármagn til þess að halda verkefninu úti. Fjárþörfin er mjög mikil,“ segir Brynhildur.

Rauði krossinn heldur úti skaða­minnkunarverkefnum ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig á Akureyri og er stefnt á að fara af stað með álíka verkefni á Suðurnesjum. „Það er ljóst að þörfin fyrir skaða­minnkunarverkefni er mikil og það er ábyrgðarhlutverk að halda úti samfelldri þjónustu,“ segir Brynhildur.

Áherslurnar breyttar vegna Covid-19

Frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á hafa áherslur Frú Ragnheiðar breyst að mörgu leyti þrátt fyrir að markmiðið með þjónustunni sé enn hið sama, að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu í formi heilbrigðisþjónustu og nálaskiptiþjónustu. Með tilkomu faraldursins var lögð aukin áhersla á að koma upplýsingum um COVID-19 til þess hóps sem þangað leitar.

Breyttar áherslur verkefnisins og upplýsingagjöf hefur gengið vel samkvæmt Brynhildi og ekki hefur komið upp smit í skjólstæðingahópi Frú Ragnheiðar. „Margir okkar skjólstæðinga hafa ekki tækifæri til að fylgjast með fréttum enda um 65 prósent þeirra heimilislausir og því gríðarlega mikilvægt að koma til dæmis upplýsingum um smitvarnir til þeirra,“ bætir hún við.

Ofbeldi hefur aukist

Þá segir hún faraldurinn hafa haft gríðarleg áhrif á bæði starfið og skjólstæðinga verkefnisins. „Það er minna af efnum í umferð og þau eru dýrari og erfiðara að nálgast þau. Þá hefur ofbeldi aukist,“ segir Brynhildur.

Vel hefur gengið að halda starfseminni gangandi þrátt fyrir faraldurinn og einungis hefur ein vakt dottið út frá því að samkomubann var sett á. „Helsta breytingin var kannski flóknara verklag og slíkt en verkefnið er auðvitað ekkert annað en skjólstæðingarnir svo að erfiðleikar sem þeir glíma við birtast okkur mjög greinilega.“