Olga Björk Guðmundsdóttir, formaður efnaskipta- og offituteymis Reykjalundar, segir mikið tabú og fordóma hafa verið í kringum offitu karlmanna. Þeim sé þó að fjölga sem leita sér aðstoðar.
Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær er offita meira vandamál hjá körlum en konum og spáð er að bilið muni breikka.
„Það virðist sem konur gefi sér meiri tíma til að vinna í sinni heilsu og leita til heilbrigðisþjónustunnar. Vitund meðal karla um offitu og heilsu hefur samt aukist,“ segir Olga. Miðlæga dreifing offitunnar sem er stundum meiri hjá körlum en konum getur leitt til sykursýki 2 og hjarta- og æðasjúkdóma.
Reykjalundur nær að sinna 170 til 180 manns á ári í meðferð með þeim fjárframlögum sem Sjúkratryggingar veita. Olga segir að biðlistinn mætti vera styttri.
„Karlar hafa vaknað til aukinnar vitundar um að gefa sér tíma til að sinna heilsunni sinni og verið aukning milli ára hjá okkur af körlum sem leita til okkar í meðferð,“ segir hún.
Spáð er 2,2 prósenta aukningu á offitu sem er Olgu mikið áhyggjuefni. Hættan við efnahagsástand eins og nú er sé að fólk þurfi að vinna meira til að hafa í sig og á. Þar af leiðandi sé minni tími til að huga að heilsunni. „Kröfurnar og streitan eru að aukast í samfélaginu. Fólk þarf að slaka á og gefa sér meiri tíma,“ segir hún.
Aðspurð um megrunarlyf segir Olga þau eins og hver önnur hjálpartæki sem þurfi að fara vel með. „Lyfin þurfa að dansa í takti við aðrar lífsstílsbreytingar. Þau eiga ekki að vera kvikk-fix,“ segir hún.