Áhrif sóttvarnaaðgerða vegna COVID-19 faraldursins eru minni hér en í öðrum ríkjum OECD, þrátt fyrir að ferðaþjónustan hafi orðið fyrir miklum áföllum og sé stærri hluti efnahagsins hér en í samanburðarlöndum. Þetta kemur fram í niðurstöðum starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um efnahagsleg áhrif valkosta í sóttvarnarmálum.
Íslendingar hafa samkvæmt skýrslu starfshópsins fylgt sóttvarnarreglum og stutt við þær sem eigi mikinn þátt í hve vel hefur tekist að takmarka áhrif faraldursins á efnahaginn. Sóttvarnir hafi verið minna íþyngjandi hér en í flestum OECD-ríkjum og efnahagurinn því orðið fyrir minna höggi. Einkaneysla hefur ekki orðið fyrir miklum áhrifum sem hefur sitt að segja um efnahagslegar afleiðingar faraldursins.
Sóttvarnaraðgerðir þurfa að vera tímanlegar.
Lykilatriði sé að halda faraldrinum í skefjum til að tryggja að efnahagsleg áhrif verði ekki meiri þegar fram líða stundir. „Sóttvarnaraðgerðir þurfa að vera tímanlegar og nægjanlegar til að skila tilætluðum árangri,“ segir meðal annars í niðurstöðum skýrslunnar.
Útbreiðsla bólusetninga er lykilatriði í efnahagslegri viðspyrnu vegna faraldursins að mati starfshópsins, bæði hér og í þeim ríkjum sem við eigum viðskipti við. Sækist það verkefni vel verður hægt að draga úr sóttvörnum en meðan sú vinna er í gangi má telja líklegt að almenningur hugi betur að sóttvörnum til að tryggja að smitast ekki þegar bólusetning er innan seilingar.

Áhrif faraldursins hafa verið mjög mikil á ferðaþjónustuna. Starfshópurinn styður við breytingar á fyrirkomulagi á landamærunum sem taka gildi í vor og fela í sér að auðveldara verður fyrir ferðamenn frá löndum þar sem faraldrinum er haldið í skefjum. Slíkar aðgerðir muni skapa meiri fyrirsjáanleika í sölu ferða til Íslands, án þess að hætta verði á að faraldurinn fari úr böndunum.
Ráðgjafarfyrirtækið Analytica vann greiningu á efnahagslegum áhrifum faraldursins fyrir starfshópinn. Þar kemur fram að samdráttur efnahagsumsvifa af þeim sökum nam um 8 prósentum í fyrra sé ekki tekið tillit til mótvægisaðgerða stjórnvalda en 5 prósentum sé það gert. Beinar mótvægisaðgerðir ríkisins nema samanlagt um 7% af landsframleiðslu á árunum 2020 og 2021.

Samkvæmt skýrslunni er þó ekki einungis hægt að meta áhrifin COVID-19 faraldursins með því að skoða landsframleiðslu. Hann hafi einnig í för með sér „fjölþætt velferðartap“, meðal annars vegna áhrifa á heilsufar þjóðarinnar. Það tap nemi um 75 milljörðum króna eða um 2,5% af vergri landsframleiðslu.
Hætt er við að aukið og þrálátt atvinnuleysi verði fylgifiskur faraldursins og slæleg þátttaka og ásókn í virk vinnumarkaðsúrræði er áhyggjuefni. Starfshópurinn telur að auka þurfi fræðslu til einstaklinga og fyrirtækja um slík úrræði og hvetja til þátttöku. Tryggja þurfi að Vinnumálastofnun sé vel í stakk búin til að takast á við það verkefni.